12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2107)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Þótt jeg vilji flýta fyrir, að atkvgr. geti farið fram, kemst jeg ekki hjá því að gera örstuttar athugasemdir við það, sem beint var til mín út af ræðu minni áðan.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að nægur tími væri til þess að koma málinu fram enn. Jeg efast þó um það, nema eigi að hroða því af með afbrigðum frá þingsköpum. Hann sagði einnig, að það væri ekki til neins að vera að ræða mikið um málið. Má það vel vera. En aðaldeiluefnið sagði hann að væri, hvort skólarnir væru sjerskólar eða ekki. Sagðist hæstv. forsrh. (JM) ekki geta skilið mótbárur okkar, sem álitum, að kvennaskólinn í Reykjavík sje ekki sjerskóli. Þá sagði hann, að gagnfræðaskólarnir væru ekki sjerskólar, en þó kostaðir af ríkissjóði. En það er alt öðru máli að gegna með þá, eða að minsta kosti með tvo af þeim, gagnfræðaskólana í Reykjavík og á Akureyri, því að þeir eru jafnframt undirbúningsskólar undir æðri mentun. Aftur á móti er þriðji gagnfræðaskólinn, Flensborgarskóli, ekki rekinn af ríkinu, heldur eins og kvennaskólarnir, með styrk úr ríkissjóði, og þessvegna ekki á ábyrgð hins opinbera.

Mjer skildist svo, að aðalrökin, sem þetta bygðist á, væru þau, að kvennaskólarnir væru sjerskólar, það er, aðeins fyrir konur einar. Jeg hefi aldrei borið á móti því, að svo væri, en jeg sje ekki, að þetta eitt geti rjettlætt að taka þá í tölu ríkisskóla. Mjer detta t. d. í hug bændaskólarnir, þar er heldur ekki kent neitt annað en það, sem bændaefni þurfa sjerstaklega að læra. Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett, sem sagt hefir verið, að kenslan væri svipuð í kvennaskólunum og bændaskólunum. Í kvennaskólunum eru fræðigreinar kendar án tillits til þess, úr hvaða stjett nemendurnir eru. Þá var það talið sem sjerstök sönnun þess, að um sjerskóla væri að ræða, að einn þriðji hluti námsgreinanna væri aðeins fyrir konur einar. Jeg get ekki sjeð, að þetta nægi til að gefa neinum skóla sjerstöðu. Það hefði verið nær lagi, hefði verið hægt að sanna þetta um tvo þriðju hluta námsgreinanna, því það má tæpast minna vera en liðlega helmingur námsgreinanna væri sjerfræðigreinar; einn þriðji hluti getur ekki komið til mála, því það sannar ekki annað en það, að hjer er um almennan, en ekki sjerskóla að ræða. Þó sagði hæstv. ráðherra (JM), og ýmsir fleiri hafa sagt það sama, að þegar ríkið fengi umráð yfir skólunum, gæti það skipað þeim eftir vild, t. d. væri hægt að gera þá að algerðum húsmæðraskólum. Þetta er rjett. En því var þá ekki þetta frv. lagt þannig fyrir, að þetta yrði gert þegar í stað? Ef það hefði verið gert, hefði alt öðru máli verið að gegna um þetta. Jeg er hissa á því, að hv. frsm. meiri hl. (ÞórJ), sem er skynsamur maður, skyldi ekki sjá þetta og nota tækifærið til að bera fram brtt. um að gera skólana að húsmæðraskólum.

Þá sagði hæstv. ráðherra (JM), að kostnaðarhliðin á þessu máli kæmi ekki til greina. þetta þótti mjer all-undarlegt, því hæstv. ráðh. (JM) er all-glöggskygn á þá hluti og veit manna best, að kostnaðarhlið allra mála á ætíð að koma til greina, en hitt játa jeg, að sú hlið er ekkert aðalatriði í þessu máli.

Þá sagði hæstv. ráðh. (JM), að það kæmi úr hörðustu átt, að jeg færi að gera mikið úr reksturskostnaði ríkisstofnananna, eða færi í alvöru að halda því fram, að hann væri meiri en við einkastofnanir. Jeg skil ekki, hversvegna hæstv. ráðh. (JM) segir þetta; jeg hefi aldrei haldið fram ríkisrekstri neinna stofnana. Jeg hefi að vísu einu sinni greitt atkvæði á móti niðurlagningu ríkisstofnunar, og jeg játa, að jeg gerði það af yfirlögðu ráði, vegna þess að svo stóð á, að ríkið hafði haft góðar tekjur af þessari stofnun, en það var eins og er ennþá ósannað, að þeim tekjum verði náð í ríkissjóð á eins auðveldan hátt.

Það er því engin ósamræmi hjá mjer, þó jeg hafi sagt, að það yrðu gerðar meiri kröfur til fjár á hendur ríkissjóði handa þessum skólum, er þeir væru orðnir ríkisskólar, laun kennara yrðu aukin og ýms annar kostnaður kæmi til, sem ekki hefði verið ráðist í, og átti jeg aðallega við það, að í rauninni væru ætíð gerðar frekari kröfur til ríkisskólanna en til einkaskóla, og jeg átti ekkert við það, að ríkisskólar hlytu í sjálfu sjer að vera dýrari í rekstri. Það er alkunna, að þeir skólar, sem eru í umsjá ríkisstjórnarinnar, hafa meiri getu en aðrir skólar til að framkvæma hvaðeina, sem þarf til skólarekstursins, og því eru meiri kröfur gerðar til þeirra; hitt þarf ekki að vera, að alt verði dýrara, sem ríkið lætur gera. Það er aðeins það, að getan er þar meiri, og því er meira krafist af þeim. Hæstv. ráðh. (MJ) sagði, að mótstaðan gegn þessu máli væri fyrirtekt, og ástæður þær, sem fram hefðu verið færðar, væru fyrirsláttur; þetta má nú altaf segja, en það sannar aðeins svo ákaflega lítið og ber ekki vott um ákaflega mikinn forða af rökum hjá þeim, sem taka til slíkra hluta í rökræðum.

Jeg get yfir höfuð ekki sjeð, að svo mikill ávinningur sje við það, að ríkið reki þessa skóla, að það eitt geti skýrt það kapp, sem hæstv. ráðh. (JM) o. fl. háttv. þm. beita í þessu máli. Þó dettur mjer ekki í hug að segja, að það sje fyrirtekt fylgismanna frv., t. d. hæstv. ráðh. (JM) o. fl., en ekki nauðsyn skólanna að komast undir verndarvæng ríkissins, sem ráði fylgi manna við frv.

Hv. frsm. meiri hl. svaraði mjer ekki í ræðu sinni áðan, og jeg get því gjarnan gert honum sömu skil og látið ræðu hans í friði.