23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2086)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Háttv. 4. landsk. (IHB) sagði, að fullmikið hafi þegar verið rætt um þetta mál. En það er nú svo, er fylgismenn frv. sjálfir gerast margorðir, verður að skoðast eðlilegt, að við mótstöðumenn þessa máls þurfum líka að segja eitthvað, en jeg skal þó lofa því að verða ekki mjög langorður. Það, sem jeg hefi að segja, er aðallega að gera grein fyrir aðstöðu minni til brtt., sem hv. 3. landsk. (JJ) ber fram. það mun reynast svo, að afleiðingar þess, ef stjórninni tekst að gera þessa tvo skóla að ríkisskólum, verði þær, að þá munu rísa upp ótal aðrir, sem gera munu sömu kröfur um að verða teknir upp á arma ríkissjóðs, og á það benda þessar brtt. háttv. 3. landsk. (JJ), um að taka með í þetta frv. skólana á Hvítárbakka, að Núpi í Dýrafirði, að Laugum í Þingeyjarsýslu og jafnvel að Laugarvatni í Árnessýslu, að Staðarfelli og á Akureyri. Takist hæstv. stjórn að gera þessa tvo skóla í Reykjavík og á Blönduósi að ríkisskólum, þá er hætt við, að margir skólarnir, eins og raun ber vitni um, leiti í ríkissjóðinn.

Búast má og við því, að þó að þessar breytingartillögur verði feldar í þessari háttv. deild, þá verði þær teknar upp aftur með fullum krafti í háttv. Nd.

Jeg þarf varla að taka það fram, að jeg mun auðvitað í fullu samræmi við það, sem jeg hefi haldið fram um kvennaskólana, einnig leggjast á móti þessum tillögum. En það er langt frá því að vera rjett, sem háttv. 4. landsk. (IHB) sagði, að jeg væri andvígur því, að konur fengju sem besta og almennasta mentun. Jeg hefi við mörg tækifæri, bæði innan þings og utan, sýnt, að jeg vil styðja og styð allar rjettmætar kröfur kvenna, til mentunar sem annars. Þegar frá upphafi, er jeg byrjaði stjórnmálastarfsemi mína, hefi jeg ávalt fylgt fast fram kröfum kvenna til jafnrjettis við karla. Og þetta var þó á þeim tímum, sem þessi hreyfing af ýmsum skammsýnum mönnum þótti allviðsjárverð.

Jeg hefi enn þá sýnt hugarfar mitt til kvenþjóðarinnar með því að vera því fylgjandi, að samskonar skyldur og lagðar eru á karlmenn verði einnig lagðar á þær, því með því er skapað best öryggi fyrir kvenþjóðina um að jafnrjetti þeirra verði meira en orðin ein. Í kvennaskólamálinu vil jeg enn leggja áherslu á, að með því að gera skólann að ríkisskóla, er ekki verið að leggja neinn nýjan grundvöll undir nýja eða bætta kenslu í kvennaskólanum.

Ummæli forsætisráðherra um, að eðlilegt væri, að ríkið hefði meiri umráð yfir skólanum, þar sem hann væri styrktur af opinberu fje, met jeg ekki að miklu, því jeg sje ekki ástæðu til þess fyrir ríkið að blanda sjer inn í einkaskóla, sem vel er rekinn.

Jeg vona, að af því, sem jeg nú hefi mælt, sje það öllum vel ljóst, að jeg er ekki að mæla á móti þessu frv. vegna þess, að jeg sje á móti betri mentun kvenna, en að jeg er á móti frv. af því, að jeg vil ekki láta bæta að óþörfu á ríkissjóð ærnum kostnaði, kostnaði, sem alls ekki verður sjeð fyrir, hve mikill getur orðið, er frá liður.

Jeg býst við, að síðar í dag, í sambandi við annað mál á dagskránni, fái jeg tækifæri til að sýna fram á, að um leið og hjer er verið að reyna til að koma óþörfum aukakostnaði á ríkissjóð, er verið að draga úr og minka veg ýmissa annara ríkisstofnana. Hitt lái jeg ekki hv. 4. landsk. (IHB), þó að hún vilji koma skólanum sínum á ríkissjóðinn, þar sem hún telur honum betur borgið. En jeg lít svo á, að skólanum sje fyrir bestu að halda áfram að vera rekinn sem einkafyrirtæki; skólinn verður betri og konur njóta meira gagns af honum, meðan hann á undir högg að sækja til þingsins um rekstrarstyrk, því meðan svo er, verður meiri alúð lögð við að skólinn sje góður skóli.

Ennfremur vil jeg benda á frv. stjórnarinnar um lærðan skóla, sem nú er fyrir háttv. Nd. og hefir að vísu ennþá fengið allömurlega útreið, en þó kann að vera, að það takist að laga það svo, að það verði afgreitt þaðan. En þar er gert ráð fyrir að kasta allri gagnfræðamentun í Reykjavík út á kaldan klakann, samtímis því að hamra í gegn þessu óþarfa frumvarpi.

Jeg býst við því, ef kvennaskólinn yrði ríkisskóli, að þá mundi bráðlega koma fram krafa um að byggja, og meðan hv. 4. landsk. (IHB) veitir kvennaskólanum forstöðu, efast jeg ekki um, að henni takist að koma þessari kröfu á framfæri. En svo rækileg gæti sú bygging orðið, að menn yrðu ekki hrifnir af rausn núverandi stjórnar í þessu máli.