08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2015)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Eggert Pálsson:

Jeg býst við því, að jeg eigi að taka til mín þessa sneið hv. 1. landsk. (SE), vegna þess, að jeg hefi skrifað undir nál. fyrirvaralaust. En jeg skal þegar benda á, að það stendur skýrt í frv., að nefndin er ekki hlynt einkasölu yfirleitt. Og það, sem rjeð því, að jeg skrifaði undir nál., voru þær sjerstöku ástæður, sem mikið hefir verið rætt um í hv. Nd. og landbúnaðarn. beggja deilda, að Búnaðarfjelag Íslands hafði áður haft einkaumboð fyrir Norsk hydro hjer á landi, en mist það fyrir óheppileg atvik. Og það er víst, að Búnaðarfjelagið vildi ekki sleppa umboðinu, en misti það þó.

Mjer finst það nú satt að segja ekki neitt brot á „principi“, þó að menn álíti rjett, að Búnaðarfjelagið fái þetta umboð aftur. Og það, sem fyrir mjer hefir vakað með því að vera með frv., er, að mjer þykir eðlilegt og sjálfsagt, að stjórnarflokkurinn jafnt sem aðrir rjetti Búnaðarfjelagi Íslands hjálparhönd, til þess að það geti haldið sínum rjetti. En hefði ekki eldri samningur verið á bak við áður, hefði mjer ekki dottið í hug að gefa Búnaðarfjelaginu nje öðrum rjett til slíkrar einkasölu sem hjer er farið fram á. En jeg vil hjálpa Búnaðarfjelaginu til þess að ná aftur því umboði, er það hefir fyr haft. En þótt jeg hafi gengið inn á þetta, vil jeg alls ekki láta bregða mjer um það, að jeg sje hvikull í skoðunum mínum á einkasölu yfirleitt. Jeg vonast til þess, að ef frv. verður samþ., þá verði það til þess, að Nathan & Olsen sleppi umboði sínu og styðji þannig að frjálsri verslun í landinu. Og ef þeir sleppa umboðinu, kemur heimild frv. aldrei til greina.

Að öðru leyti en þessu hefi jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Jeg hygg, að afskifti mín af því verði eigi talin til hreppapólitíkur, því að það mun minna snerta mitt kjördæmi en flest önnur sveitakjördæmi, því að þótt ekki sje minni þörf fyrir aukna ræktun þar en annarsstaðar, er það vart hugsanlegt, að þær sveitir geti haft gagn af útlendum áburði. Það er lokuð leið, að bændur þar eystra geti dregið hann að sjer í rjettan tíma, því að það er ekki altaf sem nú, að Hellisheiði sje snjólaus allari veturinn. Venjan er sú, að hún er ekki fær vögnum fyr en undir lok, en þá er orðið of seint að ná í áburð.