23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (2090)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hv. 3. landsk. (JJ) sagði við 2. umr. þessa máls, að það væru hæpnar sannanir fyrir nauðsyn þess, að forstöðukonur þessara skóla hefðu ókeypis fæði. Jeg tók það fram, að hvað mig snerti, þá væri fæðið ekki óverulegur liður í laununum, og eins hygg jeg að sje um forstöðukonu kvennaskólans á Blönduósi. Það er vitanlegt, að fæðið má meta til peninga. Hinsvegar kemur það, auðvitað ekki til mála, ef forstöðukonan giftist og stofnar heimili, að hún nje fjölskylda hennar verði fædd af skólanum. Þetta er sagt til leiðrjettingar hv. þm. (JJ). Þá sagði hv. þm., að ríkisstjórnin myndi ekki hafa tekið í mál að gera kvennaskólann í Reykjavík að ríkisskóla, ef skólastjóri hans væri ekki eitt af bestu sverðum íhaldsins hjer í þinginu. Þessi staðhæfing er ekki svara verð.

Næst sagði hv. þm. (JJ), að hæstv. forsrh. (JM) og jeg hefðum snúist í málinu viðvíkjandi Blönduósskólanum. Jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, hvernig aðstaða mín til hans hefði verið í fyrra. Þá sagði háttv. þm. (JJ), að jeg hefði sannfærst um það, að eina ráðið til þess að tryggja kvennaskólann í Reykjavík og koma honum í hina öruggu höfn ríkissjóðsins, væri að taka Blönduósskólann með. Háttv. 3. landsk. (JJ) hefir bæði í síðustu ræðu sinni og oftar tilfært sem mín orð, að þá fyrst væru kvennaskólarnir komnir í örugga höfn, þegar þeir yrðu ríkisskólar. En hv. þm. gleymir forsendunum fyrir þessum ummælum mínum, en þær voru þessar: Að það sje ilt og ekki við það unandi, að skólar þessir þurfi árlega að eiga það undir dutlungum og náð ríkisstjórnarinnar og Alþingis, hvort þeir fái það fje, sem þeim er nauðsynlegt til reksturs. Þetta hefi jeg sagt. Og frv. um kvennaskólana fer ekki fram á annað eða meira en að tryggja tilveru þeirra. Um afstöðu mína til Blönduósskólans nægir að vitna í þingtíðindin í fyrra. Þá sagði jeg, að þegar það kæmi í ljós, að sömu ástæður mæltu með því að gera Blönduósskólann að ríkisskóla, þá mundi jeg verða fyrsti maður til þess að stuðla að því. Og það þykist jeg nú hafa efnt með því að fylgja þessu frv. Og jeg skammast mín ekkert fyrir það. En jeg mundi skammast mín fyrir að fylgja ekki rjettu máli, vegna þess að mig skorti þor og þrek.

Þessar brtt. hv. 3. landsk. (JJ) væru afleiðingaríkar, ef þær í raun og veru hefðu þær afleiðingar, sem hv. þm. (JJ) lætur í veðri vaka. En jeg held nú, að þær sjeu aðeins framkomnar til þess að fleyga málið. Það getur verið, að þetta sje bara tilgáta mín, en jeg held því miður, að þetta sje rjett.

Það er tilgangslaust að ræða hjer lengi um muninn á þessum skólum, sem í frv. standa, og hinum, sem brtt. hv. 3. landsk. gera ráð fyrir, og mun jeg því ekki færast það í fang. Háttv. þm. (JJ) sagði um Eiðaskóla, að hann hefði verið svo ríkur, þegar ríkið tók við honum. En hann hefir kostað landið mjög mikið síðan, og jeg veit ekki til, að háttv. þm. hafi fundið að því við stjórnina, þó þessi kostnaður væri æði mikill, og heldur talað hlýlega um Eiðaskóla.

Jeg mun svo ekki fara lengra út í það moldviðri, sem þyrlað hefir verið upp í þessu máli, en jeg bendi þó á þetta, af því mjer finst þetta vera hálfgerður barnaleikur, sem ætti betur við á öðrum stað en í hinu háa Alþingi.

Hv. 3. landsk. (JJ) hafði það eftir mjer, að jeg hefði sagt við 1. umr. þessa máls, að það væri ekki mikil vandkvæði á því að gera nemendur úr efri bekkjum kvennaskólans að gagnfræðingum. Þetta er nú ekki alveg rjett, þó eru nokkur rök til þess, að jeg mun hafa sagt í svari mínu til hv. 3. landsk. (JJ), að nú ætti að hrinda gagnfræðanáminu út á klakann, ef mentaskólinn yrði gerður að óskiftum skóla, og að þá gæti kvennaskólinn rúmað um 50 nemendur, sem þá gæti með litlum breytingum á núverandi kenslufyrirkomulagi og svo að segja engum aukakostnaði tekið gagnfræðapróf. Svona mun svar mitt hafa hljóðað, en um hitt, sem hv. þm. (JJ) segir um greinargerð frv., má benda á, að það liggja svo að segja sömu drög að því frá sjónarmiði okkar, að gera kvennaskólana á Blönduósi og í Reykjavík að ríkisskólum, hygg jeg, að við getum á hverjum tíma staðið við, að þar liggja sanngirniskröfur á bak við, er standa og falla með því, að þeir fái svo að segja alt sitt rekstrarfje úr ríkissjóði. Og það er þó sýnt, að hjer er ekki um annað að ræða en að framkvæma það í orði, sem gert er á borði. Þegar svo hv. 3. landsk. (JJ) var að telja það, og fór um það mörgum ísmeygilegum orðum, að það horfði ekki beint til vinsælda fyrir kvennaskólann, að hann gæti ekki fengið framlag úr bæjarsjóði, þá bendir það til þess, sem jeg hefi áður sagt, að í þau 30 ár, sem jeg hefi starfað við kvennaskólann, hafa stúlkur úr sveit ávalt verið látnar ganga fyrir stúlkum úr Reykjavík, þegar um nýjar námsmeyjar er að ræða; get jeg sannað þetta með bæði skrifuðum og síðar prentuðum skýrslum um skólann. Þegar hefir verið farið fram á styrk handa honum úr bæjarsjóði, þá hefir bæjarstjórn altaf sagt: Þetta er landsskóli, eigum við að fara að styrkja hann? Ef eitt árið sækja ekki eins margar stúlkur úr sveit og vanalega, þá tökum við auðvitað þær stúlkur úr Reykjavík, sem sótt hafa.

Ýmislegt fleira, sem komst hjer inn í umræðurnar, eins og t. d. tóbakseinkasalan, sem jeg með atkvæði mínu átti þátt í, að lögð var niður í fyrra, hygg jeg algerlega óskylt skólamálinu, og ætla jeg því ekki að fara að elta ólar við hv. þm. (JJ) út af því.