01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Eggert Pálsson):

Eins og allir sjá, er ekki gustuk að halda mönnum hjer lengur með langri ræðu, þar sem komið er fram yfir miðnætti. Skal jeg því vera stuttorður, enda eru það ekki margir deildarmenn, sem hafa veist að mjer og nefndinni svo nokkru nemi.

Hæstv. fjrh. (JÞ) kom með ávítur í garð fjvn., af því að hún hefði brugðist vonum hans, þar sem hún hefði gefið út sameiginlegt nál., en stæði svo ekki saman um það. Var þetta skiljanlegt og eðlilegt, þar eð hæstv. fjrh. á samkvæmt stöðu sinni að hugsa um ríkissjóðinn og bera hag hans fyrir brjósti, ef honum hefir þótt nefndin nokkuð bruðlunarsöm. En því er ekki til að dreifa. Þá hefir nefndin ekki heldur brugðist nál. sínu, því að þar sem svo er ástatt, að nefndin getur ekki verið á einu máli, er það gefið til kynna í nál. og tekið fram, að það sje meiri hl., sem leggur þetta til. En hitt hefir aldrei átt sjer stað, að fjvn. gæfi út nál. í tvennu eða fleiru lagi. Hinsvegar vildi hv. 1. landsk. taka aftur lof um fjvn., en hans lof áður var aðallega fólgið í því, að hún hefði verið ör á að leggja fram fje. Nú þykir honum nefndin orðin of naum í framlögum. Skoðanir þessara tveggja manna eru því hvor á móti annari. Jeg held, að rjettast sje að lofa þeim hæstv. fjrh. og hv. 1. landsk. að bítast um það, hvor þeirra hafi rjettara fyrir sjer, þegar annar sakar nefndina um bruðlunarsemi, en hinn um nísku.

Háttv. l. landsk. fór mörgum orðum um hina miklu hæfileika Páls Ísólfssonar. Jeg gat þess áður, að nefndin viðurkendi þennan mann og að hann væri þjóð sinni til sóma, en hinsvegar væri ekki sjálfsagt að borga það með peningum. Hv. þm. (SE) tók það til dæmis um, að þingið kæmist í mótsögn við sjálft sig, ef það sýndi ekki Páli þessa viðurkenningu, að það hefði keypt listaverk eftir Nínu Sæmundsson í viðurkenningarskyni. Jeg hygg, að þetta listaverk hafi fremur verið keypt af því, að það hafi verið virkilegt listaverk og því dýrmæt eign. Ef sá dómur væri feldur, að það sje lítils eða einskis virði, þá færi viðurkenningin að verða lítil. Hv. þm. (S. E) tók fram um Pál Ísólfsson, að of seint gæti orðið að sýna honum viðurkenningu síðar, því þá mundi hann verða búinn að græða svo á list sinni, að hann yrði ekki fjárþurfi. Það hefir nú verið litið svo á, að listin gæfi af sjer litla peninga og listamenn væru jafnan fjárþurfar. Jeg vil biðja hv. þm. (SE) að athuga það, að þar sem hann tekur fram, að Páll sje í fjárþröng nú, liggur í því óbein viðurkenning um, að maðurinn sje ekki enn orðinn frægur. Ef hann væri orðinn frægur, kæmi ekki til mála, að hann skorti fje, eftir kenningu hv. þm. (SE). Hv. þm. hefir því sjálfur lagt þann dóm á, að Páll væri ekki kominn svo langt, að hann gæti lifað af list sinni. Annars kemur fram alólíkur skilningur á þessari brtt. hjá flm. hennar. Annar vill veita þetta fje í viðurkenningarskyni, en hinn sem byrjun á framhaldsstyrk. Jeg get betur skilið hið síðarnefnda. Með því væri þá slegið föstu, að við vildum fremur hafa manninn hjer en að láta hann fara þangað, sem hann gæti unnið sjer frægð og peninga.

Þá hafa báðir þessir hv. þm. (JJ og SE) veist að mjer persónulega fyrir það, að jeg vil ekki veita Kjartani prófasti Helgasyni full prestslaun, ef hann tekur við skólastjórastöðu þar eystra. Háttv. 3. landsk. (JJ) hjelt því ekki nú í ræðu sinni fram eins og áður, að í þessari till. minni gætti óvildar til prófastsins, enda hefði jeg ekki átt slíkt skilið, þar sem um er að ræða gamlan og kæran bekkjarbróður, nágranna og embættisbróður. Hann sneri við blaðinu og sagði, að þetta mundi stafa af óvild til hins nýja starfs. Jeg lýsi því yfir, að hjer er hvorki um að ræða vild nje óvild frá minni hálfu. Þessi skóli kemur mjer ekkert við. Mitt kjördæmi hefir ekki viljað sinna þessu máli, og því sletti jeg mjer ekkert fram í það. Báðir hv. þm. vildu halda því fram, að í þessu lægi engin freisting fyrir prófastinn. En hann væri þá talsvert öðruvísi en aðrir menn, ef honum litist ekki vel á að taka svo góðum kjörum. Hv. 3. landsk. hjelt því fram, að sjera Kjartan væri svo mikill „idealisti“, að hann mundi taka við starfinu hvort sem væri. Jafnframt hjelt hann því fram, að þetta væri gert vegna skólans, en ekki prófastsins. Með öðrum orðum, það er ekki gert fyrir prófastinn og það er ekki gert fyrir skólann, því hann fær þennan forstöðumann hvort sem er. Fyrir hvern er þetta þá gert? Hv. þm. talaði um skilningsleysi hjá mjer. Hjer er ekki síður sljóleiki á ferðinni.

Báðir þessir hv. þm. töluðu um, að hjer væri ekki um mikið að ræða; þetta gæti ekki lengi staðið, þar sem maðurinn væri orðinn gamall. Hann gæti hætt fljótlega og tekið þá prestslaun sín. Jeg get skilið þetta af hálfu hv. 1. landsk. En til eru menn með þeirri skapgerð, að þeir eiga ilt með að taka við miklu fje án þess að láta nokkuð í staðinn. Þannig er sjera Kjartan Helgason skapi farinn. Hann mundi í lengstu lög reyna að gegna starfi sínu, til þess að taka ekki fje fyrir ekkert.

Þá talaði hv. þm. (SE) langt mál um. 5000 kr. styrk til fjelagsins Landnáms.

Hann vildi halda því fram, að þótt fjeð yrði notað til nýbýlaræktar í nágrenni Reykjavíkur, þá mundi það ekki auka aðsókn til höfuðstaðarins. En í hvaða skyni ætti að stofna til nýbýla, ef ekki til þess að gera fleiri mönnum lífið hjer þægilegt? Og því fleiri sem njóta hjer góðra skilyrða, því meira verður aðstreymið. Það yrðu þó aldrei nema fáir menn, sem þessa gætu notið hjer. Hv. þm. talaði um, hve nýbýlin reyndust vel hjá öðrum þjóðum og eins hlyti það að verða hjá okkur. Hann gætir ekki þess, að hjer eru alt önnur skilyrði. Hjer vantar samgöngur til þess, að nýbýli geti þrifist. Ef járnbraut væri lögð austur, þá gætu togaramenn úr Reykjavík átt heimili fyrir austan fjall, haft þar konu og börn og lítið bú. Þangað gætu þeir skroppið í frítímum sínum, verið þar í sumarfríi o. s. frv. Meðan núverandi ástand helst, getur þetta ekki komið til greina. Þó að menn sjeu búsettir hjer, ætti þeim að vera vorkunnarlaust að skilja þetta, en ekki vera með fimbulfamb um, að hægt sje að koma á nýbýlarækt eins og hjá þjóðum, sem hafa góðar samgöngur.

Þá mintist hv. 3. landsk. á styrkveitingu til prentsmiðjunnar Acta til þess að gefa út Íslendingasögur með myndum og uppdráttum. Jeg sagði áðan og segi enn, að ef nóg fje væri fyrir hendi, gæti enginn verið á móti slíkum styrk, ef líka væri fyrir því sjeð, að útgáfan yrði svo ódýr, að almenningur gæti haft hennar not. Hv. þm. (JJ) viðurkendi, að fyrir því væri engin trygging. Meðan svo er ástatt, er ekki þess að vænta, að nokkur vilji fleygja fje í þetta fyrirtæki. Hv. þm. mintist á eina bók eftir Collingwood. Það vill svo til, að jeg á þessa bók. Það er satt, að hún er með ljómandi frágangi. En jeg get hugsað mjer, ef útgáfa Íslendingasagna á að vera með líkum frágangi, að þá verði ekki fyrir fátæklinga að leggja út fje fyrir þær.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala meira. Jeg ætla ekki að skifta mjer af viðureign þeirra hv. 3. og 4. landsk. (JJ og IHB) annarsvegar og hv. þm. Snæf. (HSteins) hinsvegar, um styrkinn til Skúla Guðjónssonar. Jeg hefi verið á móti þeim styrk, og verð enn.