12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Að vísu dregur nær þinglausnum, en engan veginn þó svo, að ekki mundi endast tími til að koma þessu frv. lengra, væri það samþ. nú, sjerstaklega þó með það fyrir augum, að efnt væri það, sem báðir frsm. meiri og minni hluta hafa viljað, að um málið yrðu engar óþarfar umr.

Mjer skilst, að það, sem um er deilt, sje það, hvort skólar þessir skuli skoðast sem sjerskólar eða ekki. Jeg skil ekki mótbárurnar, sem færðar eru gegn því, að skólar þessir sjeu ekki sjerskólar. það mætti þá með jafnmiklum rjetti segja, að minsta kosti um gagnfræðaskólana, að þeir sjeu ekki sjerskólar, og eru þeir þó kostaðir af ríkinu.

Háttv. frsm. minni hl. (BSt) þarf jeg aðeins fáu að svara, enda hefir háttv. frsm. meiri hl. (ÞórJ) fært svo rækilega rök fyrir frv. Jeg vil þó minna hv. frsm, minni hl. (BSt) á það, að ekki er hægt að segja, að kvennaskólar, sem eru aðeins fyrir konur, og þar sem kent er ýmislegt, sem ekki er hentugt að kenna í samskólum, sjeu í raun og veru almennir skólar.

Öðru máli er að gegna með bændaskólana og unglingaskólana, þar sem kend er almenn unglingafræðsla. Í bændaskólunum eru nú kend meir almenn fræði en áður, minna verklegt nám. Annars eru þeir yfirleitt ætlaðir bændum eins og kvennaskólarnir konum, með tilliti til verksviðs þeirra sjerstaklega. Kvennaskólar þessir eru auðvitað ekki fyrir konur, sem stunda ætla háskólanám, heldur fyrir þær konur sjerstaklega, er gegna því starfi, sem þær hafa hingað til alment gegnt í þjóðfjelaginu.

Það er villandi að segja, að eins sje ástatt um kvennaskólana og um almenna unglingaskóla. Frsm. minni hl. (BSt) mintist á kenslugreinirnar, en þegar hann segir, að handavinna sje aukanámsgrein, er það aðeins af ókunnugleika, því að þessi sjerkensla tekur meira en 1/3 af öllum námstímanum og getur þessvegna ekki talist aukanámsgrein. En þetta eitt sannar til fullnustu, að hjer sje um sjerskóla að ræða.

Mér skildist háttv. frsm. minni hl. (BSt) nefna skólana gagnfræðaskóla fyrir konur. Ef þeir væru nú það, sem þeir eru í rauninni ekki, þá ætti sama að gilda um þá og aðra gagnfræðaskóla.

Mjer finst það vera tilraun til að villa mönnum sýn, að halda því fram, að þetta eigi að bíða þangað til fult skipulag er komið á skólamál vor. Það getur orðið langt að bíða eftir því. Væri ekki eins gott að gera þetta nú, og svo þegar ríkið ræður algerlega yfir þessum skólum, getur það hagað þeim eins og því sýnist.

Háttv. frsm. minni hl. (BSt) virtist nú ekki vilja leggja mikla áherslu á kostnaðarhliðina. Þetta er líka rjett. Sú hlið á ekki að koma hjer verulega til greina, þar sem ríkið kostar þegar skólana. En það sáralitla fje, sem kemur annarsstaðar frá, mun verða greitt eftir sem áður. Jeg held, að jeg megi segja, að sá hluti kostnaðar, sem kemur annarsstaðar frá til skólans í Reykjavík, sjeu einar 500 kr.

Háttv. frsm. minni hl. (BSt) sagði, að það væri engin sönnun fyrir því, að skólarnir yrðu fullkomnari, þótt þeir kæmust á ríkissjóðinn. þetta er auðvitað satt. En mjer er það óskiljanlegt, að þm. skuli ómögulega vilja, að ríkið ráði yfir stofnun, sem ríkissjóður kostar að öllu leyti. Það er ekkert misrjetti gagnvart öðrum skólum, þó að þeir skólar verði ríkisskólar, sem fá alt úr ríkissjóði, sem þeir þurfa. Mjer þykir það koma úr hörðustu átt, þegar frsm. minni hl. (BSt) segir, að þau fyrirtæki kosti æfinlega meira, sem rekin eru af ríkinu, heldur en fyrirtæki einstakra manna. Það kemur ekki heim við þær kenningar, er koma úr svipaðri átt.

Það hefir verið talað mikið um nauðsyn nýs skólahúss fyrir barnaskólann í Reykjavík, sem fyr myndi heimtað, ef skólinn yrði tekinn á ríkisjóðinn. En ef skólinn þarf að byggja á annað borð, er það víst, að þingið mun leggja fram það fje, sem nauðsynlegt er, en ekki fara að leggja þenna hálfrar aldar gamla og góða skóla niður. Enda hefir þingið altaf sýnt, að það veitir það fje, sem skólar þessir þarfnast, t. d. nú síðast til viðbótarbyggingar við Blönduósskóla og til húsgagnakaupa fyrir Reykjavíkurskólann.

Jeg get verið samdóma háttv. frsm. minni hl. (BSt) um það, að þegar fjárlögin líta svo út sem nú, sje ekki rjett að samþykkja lög, sem hafa óþarfa kostnað í för með sjer. Og jeg get gengið enn lengra. Það er aldrei ástæða til þess að samþ. lög, sem hafa í för með sjer óþarfa kostnað, hvernig svo sem fjárlögin líta út. En hjer er ekki um önnur gjöld að ræða en þau, sem ríkissjóður verður hvort eð er að borga. Jeg segi það eins og er, að jeg get ekki skilið mótstöðuna gegn þessu máli. Jeg hygg; að það sje bara fyrirtekt og mótbárurnar gegn því aðeins fyrirsláttur. Sjerstaklega skil jeg ekki í mótmælum manna gegn því, að kvennaskólarnir sjeu sjerskólar, þar sem þeir kenna það, sem ekki er hægt að kenna í samskóla og stendur í sambandi við hin sjerstöku störf kvenna. Jeg verð að halda, að ef menn skilja ekki, að hjer er um sjerskóla að ræða, þá er það af því, að þeir vilja ekki skilja það.