27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1927

Sigurjón Jónsson:

Á þskj. 230 á jeg II. brtt., þar sem lagt er til að hækka áætlun endurgreiddra lána árið 1927 úr 20 þús. kr. upp í 80 þús. krónur. Það lán, sem jeg geri þar ráð fyrir að greiðist, er dýrtíðarlán, sem Ísafjarðarkaupstaður tók haustið 1919. En lán þetta, sem upphaflega var 100 þús. kr., er nú 93200 krónur.

Jeg býst nú við, að hv. þdm. hefðu ekkert á móti að samþykkja, að þessi upphæð greiddist inn í ríkissjóðinn á næsta ári, ef enginn böggull fylgdi þar skammrifi. En hjer er einmitt um slíkan böggul að ræða, þar sem er önnur brtt frá mjer. sú XXVIII. í röðinni á sama þskj. En þó að brtt. þessar eigi heima sín í hvorum kafla, þá get jeg ekki talað svo fyrir þeirri fyrri, að jeg geri ekki nokkra grein fyrir þeirri síðari sem hljóðar svo:

„Til hafskipabryggju Ísafjarðarkaupstaðar og mannvirkja við hana 60 þúsund krónur“, með þeirri athugasemd, að „styrkurinn greiðist þannig að dýrtíðarlán kaupstaðarins við ríkissjóð ekki um þessa upphæð, en ógreiddir áfallnir vextir af upphæðinni falli niður.“

Jeg skal slá þann varnagla strax, að þessar 2 brtt. verða að skoðast í sambandi hvor við aðra, enda um gamlan kunningja hjer að ræða, þar sem jeg hefi borið þessa styrkbeiðni fram á tveim þingum, án þess þó að fá áheyrn hv. þdm.

En til þess dálítið að rifja þetta mál upp, verð jeg að fara aftur í tímann, og kem þá fyrst að hafnarlögum fyrir Ísafjarðarkaupstað, nr. 34, frá 19. júní 1922. 1. gr. þeirra laga hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til hafnargerðar og hafnarumbóta á Ísafirði veitist úr ríkissjóði einn fjórði hluti kostnaðar eftir áætlun sem ríkisstjórnin hefir samþykt, þegar fje er veitt til þess í fjárlögum.“

Í 7. gr. sömu laga eru svo ákvæði um skyldur bæjarstjórnar Ísafjarðar gagnvart ríkisstjórn. Þar segir svo:

„Bæjarstjórnin má ekki án samþykkis stjórnarráðsins, selja eða veðsetja fasteignir hafnarsjóðsins, eða kaupa nokkra nýja fasteig, taka stærri lán eða til lengri tíma en að þau verði borguð aftur af tekjum þess árs .... og ekki heldur gera nein þau mannvirki við höfnina, sem eru svo stórvaxin að árstekjurnar hrökkvi eigi til að koma þeim í framkvæmd.“

Þetta er þá það sem hafnarlögin frá 1922 taka aðallega fram um þetta efni og mun jeg nú sýna að hve miklu leyti þessi ákvæði hafa komið til framkvæmda.

Veturinn 1923 keypti Ísafjarðarkaupstaður svokallaða Hæstakaupstaðareign á Ísafirði fyrir 300 þús. krónur. Um leið og kaupsamningur þessi var gerður, gerði bærinn einnig leigusamning við seljanda eignarinnar um að leigja honum eign þessa, en í leigusamningnum skuldbatt bærinn sig til þess að byggja hafskipabryggju við eignina fyrir árslok 1924. Sektir voru lagðar við þessu ákvæði, þannig að bærinn skyldi greiða leigutaka eitt þús. kr. fyrir hvern þann mánuð er svo liði frá 1. jan. 1925, að bryggjan væri ekki fullgerð. Báðir þessir samningar voru samþyktir af ríkisstjórninni.

Eftir að kaupsamningurinn var gerður og leigusamningurinn undirritaður varð kaupstaðurinn að byggja bryggjuna, enda var bryggjubyggingin ekki aðeins æskileg fyrir bæinn, heldur var hægt að segja, að hún væri nauðsynlegt skilyrði þess, að mögulegt væri að renta eign þá, sem orðin var eign bæjarfjelagsins.

Þegar bryggjan var bygð sem eign hafnarsjóðs leiðir af sjálfu sjer, að hafnarsjóður þurfti að eignast nægilegt land við bryggjuna með húsum, til þess betur að starfrækja hina miklu eign sjóðsins. Öll uppskipun frá póstskipunum og útskipun í þau er nú framkvæmd við þessa bryggju, en til þess betur að fullnægja kröfum þeim, er gera verður til hafnarsjóðs um afgreiðslu skipa og fleira í því efni, hefir hann orðið að reisa vörugeymsluhús í viðbót við þau önnur hús, er þar voru fyrir. Öll þessi eign hafnarsjóðs hleypur nú upp undir 242800 krónur. Af þeirri upphæð skuldar sjóðurinn bænum fyrir landhús við bryggjuna freklega þá upphæð, sem hjer er farið fram á, að ríkissjóður veiti til þessa mannvirkis, og eru þó ekki reiknaðir vextir skuldarinnar.

Þess skal einnig getið, að bryggjan er hvað eftir teikningum frá Krabbe vitamálastjóra, og er bryggjan í alla staði vönduð og góð eign fyrir höfnina og bæjarfjelagið.

Nú þykir mjer sennilegt, að hv. þdm. spyrji sem svo: Er þá bryggjan og þau önnur mannvirki, sem reist hafa verið í sambandi við hana, bygð á þann hátt, að fallið geti það undir hafnarlögin frá 1922?

Þessu er til að svara, að þáverandi hæstv. stjórn leit svo á að bryggjugerðin væri hafin samkv. lögunum, og með leyfi hennar og fullu samþykki rjeðst svo bæjarstjórn og hafnarnefnd Ísafjarðar í þetta fyrirtæki. Það verður ekki hægt að líta öðruvísi á en að þáverandi stjórn hafi með samþykki sínu lagt þann úrskurð á, að mannvirki þessi væru gerð í fullu samræmi við lögin frá 1922. En þáverandi stjórn er ekki ein um þann úrskurð, því núverandi hæstv. stjórn lítur einnig svo á og hefir staðfest það með reglugerð um hafnargerð á Ísafirði, er hún gaf út 14. nóv. 1924, en þá voru hafnarbætur þessar fullgerðar. Reglugerð þessi hefir sína stoð í lögunum frá 1922 og gat hvorki orðið samin nje samþykt, nema áður væru gerðar þær umbætur, sem jeg hefi nú lýst. Svo alt ber að sama brunni og getur ekki leikið á tveim tungum, að hafnarumbætur Ísafjarðar eru gerðar að öllu leyti samkvæmt þeim ákvæðum, er lögin frá 1922 taka aðallega fram. Þess vegna verður ekki fram hjá því komist, að ríkissjóði ber að greiða ¼ kostnaðar, en auðvitað ekki fyr en fje er til þess veitt í fjárlögum samkv. 1. gr. laganna frá 1922, er jeg las upp áðan. Fyr eða síðar hlýtur ríkissjóður að greiða Ísafjarðarkaupstað þessa upphæð, en spurningin er aðeins sú, hvort rjett sje að taka þetta upp í fjárlögin nú eða ekki.

Þó að jeg hafi getað sætt mig við að vera synjað um þessa málaleitun á tveimur undanförnum þingum, þá hefir það verið af fjárhagsörðugleikum ríkissjóðs og því, að þingið hefir synjað svo að segja um allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda. En eins og nú er komið fjárhag ríkisins, og fjárlagafrv. stjórnarinnar her með sjer, þá verður á næsta ári veitt drjúgum fje til ýmsra verklegra framkvæmda. Má í því sambandi t. d. nefna frv. stjórnarinnar um bryggjugerð í Borgarnesi. Þó jeg ætli ekki á neinn hátt að leggja stein í götu þess máls, virðist mjer þó, að eins mikil ástæða hefði verið til að taka upp í fjárlagafrv. þennan styrk til hafnargerðar á Ísafirði, því nú er sýnt, að fje er fyrir hendi hjá ríkissjóði, og því get jeg ekki sjeð, að í neinu ósamræmi sje við fjárlög þau, sem nú eru á ferðinni, að þessi brtt. mín nái samþykki hv. þdm. Jeg sje því ekki, að nokkur ástæða geti verið til þess að draga að setja í fjárlögin þá upphæð, er hjer um ræðu, og sem greiðast verður fyr eða síðar. Jeg skal taka það fram, að lán það er Ísafjarðarkaupstaður fjekk 1920, var veitt sem bjargráðalán til að afla honum eldiviðar. En eins og háttv. þm. er kunnugt, er um litlar tekjur að ræða af þessum fyrirtækjum og megnið af því fje, sem lagt er í þau, er aðeins eyðslufje, sem hvergi kemur fram. Ísafjarðarkaupstaður ljet starfrækja surtarbrandsnámu til þess að afla eldiviðar, en það gaf lítið sem ekkert í aðra hönd. Lagði ríkissjóður fram lán til þess, og var hjer um dýrtíðarráðstöfun að ræða, og mátti búast við því, að það fje yrði ekki hægt að endurgreiða, enda getur það ekki talist á neinn hátt ósanngjarnt, að kaupstaðurinn fái eftirgefinn talsverðan hluta af dýrtíðarláninu, sem hann fjekk. Jeg vil svo aðeins bæta því við, að þó að þessari málaleitun verði ekki sint og neitað verði um þennan sanngjarna styrk, sem hjer er farið fram á, þá eru litlar líkur til þess, að lánið verði endurgreitt. Það er líka ekki til neins að breiða yfir það, að kaupstaðurinn er efnalega ekki vel stæður. Álít jeg það tæplega forsvaranlegt að verða ekki við hinni sjálfsögðu kröfu hans í þessu máli.

Jeg skal taka það fram, að jeg mun taka aftur brtt. mína nr. II, ef brtt. nr. I. frá háttv. þm. Borgf. (PO) verður samþykt. Fer hún fram á að færa endurgreidd lán upp í 83000 kr.

Þá á jeg aðra brtt., nr. VI, um að við 12. gr. 15 d. komi nýr liður, sem er lokastyrkur til byggingar sjúkrahússins á Ísafirði, 10000 kr.

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) gat þess, að fyrir nefndinni hefðu legið ýmsar beiðnir í þessa átt, sem hún hefði ekki getað tekið til greina. Einnig gat hann þess, að sumar þessar byggingar, sem sótt var um styrk til, væru ekki enn fullgerðar, enda lægju ekki fyrir háttv. fjvn. neinir reikningar frá þeim. En hvað við kemur sjúkrahúsinu á Ísafirði, er þessu alls ekki til að dreifa. Það var fullgert síðastliðið sumar, og hafa lokareikningarnir legið, eða að minsta kosti eiga að hafa legið fyrir hv. fjvn. En mjer er ekki grunlaust um, enda þótt háttv. form. nefndarinnar (ÞorlJ) tæki við skjölunum, að reikningar byggingarinnar kunni að hafa lagst til hliðar og nefndinni þannig sjest yfir þá.

Fyrsti styrkur til sjúkrahússins á Ísafirði var veittur á þinginu 1923, og voru það 25 þús., og var gert ráð fyrir, að það væri 1/3 hluti af ríkissjóðsstyrknum, sem aftur er 1/3 hluti alls byggingarkostnaðarins, og gildir þar sama regla og um aðrar sjúkrahúsbyggingar. Svo átti bæjarstjórn Ísafjarðar að leggja fram 2/3 hluta kostnaðarins.

Á þinginu 1923 voru skiftar skoðanir um það, hvort veita ætti styrkinn í einu eða þrennu lagi. Þáverandi forsrh. (SE) hjelt því fram, að veita bæri styrkinn í einn lagi, en fjvn. vildi veita hann í þrennu lagi, og hafði hún sitt mál fram. En ef styrkurinn hefði verið veittur í einu lagi, þá hefði hann ekki orðið 75 þús., heldur 80 þús. kr., því að upphaflega var gert ráð fyrir, að hann yrði um 80 þús. kr. En nú var hin leiðin farin, sem sje að veita 25 þús. kr. í 3 ár, eða að láta styrkinn koma þrisvar í fjárlögum.

Nú er sjúkrahús þetta bygt á hinum mestu lággengistímum, og er því ekki að undra, þó að kostnaðurinn við það færi fram úr áætlun. Enda hefir það farið fram úr áætlun um 24 þús. kr. Má það ekki heita stór upphæð, þegar þess er gætt, að ofan á lággengið bættist það, að lagður var á verðtollur 1924, sem kom talsvert hart niður á byggingunni. Þá er hús þetta mjög vandað og vel bygt og hefir hlotið ákveðið lof hjá landlækni. Hygg jeg því, að það verði ekki álitin mjög stór upphæð, sem byggingin hefir orðið dýrari en áætlunin gerði ráð fyrir.

Það er nú eftir tilmælum frá bæjarstjórninni og sjúkrahúsnefndinni á Ísafirði, að jeg flyt þessa tillögu, sem fer í þá átt, að ríkissjóður greiði sinn þriðja hluta af upphæð þeirri, er fram yfir er áætlun. Eru það einar 8 þús. kr. Mjer sýnist ekki, að ríkissjóður geti skorast undan að verða við þessari beiðni. Mjer þótti það satt að segja undarlegt, er jeg las brtt. háttv. fjvn. og sá, að hún hefir hækkað styrkinn til Heilsuhælisfjelags Norðurlands um 50 þús. kr. jafnframt því, að hún hefir ekki sjeð sjer fært að veita 8 þús. kr. lokastyrk til sjúkrahússins á Ísafirði, sem þó sendi nefndinni lokareikninga sína. Þessi ákvörðun nefndarinnar freistar mín til þess að láta mjer detta í hug, að hjer sje um olnbogabarn en ekki eftirlætisbarn nefndarinnar að ræða.

Tilmæli mín eru þá þau, að háttv. deild samþykki þennan 10 þús. kr. styrk. Að það eru 10 þús., en ekki 8 þús., byggist á því, að vegna verðtollsins hefir byggingin orðið dýrari en ella mundi. Var talað um það á síðasta þingi að fá eftirgefinn verðtollinn. Og nú er því hjer slengt saman við lokastyrkinn og borið fram í einu lagi.

Jeg get bætt því við, að jeg hefi tvívegis talað við landlækni um þetta mál,

Hefir hann verið mjer algerlega sammála um þetta, og telur hann mjög sanngjarnt, að þingið verði við þessari styrkbeiðni.

Hjer liggja nú reikningarnir frammi fyrir hinu háa. Alþingi, og kemur til kasta þess að ákveða, hvort það ætlar að standa við að leggja fram 1/3 hluta kostnaðarins eða ekki.

Jeg skal aðeins gefa þá skýringu viðvíkjandi samanburðinum á heilsuhæli Norðurlands, að það mun ekki hafa áhrif á atkvæði mitt um það, hvernig svo sem fer um þetta mál. Vona aðeins, að þingið sýni sömu sanngirni í þessu máli og í hinu.