09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (2027)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Jeg get um margt tekið undir með hv. frsm. meiri hl. (PO) og skal því vera stuttorður. Jeg tel rjett á litið, að núverandi kjördæmaskipulag sje mjög órjettlátt. Og það getur líka rjett verið, að Hafnarfjörður sje meðal þeirra, sem verða fyrir barðinu á því órjettlæti. En það eru hinsvegar margir aðrir, sem eiga um sárt að binda, t. d. Reykvíkingar, og ef ekki fæst heppilegri lausn og rjettlátari á þessu máli en farið er fram á í frv., þá get jeg fyrir mitt leyti sætt mig við að bíða átekta þangað til sú kjördæmaskipun fer fram, sem hlýtur að vera í vændum.

Ef jeg, sem umboðsmaður þeirra kjósenda, sem hjer á að skifta, yrði spurður, hver vilji þeirra væri í þessu máli, þá tel jeg mig ekki geta svarað þeirri spurningu. Jeg var nýlega á fjölsótttum fundum um alt kjördæmið. Og á engum af þessum fundum, að einum einasta undanteknum, var borin fram ósk um slíka skiftingu. þessi eini fundur var í Hafnarfirði, og óskin um slíka skiftingu kom frá einum manni. Það var að vísu mætur maður, sem bar hana fram, og ástæða er til að halda, að hann hafi borið hana fram fyrir hönd eins stjórnmálaflokksins, nefnilega jafnaðarmanna. Þetta er eina vitneskjan, sem jeg hefi fengið um hugi manna í kjördæminu, að svo miklu leyti, sem jeg held mig að því, sem talað var á þessum fundum. Að öðru leyti liggur ekki fyrir neitt um vilja þessara kjósenda um skiftingu annað en það, sem útdrátturinn úr gerðabók bæjarstjórnar Hafnarfjarðar ber með sjer. Þó að svo virðist, eftir honum að dæma, sem það sje einlitur vilji bæjarfulltrúanna, að skiftingin verði framkvæmd, þá er mjer kunnugt um, að það er í raun og veru alls ekki svo. Jeg hefi sjálfur átt tal við nokkra þeirra, og jeg hika ekki við að segja, að hjer er ekki verið að bera fram neitt hjartans mál sumra þeirra. Það er líka kunnugt, að mjög stór hópur kjósenda í Hafnarfirði er mótfallinn þeirri skiftingu, sem hjer er farið fram á. En þó nú að þessi samþykt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar væri skoðuð sem algildur dómur um vilja kjósenda Hafnarfjarðar, þá eru fleiri hlutaðeigendur í þessu máli, og það eru kjósendur í sjálfum sýslunum. Í Hafnarfirði er — eins og getið var um — 1300 kjósendur, en í sýslunum 17–1800 eða nær því, að jeg hygg. Háttv. frsm. minni hl. (JBald) hefir getið sjer þess til, að það mundi draga saman með þessari kjósendatölu annarsvegar í Hafnarfirði og hinsvegar í sýslunum. Jeg er ekki viss um það. Fremur gæti jeg ímyndað mjer, eftir því sem aðstaðan er nú, að draga myndi í sundur. Eins og menn vita, hefir Hafnarfjörður vaxið mjög á síðustu árum vegna útgerðar. En jeg álít, að hún standi ekki svo föstum fótum, að jafna megi henni við atvinnureksturinn í sýslunum yfirleitt. Þessvegna mun mega frekar álykta, að íbúatala Hafnarfjarðar fari fremur rjenandi en vaxandi í hlutfalli við íbúatölu sýslnanna.

Jeg sagði áðan, að jeg gæti ekki með vissu svarað um vilja kjósenda um skiftingu samkvæmt frv. En jeg get þó um það talað með nokkrum líkum. Jeg hefi reynt að spyrja alla þá, sem jeg náði til síðan frv. kom fram og til þessa dags, — alla, sem eru kjósendur og búsettir í Gullbringu- og Kjósarsýslu, hver vilji þeirra væri í þessu máli. Og mjer heyrist það nokkuð einróma ósk þeirra, að sú skifting, sem hjer er farið fram á, nái ekki fram að ganga. Enda er þetta ekki ólíklegt, því eins og nú standa sakir ráða kjósendur í sýslunum meira en einum þingmanni vegna hlutfallsins milli atkvæðatölu sýslubúa og Hafnfirðinga. þeir vilja ekki láta svifta sig þeim rjetti, sem þeim ber að hafa. Og jeg segi það í fullri hreinskilni, að jeg lít svo á, að frv. þetta sje fram borið einungis samkvæmt ósk eins stjórnmálaflokks, sem sje jafnaðarmanna í Hafnarfirði. Jeg sje enga ástæðu til að leyna því. Jeg tel ekki ólíklegt, að af þeim 3000 kjósendum, sem eiga hlut að máli, muni um 7–800 vera jafnaðarmenn. Þeir fara fram á það, að þeir fái þingmann. Ef fullnægja á þeirri kröfu, þá leiðir af því, að 2200–2400 kjósendur eiga að skipa hinn þingmanninn. Þetta álít jeg ekki rjettlátt. Þeir ættu þá að skipa 3 þingmenn, þannig að 4 þingmenn yrðu fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjörð. Jeg verð að segja, að rjettlætinu verður ekki náð með þessu frv., og mun jeg frá því sjónarmiði ekki vera með því. Jeg get heldur ekki álitið mjer skylt að vera með því með tilliti til þeirra, sem hafa falið mjer umboð sitt, miklu fremur hið gagnstæða. En væri borið fram frv. um skiftingu þannig, að Gullbringu- og Kjósarsýsla fengi tvo þingmenn, en Hafnarfjörður einn, þá væri mjer ánægja að vera með því. Mjer heyrðist hv. frsm. minni hl. (JBald) ekki vilja bera slíkt fram, af því að hann teldi líklegt, að það fengi minni byr. Jeg álít betra, að hv. þm. bæri fremur fram það, sem hann álítur rjettlátt, heldur en það, sem byrlegast lítur út.