23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2083)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Eins og sjest á þingskjali 375, nefndaráliti meiri hl. mentmn., hefir nefndin ekki getað orðið sammála um frv. það, sem hjer liggur fyrir þessari hv. deild. Meiri hluti nefndarinnar heldur því fram, að kvennaskólarnir sjeu sjerskólar fyrir kvenfólk; þetta hefir ekki verið hrakið, og þessvegna eiga þessir skólar fylsta rjett til þess, að ríkið taki þá að sjer eins og hverja aðra sjerskóla fyrir karlmenn. Um þetta atriði stóðu allmiklar deilur á síðasta þingi. Hv. minni hl. lítur öðru vísi á þetta en við, og hefir hann nú fært allmikið út kröfur sínar frá því í fyrra, um sambærilega skóla, og verður ekki annað sagt en að hv. frsm. minni hl. (JJ) taki munninn nokkuð fullan, þar sem hann leggur til, að 6 skólar — segi og skrifa sex skólar — verði teknir á ríkissjóð, ef það verði gert við kvennaskólana í Reykjavík og á Blönduósi, þar er hvorki nægjusemi nje sparnaður, sem ræður hjá hv. þm. (JJ), og jeg hygg, að hv. minni hl. (JJ) mundi ekki verða skotaskuld úr því að koma með nokkra nýja skóla á næstu þingum.

Jeg ætla mjer ekki að fara að ræða C.-G.-liðina í brtt. hv. minni hl. (JJ), því að það mundi lengja umr. alt of mikið, en jeg vil minna á, að frv. það, er lagt var fyrir síðasta þing, um að gera Kvennaskólann í Reykjavík að ríkisskóla, var felt með jöfnum atkvæðum, og rjeð þar miklu, að ekki þótti rjett að gera annan kvennaskólann að ríkisskóla, en hinn ekki, og svo hitt, að búist var við, að hann mundi verða dýrari í rekstri heldur en sem sjálfstæð stofnun. Nú er, eins og segir í nál. meiri hl., kipt fótum undan fyrri mótbárunni, þar sem hið sama er látið gilda um báða skólana, og þó að sá spádómur kunni nú að vera rjettur, að skólarnir yrðu eitthvað dýrari í rekstri sem ríkisskólar heldur en sem einkafyrirtæki, þá lítur meiri hl. svo á, að það sje hjegómi að einblína á það, þegar um það er að ræða að tryggja framtíð þeirra skóla, sem eru sjerstaklega sniðnir eftir þörfum ungra kvenna hjer á landi, en það var sannað undir hinum löngu umræðum hjer um málið í fyrra, með góðum rökum, að þessir skólar væru sjerskólar fyrir kvenfólk, og þetta verður ekki hrakið, því að námsgreinar skólanna sanna það. Og svo er eitt, sem ekki má gleyma, að hálfrar aldar reynsla hefir sannað svo nauðsyn þessara skóla, að engin rökfimi gerir það betur, og með því að lesa skálaskýrslur þeirra fram á þennan dag og sjá, hverjar námsgreinar hafa verið kendar, fær maður sönnur fyrir því, að hjer er um hreina sjerskóla að ræða. Frsm. minni hl. (JJ) hjelt því fram, að hinar almennu námsgreinar, sem þar eru kendar og oft hefir verið bent á, væru ekki sjermentun fyrir konur, skal jeg ganga inn á það, en vil um leið bæta því við, að þær almennu námsgreinar, sem þar eru kendar, má víst telja jafn-nauðsynlegar fyrir konur sem karla, og býst jeg ekki við, að hv. 3. landsk. (JJ), sem vill teljast mentafrömuður, vilji beina áhrifum sínum í þá átt að draga úr mentun kvenna, til þess að sjóndeildarhringur þeirra minki svo mjög, að hann nái ekki út fyrir asklokið. Hins vænti jeg, að hv. 3. landsk. (JJ) geti tekið undir það, er fyrir skömmu var kveðið:

„Í sálarþroska svanna

býr sigur kynslóðanna,

og hvað er menning manna,

ef mentun vantar snót?“

Þessi orð vildi jeg biðja hv. minni hl. nefndarinnar að gera að sínum einkunnarorðum. Og þegar öllu er á botninn hvolft, þá vænti jeg líka, að þetta sje hans skoðun og vilji. Jeg vil taka fram, að þessi vísuorð eru úr kvæði sjera Matthíasar Jochumssonar, er hann orti í tilefni af 25 ára afmæli Blönduósskólans, og vænti jeg því, að allir, sem unna ljóðum hans, festi sjer í minni þessi sígildu ummæli hans, í sambandi við mentun kvenna.

Þá kem jeg að kostnaðinum, sem í fyrra var aðalmótbáran gegn þessu máli. Meiri hl. nefndarinnar getur ekki sjeð, eins og tekið er fram í nál. hans, að kostnaðaraukinn verði mjög mikill, þar sem það er sannanlegt og tekið fram af ríkisstjórninni, að skólarnir hafa á síðustu árum fengið úr ríkissjóði svo að segja alt það fje, sem þeir hafa þurft til reksturs, því að þeir eiga aðeins lítilfjörlega sjóði og geta því ekki lagt sjer mikið fje til. Þó er Blönduósskólinn það betur á vegi staddur en Kvennaskólinn í Reykjavík, að hann á hús sitt. Launafyrirkomulagið við skólana er ráðgert að haldist að mestu óbreytt frá því, sem nú er, aðalbreytingin er í því fólgin, að föstu kennararnir eiga að fá dýrtíðaruppbót, og get jeg ekki betur sjeð, á þessari jafnrjettindaöld, sem nú er, en að kona, sem kennir, eigi að bera sama úr býtum fyrir sambærileg störf, eins og karlmaður, sem kennir. Eins og tekið er fram í greinargerð fyrir frv. því, sem hjer liggur fyrir, virðist eðlilegt, að ríkisstjórnin hafi öll umráð yfir þessum skólum, sem að mestu eru reknir með fje úr ríkissjóði. Hjer er því, að því er snertir þessa kvennaskóla, aðallega að ræða um lögfestingu á því fyrirkomulagi, sem er og hefir verið um skeið, og það er einungis það, sem farið er fram á í þessu frv. og þeir, sem vilja beita sanngirni og vilja málinu vel, óska eftir.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um það, sem snertir frv. sjálft eða aðaltilgang þess, jeg vil aðeins minna á það, að meiri hl. bendir á það í nál. sínu, að í 4. gr. frv. er ákvæði um það, hverjar námsgreinar skuli kendar í Kvennaskólanum í Reykjavík, og þær taldar upp, en um Blönduósskólann er svo ákveðið í 11. gr., að þær skuli vera hinar sömu og áður, þar til er ný skipun verði á gerð. Þetta má teljast nokkurt ósamræmi milli 4. og 11. greinar og mun stafa af því, að ekki hefir verið álitið, að menn hafi komið sjer til fulls niður á endanlegt fyrirkomulag Blönduósskólans. Meiri h1. nefndarinar lítur á, að heppilegra sje að taka það fram í lögum um báða skólana, að námsgreinar skuli ákveðnar með reglugerð, því að breyttir tímar krefjast breytts náms, og sjeu námsgreinar ákveðnar með lögum, verður miklu erfiðara að breyta til heldur en ef þær eru reglugerðarákvæði, og hyggur meiri hl., að rjett væri að taka þetta atriði til athugunar til 3. umr. Meiri hl. leyfir sjer svo að leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem nefndar eru á þskj. 375. Er þar í fyrsta lagi brtt. við 12. gr., að í stað orðanna: „alt á þann hátt, er“ komi: „svo sem“.

Í öðru lagi, að á eftir 12. gr. komi svohljóðandi ný 13. gr., sem líkast til af vangá hefir fallið burt úr frv.:

„Skólagjald skulu námsmeyjar greiða svo sem verið hefir.“ Breytist greinatalan eftir því.

Í þriðja lagi er, að aftan við 15. gr. bætist: „1. september 1926“. Vænti jeg svo, að málið sje nú svo upplýst, að óþarft sje, og jafnvel ekki forsvaranlegt, að hafa umr. mjög langar, því að það var sannarlega ekki af því, að málið væri ekki nóg rætt, að það náði ekki fram að ganga í fyrra. Vænti jeg, að háttv. deildarmenn sýni þá sanngirni og þann skilning að greiða sem mest fyrir frv., og tel jeg, að þá verði vegur þeirra að meiri.