12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. 1. landsk. (SE) sagðist hafa hlíft stjórninni og kvaðst nú mundi fara að kveða fastara að seinna. Háttv. þm. (SE) er velkomið að koma með hvað sem hann vill; það mun tæplega saka stjórnina mikið.

Það, sem jeg meinti með ummælum mínum, var það, að mjer fanst þetta mál þannig vaxið, að um það mætti tala alment, án þess að blanda inn í það pólitík eða öðrum deilumálum.

Þá var þessi háttv. þm. að tala um, að það hefði verið blásið út um alt, að þessi stjórn hefði bjargað við fjárhag landsins. Þetta finst mjer ekkert koma þessu máli við. Því fyrir mínum augum er mál það, sem nú er til umræðu, ekki stórt fjármál fyrir ríkissjóðinn. Eins og nú er, greiðir ríkissjóður kostnað skólanna. Eins og jeg hefi oft tekið fram áður, finst mjer, að þing og stjórn eigi að ráða yfir þeim fyrirtækjum, sem kostuð eru að mestu eða öllu leyti af ríkisfje. Að það sje ámælisvert fyrir stjórnina, þó að hún mælist til slíks, fæ jeg ekki skilið.