01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög 1927

Halldór Steinsson:

Jeg get verið stuttorður. Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi 4. landsk. (IHB). Hann sagði, að jeg hefði brugðið flm. till. um styrk til Skúla Guðjónssonar um fávísi, fljótfærni o. s. frv. En þetta er misskilningur. Hitt sagði jeg, að till., eins og hún nú er, er aðeins fálm út í loftið og einskis nýt, og við það stend jeg. Enda kannaðist hv. 4. landsk. við, að svo sje, því að hann dró til baka að tilgangurinn með henni væri bætiefnarannsóknir. Nú á þessi ungi maður að láta ljós sitt skína yfir skjögurveiki í kindum, bæta hollustuhætti hjer á landi o. fl. Jeg skal játa, að það er auðvitað gott og blessað að láta rannsaka skjögurveikina, ef það getur þá leitt til lækninga á henni. Þá er líka ekki nema gott, að bættir sjeu hollustuhættir manna. En þá á bara ekki að orða till. svona. Eins og hún er nú, siglir hún undir fölsku flaggi. Fjeð er veitt til bætiefnarannsókna, en á að fara til alls annars.