09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2031)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Aðeins nokkrar athugasemdir út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann sagði meðal annars, að útgerðin í Sandgerði sýndi ekki rjetta mynd af útgerðinni í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þetta er að vísu rjett, því að margir aðkomumenn stunda þaðan fiskiveiðar. En af innansýslumönnum eru samt sem áður reknar miklar fiskiveiðar í Sandgerði.

Þá vildi hann gera lítið úr því, að það myndi hafa áhrif á suðurkjálkann, þó að landhelgisgæslan væri bætt. Út af þessum ummælum vil jeg benda honum á, að það er einmitt að miklu leyti fyrir ónóga landhelgisgæslu þar, að smábátaútvegurinn hefir svo mjög lagst þar niður, því í Garðsjónum hagar þannig til, að bátamiðin eru nálega öll innan við landhelgislínuna, þar er það bara aukin og bætt landhelgisgæsla sem vantar.

Hann mintist enn á undirbúninginn undir skiftingu Húnavatnssýslu í tvö kjördæmi og taldi hann ekki hafa verið betri en undirbúning þessa máls. En þetta er með öllu rangt. Og til þess að sanna það vil jeg benda hv. frsm. minni hl. (JBald) á svar það, er sá eini maður í efri deild, sem hreyfði andmælum gegn skiftingunni, fjekk hjá þáverandi 1. þm. Húnvetninga. Andmælin voru bygð á því, eins og hv. frsm. minni hl. (JBald) tók fram, að málið hefði verið illa undirbúið. Í svarinu stendur meðal annars þetta:

„Vestursýslan vill þessa skiftingu, og austursýslan hefir ekkert á móti henni.“

Krafan um skiftingu Húnavatnssýslu var því ekki bygð á lausu lofti eins og hjer virðist vera.

Þá mintist hann á, að ekkert hefði legið fyrir frá sýslunefndarmönnum um það mál. Það má vel vera rjett, að þingið hefði átt að gera strangari kröfur um það atriði. En það eru síst rök með máli því, sem hjer er til umræðu, heldur þvert á móti. Því hafi þingið átt að vera strangt í kröfum þá, hví skyldi það þá ekki eiga að vera það eins nú.

Að kjósendatalan í Hafnarfirði sýndi ekki rjetta mynd samanborið við fólksfjölda, eins og hv. þm. var að dylgja með, þá er náttúrlega hægt að slá því fram. Jeg býst við, að hlutfallið milli kjósendatölu og fólksfjöldans sje svipað í Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu. Getgátum þm. um þetta legg jeg því ekki mikið upp úr. En í sambandi við það vil jeg benda á, og það getur jafnframt verið svar frá minni hálfu við þeirri fullyrðingu þessa hv. þm., að kjósendatalan í Hafnarfirði muni aukast í náinni framtíð, að eftir því, sem mjer er sagt, er atvinna 6–700 manna þar bygð á atvinnurekstri útlendinga, sem aðeins hafa leyfi til atvinnureksturs hjer um ákveðinn tíma, og útlendingar þessir komu hingað til að græða hjer meira fje en þar sem þeir stunduðu þennan atvinnurekstur áður. Ef vonir þeirra bregðast í þessu efni, má búast við, að þeir fari þangað, sem betur blæs.

Þegar þetta svo er borið saman við það ástand, sem nú er lýst hjá sjávarútveginum, þá er æði hæpið, að mikil aukning verði á fólksfjöldanum í Hafnarfirði.