23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2087)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg vil ógjarnan tala við sjálfa mig, og þætti mjer því æskilegt, að þeir hv. þm., sem jeg þarf að svara, væru viðstaddir. Það stendur svo á, að hæstv. forsrh. (JM) hefir svarað flestu því í ræðu hv. frsm. minni hl. (JJ), sem jeg þurfti að svara, en mjer þykir þó rjett að gera nokkrar athugasemdir við ýms ummæli, sem komið hafa fram undir umræðunum í þessu máli.

Hv. 3. landsk. (JJ) gat þess, að ef báðir þeir þingmenn, sem hjer áttu sæti á síðasta þingi, en nú eru fallnir frá, væru hjer enn, mundi hæstv. stjórn ekki hafa sjeð sjer fært að koma fram með þetta frv. þetta er smekkleysa hjá hv. 3. landsk. (JJ), og skal jeg ekki fara nánar út í þá sálma.

Þá sagði hann, að Blönduósskólinn væri á leiðinni til þess að verða sjerskóli. Jeg hefi ekki á nokkurn hátt viljað draga úr þeirri viðleitni, sem hafin er 2 eða 3 síðustu árin, að gera Blönduósskólann aðallega að húsmæðraskóla, með nokkurum munnlegum námsgreinum. Hann taldi og kvennaskólann hjer drýgja þá höfuðsynd að vera almennur kvennaskóli eins og Blönduósskólinn var áður, þar sem unglingar stunduðu framhaldsnám, og taldi honum það mjög til foráttu, að kend væru þar 3 erlend tungumál. „Einu sinni var“, má segja hjer. Samkvæmt ósk nemenda var þýska kend í efsta bekk kvennaskólans nokkur ár. En svo sáum við, að 3 erlend tungumál var ofætlun, og þýskukenslan var lögð niður. Hvað enskuna snertir, er hún að flestra dómi orðin nauðsynlegur liður í getu manna til þess að taka að sjer ýms störf, auk þess sem enskukunnátta er mjög æskileg til þess, að menn geti mentað sig áfram á þeim grundvelli, sem lagður var í skólanum. Jeg skal taka það fram, að auk þessarar höfuðsyndar eru kendar ekki færri en 8 sjernámsgreinir, sem stúlkum eru einkum ætlaðar, og vil jeg í því sambandi vísa til upptalningar á námsgreinum í 4. gr. frv. Af vangá hefir þó fallið niður tvent, sem hefði átt að teljast með.

Hv. 3. landsk. (JJ) sagði, að jeg hefði lagst á móti Blönduósskólanum í fyrra, en jeg veit, að hv. 3. landsk. (JJ) man það eins vel og jeg, að jeg sagði þá, að þegar Blönduósskólinn væri kominn á það stig, að hann ætti fullan rjett á að vera ríkisskóli, skyldi jeg verða fyrst manna til þess að styðja þá málaleitun. Jeg held því enn fram, að Blönduósskólinn sje fyrst og fremst kvennaskóli. Þangað hafa margar mætar konur sótt mentun sína. Hv. 3. landsk. (JJ) sagði, að Blönduósskólinn hefði verið tekinn upp í frv. einungis til að greiða götu Reykjavíkurskólans. Hefi jeg ekki, og sjerhver annar maður, leyfi til að fylgja einhverju máli, þegar mjer finst tími til kominn? Þarf jeg að standa í sömu sporum og í fyrra eða hitteðfyrra? Nei, og aftur nei.

Í nál. meiri hluta mentmn. er tekið fram, að ósamræmi sje milli 4. og 11. gr. frv. að því leyti, að í 4. gr. eru lagaákvæði um það, hverjar námsgreinir skuli kendar í kvennaskólanum í Reykjavík, en í 11. gr. eru námsgreinir Blönduósskólans gerðar að reglugerðaratriði. En þetta er vegna þess, að það er æði fyrirhafnarsamt að breyta, þó að ekki sje nema litlu atriði, þegar búið er að taka það upp í lögin. Sje um reglugerðaratriði að ræða, er það auðveldara. En við búumst ekki við; að Blönduósskólinn sje búinn að taka á sig sitt framtíðarsnið.

Þá vjek hv. þm. (JJ) að ósamræmi því í frv., sem honum þykir vera í launakjörunum hjer og á Blönduósi. Um þetta hefi jeg aldrei haldið neinu fram, og læt jeg það vera mál ríkisstjórnarinnar. En fram úr því er eflaust hægt að ráða. Hv. 3. landsk. (JJ) fanst ekki heldur viðeigandi að láta forstöðukonurnar hafa fæði, húsnæði o. s. frv. Hjer skal jeg ekki fella neinn úrskurð nje segja frá, hvernig á því stendur, að jeg hefi haft þetta. Það er leyndarmál milli mín og skólanefndar. En mundi það ekki þykja óviðfeldið, ef t. d. matsveinn á veitingahúsi mætti ekki seðja sig á matnum, er hann sjálfur byggi til? Jeg hefi að vísu aldrei kent matartilbúning, en þess er krafist af mjer sem forstöðukonu, að jeg sje húsmóðir á heimilinu, sem sje viðstödd máltíðir og hafi gætur á öllu, sem fram fer í sambandi við mötuneyti nemenda. Þó að þetta hafi aldrei valdið mjer neinna leiðinda, hefði jeg ekkert á móti því, að laun mín yrðu lækkuð um það, sem nemur fæðispeningum. Því að það má hv. 3. landsk. (JJ) ekki halda, að jeg fái matinn fyrir ekkert. En jeg álít hinsvegar, að það sje holt, að forstöðukona matist með nemendum skólans og kynnist þeim á þann hátt. Í sambandi við þetta þarf svo margs að gæta, t. d. þess, að nemendur borði nóg og hegði sjer óaðfinnanlega við borðið.

Þá vjek hv. 3. landsk. (JJ) að lögum um húsmæðraskóla. Jeg veit ekki, hvort til eru önnur lög en lög um húsmæðraskóla Norðlendinga. Fyrverandi 2. landsk. þm. (SigJ), sem nú er látinn, hjelt þessu máli vakandi, og get jeg viðurkent áhuga hans á því. Jeg hygg, að háttv. 3. landsk. (JJ) sje eins kunnugt og mjer, hvað valdið hefir framkvæmdaleysi á þessu sviði. Fjárhagurinn hefir verið þröngur, en vitanlega verður ráðist í að stofna skólann, þegar hægt er. Jeg vona, að hv. 3. landsk. (JJ) væni mig ekki um að vera á móti því.

Hvað snertir ámæli hv. 3. landsk. (J.1) fyrir áhugaleysi mitt á þessum málum, er sjerstaklega snerta mentamál kvenna, þá læt jeg mjer þau í ljettu rúmi liggja.

Hv. 3. landsk. (JJ) taldi upp ýmsar greinir, sem kendar væru í Laugaskólanum, vefnað, smíðar o. fl. þetta er auðvitað ágætt, og væri jeg eins máttug hjá hæstv. stjórn og hv. 1. landsk. (SE) vill vera láta, mundi jeg breyta ýmsu og fullkomna við Kvennaskólann; en það kostar fje. Um vefnaðinn er það að segja, að í Kvennaskólanum hjer var um margra ára skeið, fram til 1909, sjerstök deild fyrir vefnað. Þetta kostaði mikið, en afnotin voru ekki að sama skapi, því að alt bíður síns tíma. Það er ekki gott að segja, hvað breytist í framtíðinni um námsgreinirnar. Jeg gæti ekki ímyndað mjer, að Kvennaskólinn væri sá steingjörvingur, að hann verði ekki að hlýða lögmáli tímans.

Sú tilgáta, að jeg ætli eða hafi ætlað að bregða fæti fyrir húsmæðraskóla á Norðurlandi, er algerlega úr lausu lofti gripin. Fyrir nokkrum árum, þegar Páll núverandi hæstarjettardómari Einarsson var á Akureyri, átti hann eitt sinn tal við mig um þennan skóla. Hann hafði mikinn áhuga á málinu, og jeg veit, að bak við hans áhuga var áhugi manna alment þar nyrðra. Mjer var mikil ánægja að tala um þetta við bæjarfógetann, og mun jeg ekki verða treg til að ljá málinu fylgi mitt, þegar til framkvæmdanna kemur.

Að jeg hafi beitt mjer fyrir því, að frv. þetta yrði tekið upp, eru getgátur. Það er tekið fram í greinargerð frv., að það sje flutt af meiri hl. mentmn. eftir tilmælum kenslumálaráðuneytisins. En jeg hygg, að allir, sem eru nokkurnveginn góðgjarnir, virði mjer til vorkunnar, þótt jeg fylgi því, því að þá fyrst er hverjum skóla siglt í höfn, þegar trygt er, að hann geti haldið áfram og starfað án alt of mikilla fjárhagsörðugleika, meðan ríkissjóður er fær um að styrkja hann. Ef skólinn reyndist illa með því fyrirkomulagi, þá er ekki óvanalegt að nema úr lögum, og yrði þinginu þá vonandi ekki skotaskuld úr því.

Jeg get ekki hrósað mjer af víðfeðmi því, sem hv. 3. landsk. (JJ) talar um. Jeg vil ekki hafa of mörg járn í eldinum, en hinsvegar hefi jeg áhuga á, að þau mál, sem jeg skifti mjer af, nái fram að ganga. Jeg læt ekki öll möguleg mál til mín taka, en það væri að vera landskjörinn í lagi, ef menn gætu það, mun hv. 3. landsk. (JJ) finnast.

Því var víst beint til mín, að það væru vissir starfsmenn, sem þarna væru leiddir að ríkissjóði. Jeg hefi hingað til ekki stungið hendinni djúpt í ríkissjóðinn og býst ekki við að gera það heldur framvegis.

Þá sagði hv. þm., og það vil jeg kalla „lyrik“, að það mundi veikja aðstöðu skólans og draga úr gengi hans., ef hann yrði ríkisskóli og fengi ekki annan stuðning. Þetta er mjer lítt skiljanlegt, því þessi stuðningur af frjálsum vilja hefir jafnan reynst nokkuð stopull, og Kvennaskólinn hefir víst alla tíð haft lítið af þannig löguðum stuðningi að segja. Það má segja Íslendingum til lofs, að þeir eru fljótir að bregða við til hjálpar, en úthaldið til þess að styðja eitthvert fyrirtæki til langframa er ekki áberandi í eðlisfari okkar sem þjóðar.

Kvenfjelögin hjer í Reykjavík hafa öll ýms verkefni með höndum og vinna að þeim einum. Hv. 3. landsk. (JJ) bendir á, að eitt fáment kvenfjelag sje þess megnugt að koma upp myndarlegu hressingarhæli í Kópavogi. Þetta er rjett að öðru leyti en því, að þetta kvenfjelag er betur sett en önnur kvenfjelög hjer á landi, vegna þess að það er miklu fjölmennara. Það var að nokkru leyti fyrir tilstilli hv. 3. landsk. (JJ) og mín, að þetta gat orðið, og skulum við reikna okkur það til inntekta.

Um einkastyrki til Kvennaskólans er það að segja, að þeir eru tveir. Annar er frá bænum, að upphæð 500 krónur. Hinn er frá Búnaðarfjelagi Íslands, að upphæð 300 krónur. þann styrk höfum við haft í hjer um bil 10 ár, og er hann veittur aðallega í því skyni, að við kennum heimilismönnum að borða síld! Þetta höfum við gert eftir megni.

Að jeg hafi sótt þetta mál með svo miklu kappi, því ætla jeg að láta ósvarað. Hafi jeg sótt málið með kappi, hefir ekki kapplaust verið haldið fram mótbárum gegn því. En sjeu mótbárurnar gripnar úr lausu lofti, er hætt við, að þær verði ekki haldgóðar.

Þá ætla jeg að snúa mjer að hv. 1. landsk. (SE) Hann beindi nokkrum orðum í ræðu sinni til mín, þar á meðal því, að búið væri að tala mikið um þetta mál. Enginn hefir bent á það meira en jeg, að umræðurnar hefðu verið of langar í fyrra og þyrftu því ekki að vera eins langar núna.

Að vatill. hv. 3. landsk. (JJ) verði teknar upp í Nd. með miklum krafti, þykir mjer ósennilegur spádómur, sem jeg vona að rætist ekki, því að jeg álít þessar tillögur hans óviturlegar og óþarfar. Einnig ætlar hv. 1. landsk. (SE) að vera sjálfum sjer samkvæmur og vera á móti ríkisskóla. Jeg efa ekki stefnufestu hv. 1. landsk, (SE) í þessu máli! (SE: Í öllum málum). — Í þessu máli — Mjer hefir skilist það til þessa, að hv. 1. landsk. (SE) hafi viljað stuðla að aukinni mentun í landinu. En hjer skýtur nokkuð skökku við, svo sem margbúið er að minna á og sanna. Því að um það þarf ekki lengur að deila, að krafa kvennaskólanna er rjettmæt og nauðsynleg til þess, að skólarnir geti haldið áfram að fræða ungar stúlkur „þessa lands“. Það er því furðulegt, hve mjög hv. 1. landsk. (SE) beitir sjer á móti þessu frv. Kostnaðargrýlan, sem stakk hjer inn höfðinu í fyrra, þegar mál þetta var hjer til umræðu, hefir ekki verið eins uppivöðslumikil í ár. En alveg er mjer óskiljanlegt, hvernig hún fer að hræða hv. 1. landsk. (SE), því að þótt því sje ekki haldið fram, að hans stjórn hafi verið bruðlunarsöm, þá var hún þó eigi svo „ógurlega“ sparsöm. (SE: Landinu var stjórnað með mjög mikilli sparsemi í minni stjórnartíð). — Ætli það sje nú ekki álitamál?