09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2026)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Hv. frsm. minni hl. (JBald) endurtók það, sem stendur í greinargerð frv., að Hafnarfjörður sje misrjetti beittur, borið saman við aðra kaupstaði á landinu, sem sjeu sjerstök kjördæmi; en háttv. þm. (JBald) byggir aðeins á fólksfjöldanum einum. En jeg benti á það í ræðu minni áðan, að aðalástæðurnar, sem orsakað hafa skifting kjördæma áður, hafi verið gerólíkir atvinnuvegir næsta umhverfis. Háttv. frsm. minni hl. (JBald) vefengir, að meiri hl. allshn. hafi rjett fyrir sjer í því, að enginn sjerlegur munur sje á atvinnuvegum í Hafnarfirði og í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og bendir ennfremur á, að á sumum svæðum hafi orðið allmikil breyting í þessum sýslum, þ. e. suður með sjónum aðallega, þar sje nú meira stundaður landbúnaður en áður. En þessu er ekki svona varið. Það eru aðeins búnaðarhættirnir, sem hafa breytst, en raunverulegar framfarir á því sviði hafa litlar eða engar orðið. Meginhluti þess landbúnaðar, sem áður var rekinn þarna suður með sjónum, var sauðfjárrækt, en nú á síðari árum er það mjólkurframleiðslan, sem aðaláherslan er lögð á, en það stafar af bættum samgöngum við Reykjavík. Breytingin er því ekki í því fólgin, að búnaðurinn hafi aukist, heldur eru búnaðarhættirnir aðeins breyttir. Hitt er að vísu satt, að sjávarútvegurinn þarna suður frá er allmikið breyttur frá því, sem áður var. Í Sandgerði og Keflavík er nú rekin mikil mótorbátaútgerð. En það er rjett, að í Garðinum og öðrum smábáta verstöðvum þarna suður frá hefir útgerðin gengið mikið úr sjer. En ef litið er á ástæður til þeirra breytinga, eru þær augljósar. Það hefir alt of lítið verið gert af hálfu þess opinbera til að tryggja bátaútveginn; hinar miklu breytingar, sem orðið hafa í Garðinum, stafa af slælegum landhelgisvörnum í Garðsjó. Ef varnir verða bættar, jeg tala nú ekki um það, ef rýmkun fengist á landhelginni, rís útgerðin aftur úr rústum. Nú er verið að byggja nýtt strandvarnarskip, og með því ráðin allmikil bót á landhelgisgæslunni, og okkur er það öllum fullljóst, að eigi verður látið þar við sitja, heldur haldið áfram að auka strandvarnirnar til verndar smábátaveiðunum.

Nei, búskapurinn er ekki svo mikið breyttur, að orð sje á gerandi, því aukning á honum hefir nálega engin átt sjer stað, og þó að eitthvað hafi dregið úr útgerðinni á einstökum stöðum, hefir hún þá aukist annarsstaðar, t. d. í Sandgerði og Keflavík. Og mismunurinn á Gullbringu- og Kjósarsýslu er heldur ekki mikill, því í Kjósarsýslu hefir á síðari árum risið upp stórútgerð, og því verður ekki neitað, að líkur eru til, að hún aukist þar heldur en hitt, ef togaraútgerðin hjer á landi heldur áfram í svipaða átt og undanfarið. Í Reykjavíkurhöfn komast ekki fleiri togarar fyrir, og verða þeir því að leita annað, og er þá Kjósarsýsla næst. Það eru þar fleiri staðir en Viðey, sem geta komið til greina. Sundin þar inn frá eru t. d. meðal bestu hafnarsvæða á landinu. Eru því miklar líkur til, að þar verði næst borið niður.

Nei! Það er laukrjett hjá meiri hl. allshn., að aðalatriðin gegn frv. eru þau, að það er ekkert það djúp staðfest milli atvinnuvega kjördæmisins, er rjettlæti skiftingu þessvegna. Og þá sjerstaklega, þegar ekki er hægt að koma breytingunni fram, án þess að fremja ranglæti á öðru sviði.

Út af ummælum hv. frsm. minni hl. (JBald) um það, að vantað hafi undirbúning á þessu máli, verð jeg að árjetta það, að þessu verður ekki mótmælt, þar sem ekkert liggur fyrir frá meiri hluta í kjördæminu. Þá mintist háttv. þm. (JBald) á skifting Húnavatnssýslu og sagði, að það lægi ekkert fyrir um það, að það mál hefði verið undirbúið. Jeg hefi athugað umræðurnar um málið í Alþt., og þar kemur mjög greinilega fram, að búið var að undirbúa málið í hjeraðinu. Upptökin voru í VesturHúnavatnssýslu, en þingmenn sýslunnar, og þá sjerstaklega 2. þm. Húnv. gerir fulla grein fyrir, að þetta mál hafi verið tekið til athugunar í Austursýslunni og hún sje þar yfirleitt samþykk. Þannig fóru þm. Húnvetninga ekki af stað með það mál, fyr en búið var að fá vissu fyrir, að þetta væri sameiginleg ósk alls kjördæmisins. Í Húnavatnssýslu hefir málið verið fullkomlega undirbúið að þessu leyti, að leita álits viðkomandi manna. En hinsvegar skortir mjög á þennan undirbúning viðvíkjandi Gullbringu- og Kjósarsýslu.