26.04.1926
Efri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2093)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Einar Árnason:

Það var aðallega fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM) út af þessu máli. Eins og kunnugt er, eru til lög frá 1917 um húsmæðraskóla á Norðurlandi í nánd við Akureyri. Er svo ákveðið í lögunum, að þegar hann kemst upp, skuli hann rekinn fyrir landsfje undir umsjón ríkisstjórnarinnar. Jeg vil nú spyrja hæstv. stjórn, hvað hún ætlist fyrir um þennan skóla. Er meiningin að hafa 2 húsmæðraskóla á Norðurlandi, sem ríkissjóður reki? Eða ætlar stjórnin að stefna að því, að ekkert verði úr Eyjafjarðarskólanum, sem stofnaður var með lögunum frá 1917?

Þá eru það tvö smáatriði, sem jeg óska frekari upplýsinga um. Það er út af 1. gr. frv., þar sem talað er um sjóði kvennaskólans í Reykjavík. Er það sjerstaklega hinn svonefndi kvennaskólasjóður, sem mun vera allstór, og er talað um, að 3/4 hl. af vöxtum hans skuli ganga til reksturs skólans. Væri gott að fá upplýsingar um, hve mikið fje sjóðsins er, og eins um hitt, hvort nokkrar skuldir hvíli á skólanum, sem komi til að fylgja honum. Viðvíkjandi kvennaskólanum á Blönduósi er lagt svo fyrir, að sýslunefndir Húnavatnssýslu afhendi hann með öllum eignum, en það er ekkert sagt um, hvort skuldir fylgi. Mjer er ekki kunnugt um þetta, en þætti gott að vita, hvort svo er eða ekki.