08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2013)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Ágúst Helgason):

Það var svo sem við því að búast, að hv. 1. þm. G.-K. (BK) yrði á móti þessu frv. En með því að snúast í móti því er hann að styðja aðra einkasölu, sem er miklu verri einokun, þar sem aðeins eitt firma á landinu verslar með þessa vöru. Að vísu er hægt að flytja hjer inn Chilesaltpjetur, en sú áburðartegund þykir ekki gefast vel, að minsta kosti ekki eins vel og norskur eða þýskur saltpjetur.

Hv. þm. (BK) þakkaði firmanu Nathan & Olsen það, að áburður þessi er farinn að flytjast hingað til lands, og kvað þá eiga að njóta þess. En jeg held, að þetta sje ekki rjett. Aðalskriðurinn komst á málið, þá er Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri fór utan fyrir 3 árum og samdi við Norsk hydro um áburðarverslunina.

Þá sagði sami hv. þm. (BK), að Búnaðarfjelagið hefði ekki fengið umboð hjá Norsk hydro. Þetta er ekki rjett. Jeg hefi sjeð brjef frá verksmiðjunni til Búnaðarfjelagsins um það efni, áður en Norsk hydro komst í hendurnar á Nathan & Olsen. Og þó hv. þm. (BK) þyki ekki mikið að greiða 2% umboðslaun, þá er það verra en ekki að verða að láta það til firmans Nathan & Olsen að óþörfu, í stað þess að fá vöruna beint frá verksmiðjunni og losna við það aukagjald.

Mjer er fyrir mitt leyti sjerstaklega ant um þessa vöru, að hún geti orðið sem ódýrust. Og mjer væri ekki eins sárt um það, þótt Nathan & Olsen næði í einhverjar prósentur af kornvöru eða öðrum nauðsynjavörum, því að það er sem sje alveg á takmörkum, að það svari kostnaði, eins og nú stendur, að kaupa erlendan áburð og flytja hann út um landið, svo að verðhækkun á honum, þótt ekki sje mjög mikil, getur orðið þess valdandi, að bændur gefist upp við að nota hann. En eins og allir vita, er landbúnaðurinn svo staddur nú, að það má ekkert á bjáta fyrir honum, og þess vegna er mjer sárt um það, að óþörf álagning sje á þessari nauðsynjavöru.