10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2056)

59. mál, gróðaskattur

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson:

Þegar þetta frv. til laga um gróðaskatt var hjer til 1. umr., þá held jeg, að jeg muni það rjett, að hæstv. fjrh. (JÞ) væri viðstaddur og mótmælti hann frv. stuttlega, en með allmiklum þjósti. Þó verð jeg að segja það, að mjer til ánægju hefi jeg orðið þess var, að menn taka málinu mikið hlýlegar en í fyrra. Þeir hafa sjeð, að það er ekki eins auðvelt að fara í kring um niðurstöðu málsins eins og þeir hjeldu í fyrstu. Málinu hefir því unnist viss tegund af fylgi hjá sínum mótstöðumönnum. Jeg býst við, að það komi í ljós við atkvgr., hve mikið það fylgi er, sem græðst hefir við umr. hjer. En það, sem á vantar, verður að bíða næstu kosninga. Jeg býst við því, að það verði ekki mikil not að þeirri skoðun á málinu, sem hv. frsm. meiri hl. (JJós) hjelt hjer fram.

Þess er þá fyrst að geta, að ástæðan til þess, að sú hugmynd, sem í frv. felst, er fram komin, er sú, að þjóðinni stafar auðsýnilega hætta af því, hversu fólk hnappast saman í sjóþorpum landsins og veiðistöðvum. Ljós sönnun þess er það, sem kom hjer fram í hv. deild, í sambandi við þetta mál, að þeir, sem sök eiga á þessu, láta nú óspart í ljósi, að alt sje að fara á hausinn. Nú eru þó undangengin tvö úrvals ár, og hvað mundi þá vera, ef hörð ár væri á undan gengin. Hvernig horfði þá við fyrir því fólki, sem í trausti stórútgerðarinnar hefir hnappast saman á mölinni og á þar alt undir dutlungum árferðisins. Nú er ekki annað sýnilegt en að þessi straumur haldi áfram, ef ekki verður hafist handa til þess að gera það mögulegt að fjölga heimilunum í sveitum landsins. En sú fjölgun getur ekki orðið undir öðrum kringumstæðum en þeim, að ríkið veiti fje til þess. Það er engin von til þess, þar sem þarf að rækta, byggja og girða í einu, að menn geti risið undir dýrum lánum, líkt og til verslunar eða útgerðar. Jeg lít svo á, að það sje hreint og beint ranglæti, af því að hinir háu skattar, verðtollur; vörutollur, tollur af kaffi og sykri o. fl., eru fyrir löngu orðnir svo háir, að hærri skattar verða ekki með nokkurri sanngirni: lagðir á herðar þeirra, sem lifa á vinnu sinni, en ekki „spekúlatiónum“, þeir borga meira, og þrátt fyrir það, sem hv. frsm. meiri hl. (JJós) hefir sagt, að hjer væri í raun og veru ákaflega háir skattar á þeim, sem hafa miklar tekjur og eignir, þá getur vel verið, að þeir sjeu að tiltölu ekki eins háir og á þeim, sem ekkert eiga. Maður getur „formúlerað“ það svo, að „spekúlations“-fyrirtækin hjer komist vel af, ef borið er saman við þá, sem aðeins vinna, og þegar þess er gætt, að „spekúlations“-fjelög, eins og togarfjelög og síldarverksmiðjur, eru þau fjelög, sem raka mestu fje saman hjer á landi, og þeir, sem eiga stórkostlegar dúkabúðir. (JJós: Eru það togarfjelögin, sem eiga dúkabúðirnar?). Sumir dúkabúðaeigendur, eins og t. d. hv. fyrirspyrjandi, eiga líka í togurum, en það er heldur ekki bundið við þá eina, heldur þá, sem hafa vissar tekjur, og þegar verið er að tala um verslanir eins og þá, sem ber nafnið Björn Kristjánsson, hjer í bænum, má benda á, að hún hefir meiri tekjur en mörg togarafjelög. — Jeg nefni einmitt það firma, vegna þess að maður, sem er mjög tengdur því, álítur, að hjer sje ekki um neinn gróða eða tekjur að ræða hjá neinum, heldur að ríkismenn hjer á landi nú sjeu öreigar. Þegar því er haldið fram, að t. d. stór atvinnufyrirtæki, sem stunda sjávarútveg eða síldariðnað, eins og t. d. Hellyer í Hafnarfirði eða Krossanesverksmiðjan eða Goos á Siglufirði, geti ekki borgað neitt hjer nema þá lögboðnu tolla, þá verð jeg að spyrja, hvernig þessir menn geti staðið sig við að yfirbjóða alla aðra atvinnuvegi og draga fólk hópum saman bæði úr sveitum og minni verstöðum, ef þessi fyrirtæki eru á heljarþröminni? Það, að mörg af þessum fyrirtækjum hafa um mörg ár sprengt upp kaupið í landinu, líka á hinum svokallaða dauða tíma, sýnir það, að hjer er um svo arðsamar atvinnugreinir að ræða, að það er alveg sanngjarnt, að þau borgi tiltölulega hærra eftir því, sem efnin eru meiri.

Nú get jeg fyrst sagt frá því, að eftir að við í fjhn. höfðum þjarkað töluvert um þetta, og þegar auðsjeð var, að ekki væri hægt að ná samkomulagi um neitt, þá ákváðum við, sem í minni hl. vorum, að reyna að fá hv. meiri hl. nefndarinnar til að ganga inn á mjög varlegar kröfur í þessu efni, og brtt. okkar á þskj. 397 eiga að skoðast sem samkomulagstilraun við þá, sem eru mjög fjandsamlegir þessum skatti, en ekki af því, að jeg álíti það ekki alt of lágt, borið saman við skattana á þeim vinnandi mönnum í landinu.

Þá kem jeg að ræðu hv. frsm. meiri hl. (JJós), sem segir, að tekju- og eignaskattur sje mjög hár hjer. Jú, hann er svo hár hjer, að þessi svokölluðu gróðafyrirtæki hjer í bænum borga engan tekjuskatt á árunum 1922–'23, eða jeg kalla það ekki, þegar þessi fyrirtæki greiða annað árið 40.000 kr., hitt árið 30,000 kr. þessir skattar eru svo lágir, að þegar kreppan var hjer alstaðar og svarf mjög að, og þegar einstakir menn borga sína tolla, þá komast þessi fjelög ljettara af. Jeg þekki t. d. fjölda manna, sem þurfa að taka víxla til þess að greiða tekjuskatta sína, og nú í ár vill stjórnin, að þessi margumtöluðu gróðafyirtæki, sem mest sprengja upp kaupgjaldið, eigi líka að borga minsta tolla hjer. Misskilningur hv. þm. Vestm. liggur í því, að hv. meiri hl. nefndarinnar lætur svo, sem þessi gróðaskattur komi altaf til greina, líka þegar ekki græðist, en það er vitaskuld lokleysa. Gróðaskattur getur aldrei fallið á tekjulaust fyrirtæki, En hann kemur um leið og gróði byrjar og hverfur um leið og gróðinn hættir, en þar sem er um varanlegar eignir að ræða, heldur hann vitanlega áfram, en þar sem þessi skattur kemur nokkuð í bylgjum, verður nokkuð mikill sum árin, en nær enginn sum, verður að safna honum í sjóð, og þarf vissa takmörkun um ráðstöfun hans frá sjóðsstjórninni, sem hjer er stjórn Búnaðarfjelags Íslands, sem verður að gæta þess að eyða sjóðnum ekki upp í góðu árunum, hún verður að gera ráð fyrir því, að stundum verða tekjurnar litlar og stundum meiri, en það verður með reynslunni mjög hægt að komast að því, hvernig greiðslum skuli haga. En öll röksemdaleiðsla hv. meiri hl. og hv. frsm. hans er bygð á sandi, og alt umtal um það, að ekki sje hægt að borga þennan skatt, er óþarft, af þeirri einföldu ástæðu, að hann hverfur þá, því að hjer á að taka tillit til þess, hvernig ástæður eru, en þess er miður gætt, þegar almennir skattar eru heimtir inn, sem sjest best á því, að þegar við, sem ekki erum undir gróðaskatti, verðum, hvernig sem árar, að borga okkar skatta, jafnvel þótt við höfum fult hús af veiku fólki, þá kemur tekjuskattur, útsvör og allir aðrir skattar eins fyrir því.

Því hefir verið haldið fram, að það ætti ekki við nú að samþykkja gróðaskatt, af því að það hafi verið gert ráð fyrir lækkun á sköttum. En stórgróðafyrirtæki, sem hafa verið að rísa upp við sjóinn, biðja um að gefa sjer upp þann litla skatt, sem á þeim hvílir; þeim er ekki nóg, að þau greiða lítinn eignaskatt, heldur vilja líka sleppa við tollana. Jeg get vel skilið, að hv. þm. þyki ekki samræmi í því að leggja á gróðaskatt, þegar verið er að gefa eftir sjálfa neysluskattana. Nei, það kemur í ljós við báða þessa skatta, við atkvgr. hv. þm., að þeir vilja gefa eftir skatt á kolum, salti og olíu; þó að hinum sje haldið, og hafa svo þeir menn, sem standa fyrir þessum fjelögum, látið sjer detta í hug, að þeir geti heldur ekki borgað, þegar þeir græða stórkostlega? Og þá vaknar þessi spurning, hvernig þeir geta borgað þetta háa kaup. Jeg geri ráð fyrir, að það verði reynt af þeim, sem standa að hv. meiri hl., að leiða rök að því, hvort engin framtíð bíði þessara fyrirtækja, hvort þar er alt tómt betl annarsvegar, en eintómt stærilæti hinsvegar. Þá hefir því verið haldið fram, að rekstur á togurunum hafi verið með tapi; þetta kemur mjög illa heim við það, sem sagt var í Káramálinu, því að þá var því haldið fram, þegar verið var að fá þingið til að gefa eftir veðið hjá Kára, að ekki gæti komið fyrir, að vertíðin gæfi ekki gróða, og að fjelagið yrði að fá að halda áfram yfir vertíðina, til þess að geta fengið gróðann af henni. Nú lítur út fyrir, að þetta hafi alt snúist við og eitthvað af þessum atvinnufyrirtækjum sjeu rekin með skaða á þeim tíma, sem annars er aðalbjargræðistími þeirra. En þetta kemur málinu auðvitað ekki við, því að þau borga ekki gróðaskatt, þegar þau ekki græða. Hvort síldarverksmiðjurnar tapi, skal jeg ekki segja, en það er víst, að þær græða stundum, tapa kannske stundum, en þær halda þó áfram fyrir því, og um eina þeirra er sagt af kunnugum manni, að Krossanesverksmiðjan hafi grætt um 70,000 kr. eitt árið. Þessi gróði fer allur út úr landinu, og þessir hv. þm., sem eru á móti gróðaskattinum, þeir eru að reyna að hindra það, að lagt verði á slík fyrirtæki, og vilja að gróðinn fari allur út úr landinu. Að síðustu var því haldið fram, að hugmyndin um gróðaskattinn væri út í bláinn, af því að nú væri útlit fyrir tap á útgerð og öllu, en eftir því ætti, þegar lítill gróði væri alment, að fella niður lög um tekju- og eignaskatt, en lög um gróðaskatt geta alveg eins komið fram í árum, þegar lítill gróði er, því að lögin eiga ekki að vera miðuð við einstök ár. Jeg vil taka það fram vegna þeirra, sem kunna að lesa þessar umræður og vera miður kunnugir hjer, að það mun vilja svo til, að meiri hl. fjvn., sem lagst hefir á móti þessu frv., þeir 3 menn munu vera allir í þeim kringumstæðum, að þessi skattur myndi koma meira eða minna við þá. Einn af þessum mönnum er í raun og veru eigandi að einni ríkustu verslun hjer í bænum, sem gefur tugi þúsunda eða hundruð þúsunda af sjer á ári, og hinir tveir virtir til skatts mjög hátt. Þetta myndi jeg ekki hafa tekið fram og ekki hafa þótt rjett að minnast á það, ef ekki hefði verið sú undarlega tilviljun, að þeir menn, sem um þetta mál hafa fjallað af hálfu stjórnarflokksins, eru allir þannig settir, að það er um eitthvert verulegt skattgjald að ræða frá þeim á hverju ári, að minsta kosti að því, er eignaskatt snertir, og það gefur því algerlega ranga hugmynd um það, hvort þörf sje á þessari breytinga, því að t. d. munu naumast allir kjósendur hv. 1. þm. G.-K. (BK) hafa tugi þúsunda í tekjur, heldur myndi meginþorri þeirra hafa haft rjett til að njóta góðs af þessum skatti, þótt þeir hafi nú verið svo óhepnir að kjósa mann, sem hefir gagnstæðra hagsmuna að gæta við hag kjósenda sinna. Svo vil jeg benda á það, að núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) hefir fyrir 16–17 árum síðan skrifað ítarlega grein um það, hvað skifti mönnum í flokka, og sagt þar, í Lögrjettu 1908, að í flestum löndum væri efna- og stóreignamenn íhaldsmenn, og það væri sjerstaklega af því, að þeir tímdu ekki að borga skattana, þeir vildu verja pyngjuna, og þess vegna byggju þeir út stefnuskrá, sem sýndi það, að þeir vildu spara og verja fjehirslu ríkisins, en í raun og veru væri það ekki annað en gríma, breidd yfir það, að þeir vildu ekki borga skatta af eignum sínum. Jeg álít þetta alveg rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), eins og hann setti það fram, og jeg býst við, að það sjáist við atkvgr. hjer í dag, hverjir annaðhvort eru þannig settir, eins og þeir, sem talað er um í Lögrjettu 1908, eða eru undir áhrif um þeirra, að þeir greiða atkvæði eins og þeim mönnum þóknast. Þessar deilur um gróðaskattinn eru átök milli þeirra manna, sem hafa fyrir augum þá almennu hagsmuni, og þeirra, sem álíta, að auður, ef hann er til hjer einhversstaðar, megi gjarnan borga skatt, og það því frekar sem þessir menn, sem hafa tugi og hundruð þúsund króna tekjur á ári, flytja út úr veröldinni á einum eins og aðrir, svo að þeirra eilífa sáluhjálp þarf náttúrlega ekki þess með, að þeim sjeu upp gefnir allir skattar. En það mun nú sem sagt reynast þannig, að þegar almenningur hefir komist að raun um það, að þessi kenning, sem haldið var fram í Lögrjettu 1908, að þeir, sem eiga verulegar eignir, leggja alla stund á það að verja pyngjuna, þá mun smátt og smátt svo fara, að þessum mönnum verður ekki trúað fyrir umboðsstarfi, nema að því leyti, sem kjósendur eru þeim samdóma, og þá getur komið hjer á þingi fjármálastjórn, sem er öðruvísi skipuð, og þá líka máske öðruvísi skipað þing. Jeg er mjög ánægður yfir þeim umræðum, sem orðið hafa um þetta mál við 1. og 2. umr. þess, því að þær hafa orðið til þess að skýra atriðin og svo til þess að það kom í ljós, sem liggur á bak við hjá þeim mönnum, sem vilja velta skattabyrðinni frá þeim mönnum, sem eitthvað eiga, á þá, sem sem minst eiga, og nú vildi jeg mælast til þess, að þeir andmælendur, sem hjer koma á eftir, vildu minnast þess, að þessi gróðaskattur kemur ekki á þá, sem ekki geta borgað, hann kemur ekki á aðra en þá, sem geta borgað, og að það, að tala um annað, er að tala út í hött.