10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2057)

59. mál, gróðaskattur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg þakka hv. forstöðumanni Samvinnuskólans fyrir þessa kenslustund, því þótt hún væri stutt, var hún laggóð. Það er gott að vita, hvernig hv. þm. (JJ) vill að maður tali, en hitt er annað mál, hvort farið verður eftir því, það verður að ráðast. Hv. frsm. minni hl. og flm. þessa frv. (JJ) finst það víst vera heppilegt að vera altaf að tala um útlendinga í þessu sambandi. Jeg man það, að við 1. umr., þegar verið var að tala um þetta mál, þá var, sennilega vanhugsað og í aumingjalegum tilgangi, slegið á þá strengi, hvort menn eins og t. d. Hellyer í Hafnarfirði og Goos á Siglufirði væru ekki „rjettir til að borga“, o. s. frv. Í sinni ræðu segir hv. þm. (JJ), að þessir menn borgi ekkert, en ef það er rjett, að þeir borgi ekkert nú, þá geta þeir heldur ekki komið til að borga þennan gróðaskatt, þó að hann verði lögleiddur, vegna þess að hann eiga engir aðrir að greiða en gjaldþegnar á Íslandi, sem eru skyldir að borga þar tekju- og eignaskatt, svo að annaðhvort myndu þessir menn sleppa við að greiða þann skatt, ellegar þeir eru þá skattskyldir í dag og borga hjer tekju- og eignaskatt. En hv. þm. (JJ) sagði, að þeir myndi nú þegar ekki greiða hjer neitt í beina skatta, og sje það rjett, þá þýðir ekkert að vera að slá á þá strengi, að gróðaskatturinn nái til þessara útlendinga aðallega, því að þeir myndi þá sleppa við gróðaskattinn hvort sem er. Hv. flm. (JJ) spyr á einum stað í sinni ræðu, — jeg tek hjer atriðin í þeirri röð, sem mjer þykir haganlegast, — hvaðan peningarnir eigi að koma, því að peninga vill hann hafa frá einhverjum, en það má þá eins spyrja, hver eigi að vinna þá inn. Hv. flm. (JJ) fór að blanda hjer inn í máli, sem að vísu var sett í samband við það í fyrra, en það er nú í öðru frv., en jeg ætla að halda umr. utan við það og sjálfan gróðaskattinn, en annars, ef á að blanda því saman, þá verður ekki sjeð, að gróðaskattur, eins og við höfum tekið fram, þótt hann verði lagður á, verði mikil lyftistöng fyrir landnám eða nýbýli.

Þá mintist hv. flm. (JJ) á togarafjelögin, sem hann segir, að raki saman peningum; í öðru sambandi talar hv. flm. (JJ) um stórgróðafyrirtækin við sjóinn, — jeg geri ráð fyrir, að togarafjelögin sjeu innifalin þar í, — sem borguðu engan tekjuskatt. Ef hv. flm. (JJ) ætlar að halda því fram, að fyrirtækin við sjóinn, sem jeg reyndar ekki get kallað stórgróðafyrirtæki, heldur atvinnufyrirtæki, hafi engan skatt borgað, þá þykir mjer skörin vera farin að færast upp í bekkinn, því hvaðan heldur þá hv. flm. (JJ) að tekju- og eignaskatturinn hafi komið áður? Frá bændum? Eða úr sveitunum, eða frá samvinnufjelögunum? Hann hefir alls ekki komið frá þeim, hann hefir mest komið frá því, sem hv. flm. (JJ) kallar stórgróðafyrirtæki við sjóinn. Röksemdafærslan eftir orðum hv. flm. (JJ) er bygð á sandi hjá andstæðingum hans, en þessi röksemdafærsla er víst ekki bygð á sandi!

Þá spurði hv. flm. (JJ), hvernig stæði á því, að þessi atvinnurekstur gæti borgað svo hátt kaup sem hann gerði. Það er nú svo, að þó að bændum þyki þetta kaup mikils til of hátt, þá þykir verkamönnunum, sem að þessu vinna, kaupið síst of hátt. Hv. flm. (JJ) mun heldur ekki líta svo á, þegar hann talar í þeirra hóp eða fyrir þá; en þegar hann talar við bændur, þá er það alt of hátt. Að því leyti sem háttv. flm. mintist á Krossanesverksmiðjuna, má segja það sama um hana og jeg sagði um þá tvo aðra gjaldendur, sem hv. flm. mintist á. Hann sagði, að Krossanesverksmiðjan hefði ekki borgað annað en sveitarútsvar, sem hann áleit ekki hátt. Jeg skal ekki deila um það, en ef þessi verksmiðja er ekki tekju- og eignaskattsskyld hjer á landi, þá getur gróðaskattur ekki náð til hennar. Háttv. flm. (JJ) mintist í fyrstu ræðu sinni á það, sem hann kallaði þróun þessara hluta. Jeg veit satt að segja ekki vel, hvað hann meinar með „þróun þessara hluta“, —- nema ef það er sú stefna, sem hann virðist berjast talsvert fyrir, að taka af atvinnurekendum síðasta eyririnn, ef hann getur náð honum. Það er líklega það, sem hann á við með „þróun þessar hluta“. Háttv. flm. sagði, að þessi „þróun“ væri komin svo langt, að þess yrði skamt að bíða, að hugmyndin kæmist í framkvæmd. Já, það mun enginn háttv. deildarmaður efast um það, hvaða hugarfar hv. flm. (JJ) hefir, að því er snertir þróun þessara hluta. Hann álítur, að atvinnufyrirtækin við sjóinn eigi að borga, hvort sem þau geta eða ekki. Reynslan hefir nú sýnt það, að það getur orðið fullerfitt, eftir tekjuskattslögunum, að greiða hinn almenna tekjuskatt, jafnvel þótt reikningar fyrirtækjanna sýni, að um gróða hafi verið að ræða. Sveiflurnar eru svo fljótar að koma á þeim atvinnurekstri, að það getur reynst örðugt að standa í skilum. Enda er skamt á að minnast, að það var upplýst hjer í þinginu í vetur, að eitt fjelag hafði eigi getað greitt þennan skatt. En ef litið er í útsvarsskrá Reykjavíkur, verður það ljóst, að það er ekki lítið fje, sem þessi atvinnufyrirtæki hafa greitt í útsvar, og jeg ímynda mjer, að háttv. flm. muni ekki halda því fram, að togarafjelögin og hinar stærri verslanir hjer í bænum hafi ekki greitt sitt útsvar.

Jeg er orðinn töluvert vanur að heyra þennan hv. þm. (JJ) tala hjer í deildinni, og þær eru ekki nýjar þessar röksemdir, sem hann færir fyrir máli sínu, þegar hann er að tala um útgjöld landsmanna. Það er ekkert nýtt, að ef menn eru ekki á sama máli og hv. þm. (JJ), þá á það að vera af eigingjörnum hvötum. Hv. þm. fann ástæðu til að láta þetta koma fram í þingtíðindunum, og það væri ekkert á móti því, ef hann gæti sagt satt, en því fer fjarri. Hann segir, að þeir, sem sjeu á móti þessu, sjeu efnaðir menn, sem ekki vilja sjálfir greiða af hendi peninga, og á svo af þessu að skiljast, að mótstaðan gegn frv. eigi þarna upptök sín og orsakir. Til þess að gera hv. flm. (JJ) sömu skil, er rjett að geta þess, svo að það standi í þingtíðindunum, að hv. flm. þessa frv. er maður, sem stendur með annan fótinn hjá bændum og hinn hjá „kommúnistum“ þessa lands, maður, sem gerir sjer mikið far um að ala á stjettahatri og spilla friði og eðlilegu samstarfi meðal borgara þjóðfjelagsins.

Flytjandi þessa máls er maður, sem hefir valið sjer þá aðstöðu í lífinu að lifa á öðrum, án þess að leggja nokkuð í hættu sjálfur, og að vera sífelt hrópandi rödd þeirra, sem heimta alt af öðrum. Honum hefir tekist að fika sig eftir bökum bændanna upp í Sambandshúsið, og jeg geng að því vísu, að hann muni, þegar til þeirra kemur, segja þeim borginmannlega frá því, að hann hafi þeirra vegna flutt frv. um gróðaskatt, til að „skatta“ stórgróðann“ hjer á landi.

Þetta, sem jeg nú hefi sagt um háttv. flm., er bein afleiðing af hans eigin aðferð. Jeg mundi ekki telja mig hafa leyfi til að beita þeirri aðferð, sem hv. flm. (JJ) hefir beitt gegn andstæðingum sínum í þessu máli, þó einhver legðist á móti skattafrumvarpi, sem jeg hefði flutt, en hv. flm. leyfir sjer svo margt, sem aðrir þm. leyfa sjer ekki.

Við umr. um Kárafjelagið í vetur sýndi hv. þm. (JJ), hvern hug hann ber til fólks við sjóinn, og á þann hátt, að mjer finst, að hann ætti ekki að minnast á það oftar. Hann sagði, að því hefði verið haldið fram þá, að vertíðin væri besti tíminn fyrir togaraútgerðina, en reyndin hefir nú orðið sú, að mörg fjelög hefðu tapað á vertíðinni. Hvorttveggja er rjett, en útkoman er þó mjög misjöfn, og sem betur fer hafa skip þessa fjelags, Kárafjelagsins, fiskað allvel. Jeg get sagt hv. flm. (JJ) það, að ef settur hefði verið fótur fyrir þetta fjelag í byrjun vertíðar, þá hefði þar með fjöldi sjómanna og verkamanna verið sviftur atvinnu sinni á versta tíma. Slíkt er „þróun þessara hluta“. Hún gengur svo langt hjá háttv. flm., að þegar hann er orðinn vonlaus um, að honum muni takast að koma fram ósanngjörnum sköttum og álögum, þá gerir hann sitt til að stimpla andstæðinga sína með því að halda því fram, að þeir sjeu að berjast fyrir eigin hagsmunum og líti mest á sinn hag. Nei, það er ekki eins og hv. flm. vill halda fram, hjer er ekki — því miður — um nein stórgróðafyrirtæki að ræða, sem rétt sé eða sanngjarnt að skattleggja á þann hátt, sem hjer er farið fram á. Hinsvegar kemur hjer greinilega fram sú stefna, sem flm. berst fyrir, að segja við atvinnufyrirtækin: „Ef þið eignist eitthvað, hefi jeg fyrirfram sjeð fyrir því að ná því af ykkur aftur.“ Háttv. flm. veit vel, að hjer er ekki um neinn stórgróða að ræða, en hinsvegar vill hann gefa atvinnurekendum það til kynna, að þeir skuli ekki vera að reyna að koma sínum fyrirtækjum í betra horf, því að ef þeir hafi nokkurn hag af rekstrinum, þá muni hann verða tekinn af þeim.