12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Guðmundur Ólafsson:

Jeg þarf nú ekki mikið hjer um að segja og skal því vera stuttorður. En jeg vil byrja á því að segja hv. þm. það, að jeg bjóst alls ekki við, að frv. þetta kæmi fram nú á þinginu. Jeg verð þó að lýsa ánægju minni yfir þessu, því að það var einmitt mín skoðun í fyrra, að báða skólana ætti að taka upp í sama frv., og ef kvennaskólinn hjer væri tekinn á ríkissjóð, ætti Blönduósskólinn öllu meiri rjett til þess. Þegar nú hæstv. fjrh. (JM) og annar flm. mentmn., hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem fastast lögðust á sama streng í þessu máli í fyrra og töldu ófært að taka upp báða skólana í sama frv., þegar svo vísir menn sem þeir eru komnir á mitt mál, get jeg ekki annað en verið dálítið hreykinn. (JóhJóh: Jeg held, að hv. þm. misminni). Það getur vel verið að mig misminni eitthvað, en ekki samt það, að hv. þm. (JóhJóh) lagðist þá af fullri alvöru móti skólanum á Blönduósi. Og þó að jeg misti af hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem ekki mun hafa sjerstaklega vítt það, þó báðir skólarnir væru í sama frv., þá er mikið unnið, þar sem er hæstv. forsrh. (JM), því að jeg álít hann síst minni mann í þessu efni en hv. þm. Seyðf. (JóhJóh).

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að nú væri fyrir hendi skýrsla, sem sýndi, að Blönduósskólinn væri fyrir alt landið, og þessvegna hefði hann breytt um skoðun. En hjer er nú ekki annar munur en sá, að nú er skýrslan prentuð í brjefi frá hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), en í fyrra hafði jeg skýrslu þessa skrifaða frá stjórnarnefnd skólans. (Forsrh. JM: Aðeins dálítið öðruvísi). Nei, hún var alveg eins. En annars skal jeg ekki um þetta þrátta.

Jeg verð að lýsa yfir fylgi mínu við það, að ríkissjóður taki á sig báða skólana. Því að ósanngjarnt er að taka upp Reykjavíkurskólann, en skilja hinn eftir, enda mun það sannast, að það verða smámunir, sem fara til Blönduósskólans hjá því, sem hinn þarf.

Mjer finst launamunur kennara þessara skóla vera nokkuð mikill; enda þótt jeg játi hinsvegar, að ódýrara sje að lifa á Blönduósi en hjer. Jeg hygg, að rjett væri, að kennarar Blönduósskólans hefðu 2/3 hluta móti því, sem kennarar Reykjavíkurskólans kæmu til með að hafa. Ætlaðist jeg líka til þess í fyrra, að svo væri. En nú er munurinn talsvert meiri.

Hvað því viðvíkur, að frv. komi nokkuð seint fram, þá er því að svara, að svo mun og hafa komið fyrir um fleiri frv., sem óþörf voru og lítt kunn, en höfðust þó í gegn. En þar sem þetta er svo kunnugt mál, ætti það að geta orðið að lögum, enda þótt það hafi komið seint fram.