01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Forsætisráðherra (JM):

Jeg verð að fallast á þá skoðun háttv. 1. þm. G.-K. (BK), að ekki sje fært að fara út í svona kjördæmaskiftingu nú í þetta sinn, þar sem ekki getur liðið á löngu, að hin almenna kjördæmaskifting í landinu verði tekin til alvarlegrar athugunar. Og eins og jeg hefi áður sagt, sje jeg enga leið út úr því aðra en að hafa kjördæmin færri og þá aftur fleiri þingmenn fyrir hvert þeirra. Jeg hefi nú hugsað mjer að gera eitthvað í þessu máli áður langt líður og þá með tilliti til flokkanna. Jeg játa fúslega, að jafnaðarmenn hafa t. d. of fá þingsæti að tiltölu við kjósendafjölda þeirra í landinu, og frá því sjónarmiði getur þetta talist sanngirniskrafa. En eigi að síður get jeg ekki fallist á, að rjett sje að fara að breyta í þessu eina kjördæmi.