28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Jeg ætla ekki að tala langt mál að þessu sinni. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. sje nokkurnveginn kunnugt um þetta mál frá undanförnum þingum, þótt það hafi eigi komið fyrir hana fyr. Með frv. er ekki gert ráð fyrir, að kostnaður ríkissjóðs af skólanum aukist mikið. Laun kennaranna eiga þó að hækka óverulega, enda eru þau nú smánarlega lítil. Einnig eiga þeir að fá dýrtíðaruppbót. Þessu verður hagað ögn öðruvísi um Blönduós, enda er svo ráð fyrir gert, að báðir skólarnir starfi áfram með sama sniði og verið hefir. Eins og nú er ástatt er allur kostnaður við báða þessa skóla greiddur úr ríkissjóði, og er því eðlilegt, að ríkið hafi ráð yfir þeim. Jeg skal geta þess, að nokkur munur er á launakjörunum við skólana, að því er forstöðukonurnar snertir, en um það mun ekki vera nein óánægja.

Að öðru leyti held jeg, að heppilegt væri, að eigi yrðu langar umr. um þetta mál, fyr en nefnd hefir fjallað um það. Málið er í sjálfu sjer mjög einfalt, þótt nokkuð skiftar skoðanir sjeu um það.