01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1927

Sigurður Eggerz:

Það vill oft verða svo, að lofið er hverfult í þessari syndugu veröld. Hæstv. fjrh. (JÞ) hældi nýlega (við 2. umr. fjárlagafrv.) háttv. fjvn. þessarar deildar fyrir dygðugt framferði. en nú tók hann alt þetta lof sitt aftur. Jeg hefi einnig haft ástæðu til að þakka háttv. fjvn. framkomu hennar í einni tillögu, um skáldkonuna norðlensku, en nú að síðustu verð jeg líka að taka alt mitt hrós um háttv. fjvn. aftur, því hún hefir gerst mjer skyndilega mótsnúin og erfið í viðskiftum. Jeg á við brtt. mína um hækkun á framlagi til skrifstofukostnaðar sýslumanna og bæjarfógeta úr 92 þús. upp í 100 þús. kr. Jeg hefi áður sýnt fram á, að þessir embættismenn verða mjög hart úti, og þarf ekki að endurtaka það alt aftur. En hæstv. forsrh. (JM) hjelt því fram, að í minni stjórnartíð, er jeg var forsrh., hafi þeir ekki verið betur farnir; t. d. hafi einu sinni aðeins verið áætlaðar 42 þús. kr. í þessu skyni, en jeg er búinn að skýra frá því áður, að þessi upphæð komst í fjárlögin af misgáningi og engu öðru, enda sagði jeg þegar fjvn. frá þessu, svo það yrði lagfært. En á Alþingi stóð jeg í sífeldum erjum og nærri stöðugum deilum við fjvn. út af þessum málum. Jeg taldi mig ekki vera bundinn við fjárlagaupphæð þá, sem ætluð var til þessa, og sem dómsmálaráðh. taldi jeg mig hafa vald til að ákveða skrifstofufje sýslumanna eftir þörfum, enda var eitt árið goldið um 16 þús. kr. meira í þessu skyni en stóð í fjárlögum. Þegar lögin sjálf mæla svo fyrir, að sýslumenn skuli fá skrifstofufje og ferðakostnað við þingaferðir endurgreiddan úr ríkissjóði, er það allóviðfeldið, að þeir verði að greiða þetta úr sjálfs sín vasa. Þannig er t. d. upplýst, að sýslumaðurinn í Snæfellsnessýslu hefir kostað til embættis síns um 1000 kr., sem ríkissjóður hefði átt að greiða. Hæstv. forsrh. sagði, að kröfur sýslumanna væru svo misjafnar, þó að aðstæður þeirra væru mjög svipaðar. Jeg sje ekki ástæðu til að fara aftur nánar út í þetta mál, en læt mjer nægja að benda hæstv. ráðh. (JM) á, að aðstæður sýslumanna geta verið mjög ólíkar, þó að embættin sjeu talin vera jöfn að umsvifum; t. d. geta tekjur verið mjög svipaðar hjá tveimur sýslumönnum, en aðrar kringumstæður ólíkar; t. d. getur staðið svo á í einni sýslunni, að hægt sje að fá sýsluskrifara, sem hafi starfið sem aukastarf með einhverju öðru, en í hinni sýslunni verði að ráða mann með fullum launum til þess sama verks.

Hæstv. forsrh. sagði, að ekki mætti bera sýslumenn úti um land saman við lögreglustjóra eða bæjarfógetann í Reykjavík. Mjer sýnist, að auðsætt sje, að báðir eigi að fá greitt skrifstofufje sitt og kostnað umyrðalaust. Hví skyldi í þessu tilliti setja bæjarfógeta og lögreglustjóra hjer hærra en samskonar embættismenn úti um land?

Jeg mun að því er snertir aukatekjur þær sem teknar voru af sýslumönnum á síðasta þingi, ekki endurtaka öll rök mín um það frá í fyrra. Aðeins með tilvísun til þess fullyrða, að fyrir hvaða dómstóli sem verið hefði, þá hefðu þeir unnið þetta mál. Því tilvísunin í aukatekjulögin var svo ákveðin, og í sjálfum athugasemdunum við stjórnarfrv. var tekið fram, við hvaða lög var átt.

Jeg endurtek, að það er mjög varhugavert fyrir þjóðfjelagið að hafa þá menn, sem innheimta eiga tekjur ríkissjóðs og sem trúað er fyrir miklu fje, jafnilla launaða og sýslumennirnir eru.

Þá kem jeg að brtt. minni um styrkinn til Páls Ísólfssonar. Jeg heyrði það á ræðu háttv. frsm. fjvn. (EP), að nefndin stóð gegn breytingartillögunni með mjög vondri samvisku. Og spaugilegt var, að ekki mætti viðurkenna Pál Ísólfsson af því að hann væri ekki nógu gamall. Nina Sæmundsson var yngri en Páll, og fjekk hún þó viðurkenningu fyrir þann sóma, sem hún gerði landinu.

Nei, hv. fjvn. á sannarlega ekkert lof skilið fyrir að taka svona í þessa tillögu. Þau lofsyrði, sem hún var að smeygja inn, voru í meira lagi hræsniskend. þegar hún svo ætlar að rjetta puttana upp á móti tillögunni. Og svo bætir háttv. fjvn. gráu ofan á svart, þegar hún leyfir sjer að bera það fram sem ástæðu, að Páll Ísólfsson hafi ekki nógu mikið af hvítum hárum í höfðinu til þess að fá slíka viðurkenningu! En þegar kvennaskólinn í Reykjavík er hjer til umr., þá hugsa þessir sömu menn sig ekki um að ausa út fjenu. (IHB: Svona, svona). Það mundi lýsa skilningi hjá hv. nefnd, ef hún sæi, að einmitt nú þarf Páll Ísólfsson að fá fjárhagslegan stuðning. Þegar heimurinn er búinn að viðurkenna hann, fær hann nógu mikið í aðra hönd. Jeg vona, að þm. nefnd skilji, að jeg er henni alls ekki þakklátur, og vil jeg hjer með taka aftur alt það lof, sem jeg hefi á hana borið.

8. brtt. er viðvíkjandi prófastinum í Hruna. Jeg var að reyna að skilja rökstuðning hv. frsm. (EP), en mjer tókst það ekki. Jeg skil það svo, að þessi brtt. sje ekki fram komin til þess að ljetta undir með prófastinum, heldur til þess að greiða fyrir því, að Suðurlandsskólinn geti fengið sem bestan forstöðumann. Það er ósköp eðlilegt, að þeir menn, sem þarna standa að, vilja hafa fyrsta forstöðumann skólans slíkan sem sjera Kjartan í Hruna. Bróðir hans hefir verið forstöðumaður kennaraskólana síðan hann var stofnaður, og hygg jeg, að engum blandist hugur um, hvernig þeim skóla hefir verið stjórnað. Jeg kom einu sinni á fund austur við Þjórsá, og þar komu fram einróma raddir um að fá sjera Kjartan til að veita Suðurlandsskólanum forstöðu. Jeg gat ekki skilið andmæli hv. frsm. í þessu sambandi. Hann talaði um, að þetta væri svo mikil freisting fyrir sjera Kjartan! og væri hætta á, að hann fjelli fyrir þeirri freistingu. Þó að þessi tillaga verði samþykt, þarf hann ekki að taka skólann fyrir því. Hann gerir það, ef honum sýnist. En ef svo færi, að hann, sem nú er orðinn gamall maður þyrfti að hætta, er það ekki svo óskaplegt, þó að hann fengi þessa viðurkenningu á eftir.

Það er annað í þessu máli, sem jeg skil ekki. Ef sjera Kjartan tæki við skólanum yrði svo miklum örðugleikum bundið að fá næsta mann, sagði hv. frsm. Þá yrði að hækka hans laun, en þá er líka skólanum komið á fastari fót. Mjer fanst nokkuð mikill böglingur í þessum rökstuðningi hv. frsm.

Þá kem jeg að 28. brtt., um styrk til fjelagsins Landnáms. Þarna kom það sama fram hjá meiri hluta hv. fjvn. eins og þegar hún var að tala um Pál Ísólfsson. Hann viðurkendi, að málefnið væri ágætt, en hann gæti ekki sint því. Einnig var hv. frsm. hræddur um, að þetta yrði til þess að draga fólkið til bæjanna. Þetta er undarlega á litið hjá hv. frsm., því að nýbýlarækt mundi einmitt verða til þess að draga fólk úr kaupstöðunum og í sveitirnar. Þá skildist mjer á hv. frsm., að ekki gæti orðið úr neinum framkvæmdum í þessu efni fyr en járnbraut væri komin austur. Nei, þessi tvö mál finst mjer verða að skilja í sundur.

Jeg hefi þegar sýnt fram á, að hjá nágrannaþjóðunum er mikil áhersla lögð á nýbýlarækt. Í Noregi er fjelagi í því skyni veitt ein miljón króna árlega, sem stjórn þess sjálf ræður yfir, og í Danmörku eru sömuleiðis veittar miljónir til þessarar starfsemi. Jeg sje ekki, hvers vegna menn ættu ekki að hafa áhuga fyrir þessu máli hjer eins og þar. Væri það t. d. ekki ákaflega holt og heppilegt, ef menn í hjáverkum sínum frá því að stunda sjó ræktuðu landið? Þetta er starfsemi, sem jeg hika ekki við að segja, að Alþingi beri skylda til að hlúa að. Jeg er hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) þakklátur fyrir, að hann lítur svo á, að Búnaðarfjelagið eigi að leggja til þessarar starfsemi. En eins og nú er ástatt um Búnaðarfjelagið, er varla hægt að gera þær kröfur til þess. Svo framarlega, sem styrkurinn til þess er hækkaður, væri mjer auðvitað sama, þó að stuðningur til nýbýlaræktunar kæmi úr þeirri átt.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta, en jeg vænti þess, að þó að hv. meiri hl. fjvn. sje á móti till., sýni deildin samt, að hún hefir trú á málinu, því að þetta er áreiðanlega eitt af þeim málum, sem á mikla framtíð hjá þjóðinni.