09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2024)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Eins og nál. á þskj. 62.ber með sjer, hefir meiri hl. allshn. ekki fundið ástæðu til að mæla með þessu frv. Í greinargerð frv. er aðallega bygt á því, að Hafnarfjörður sje orðinn svo fólksmargur, að hann hafi fólksfjölda á við aðra kaupstaði, sem sjeu kjördæmi sjer, og að það hafi verið venja undanfarið, að kaupstaðir hafi verið gerðir að sjerstökum kjördæmum, þegar fólksfjöldinn hafi verið orðinn hlutfallslegur við önnur kjördæmi á landinu. Það, sem einkum ber til þess, að aðrir kaupstaðir landsins, þeir sem ekki voru sjerstök kjördæmi áður en þeir fengu kaupstaðarrjettindin, eins og t. d. Vestmannaeyjar, hafa verið gerðir að sjer kjördæmum, mun einkum og sjer í lagi hafa grundvallast á því, að atvinnuvegir þessara kaupstaða voru orðnir gerólíkir atvinnuvegum þeirra hjeraða, sem þeir voru áður hluti af. Það má í þessu sambandi t. d. benda á Seyðisfjörð og Akureyri, aðalatvinnuvegir þessara kaupstaða eru sjávarútvegur og verslun, en hjeruðin í kring eru nær eingöngu landbúnaðarhjeruð.

En þessu er alt annan veg farið með Hafnarfjörð og Gullbringu- og Kjósarsýslu. Atvinnuvegirnir þar eru mjög svipaðir. Í Gullbringusýslu er sjávarútvegurinn aðalatvinnuvegurinn, meginþorri íbúa sýslunnar hefir beint eða óbeint lífsframfæri sitt frá sjávarútveginum. Kjósarsýsla er að vísu að nokkru leyti undantekning frá þessu, en þó er innan takmarka þeirrar sýslu allmikill sjávarútvegur og þar á meðal stórútgerð. Það er því álit meiri hl. nefndarinnar í þessu máli, að það sje ekki sá munur á atvinnuvegum íbúanna í Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu, að skifting sje sjálfsögð af þeim sökum.

Hafnarfjörður er með fólksflestu kaupstöðunum á landinu eða svona af miðlungsstærð. Ef það væri rjettmætt að leggja fólksfjöldann einn til grundvallar við kjördæmaskiftinguna, þá er því ekki að neita, að afstaða Hafnarfjarðar til sumra hinna kaupstaðanna er að þessu leyti ekki í óhag skiftingunni. En þegar á að fara að athuga kjördæmaskiftinguna í landinu, kemur margt fleira til greina en fólksfjöldinn, t. d. verður hjeraðsskipun þar altaf þyngst á metunum, og svo er vitanlega margt fleira, sem taka verður tillit til. Ef þessi skifting færi fram og Hafnarfjörður yrði kjördæmi sjer, bæru kjósendur í Gulllbringu- og Kjósarsýslu mjög skarðan hlut frá borði á móts við Hafnfirðinga. Kjósendur í kjördæminu eru nú alls um 3000, þar af um 1700 í G.-K., en 1300 í Hafnarfirði; hjer er því ekki um jöfnuð að ræða, þegar þess er gætt, að þeim ástæðum er hjer ekki til að dreifa, sem geta rjettlætt það, þó nokkur munur sje á fólksfjölda í hinum ýmsu kjördæmum landsins, þá virðist all-varhugavert að vera að nauðsynjalausu að stofna til þess misrjettis, sem nú hefir verið bent á, að skiftingin óhjákvæmilega hefir í för með sjer. Þá vil jeg og benda á annað atriði í þessu máli, sem meiri hl. allshn. telur sem ástæðu til að leggja á móti frv., en það er, að málið er alls eigi nægilega undirbúið. Það liggur að vísu hjer fyrir umsögn annars aðiljans, bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði, sem er sá aðilinn, sem yrði betur settur, ef skifting færi fram; en hinn aðilinn hefir ekkert látið til sín heyra. Það hefir áður verið venja, þegar um skiftingu hefir verið að ræða, að leita álits allra hlutaðeigandi aðilja. Jeg held, að það hafi helst ekki verið farið af stað með frv. um skiftingu kjördæma fyr en samkomulag allra aðilja hefir verið fengið. Jeg fer ekki að svo vöxnu máli að orðlengja þetta. Jeg hefi nú greint frá þeim ástæðum, sem liggja til grundvallar fyrir því, að meiri hl. allshn. getur ekki fallist á skiftinguna.