27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

23. mál, fátækralög

Sveinn Ólafsson:

Mjer þykir hlýða að gera grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli, af því að jeg get ekki fylgt frv., en vil þó ekki láta skilja það svo, sem jeg sje því mótfallinn að láta gamalmenni njóta styrks á elliárum án rjettindamissis. Ástæður hv. meiri hl. allshn. finnast mjer á hinn bóginn ljettvægar og er því ekki ánægður með rökstuddu dagskrána, þó að jeg neyðist til að greiða henni atkvæði. Það er alt annað, sem veldur því, að jeg get ekki verið með þessu frv. Jeg lít svo á, að Alþingi sje fyrir löngu búið að gera ráðstafanir til þess, að gamalmenni þurfi ekki að njóta sveitastyrks með rjettindamissi, og á jeg þar við ellistyrktarsjóðina. þeir eru fyrir löngu teknir að starfa í sveitunum og koma í þessu efni að miklum notum og sumstaðar að fullum notum.

Annað er og, sem gerir það að verkum, að jeg er á móti þessu frv., en það er, að í sveitum, sem jeg þekki til, hafa menn tekið upp þann virðingarverða sið að veita gamalmennum samskotastyrk, ef ellistyrkurinn reynist ekki einhlítur. Sá hugsunarháttur er að færast í vöxt og dafna í sveitunum, að hlynna að gamalmennum og bjarga þeim frá sveitarstyrk. Kann jeg betur við slík óskráð lög en þótt letruð væru, og vil jeg lofa þessari mannúðarstefnu að ryðja sjer til rúms, sem lögin um ellistyrktarsjóðina virðast hafa að nokkru vakið. Fyrir þessar sakir er jeg á móti frv. og greiði atkvæði mitt með rökstuddu dagskránni, þótt jeg sje ekki ánægður með ástæður meiri hl. allshn. fyrir henni. Jeg tel, eins og hv. flm. (JBald), litlar líkur til þess, að gagngerð breyting á fátækralögunum komi á næsta þingi, og af þeirri ástæðu er varla vert að hafna þessu frv.