27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (2116)

23. mál, fátækralög

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg vildi aðeins benda á það, að þótt hv. þm. Mýr. (PÞ) viðhefði sanngjörn ummæli um þessa breytingu, þá færði hann litlar líkur fyrir því, að hún kæmi fljótlega eða stæði fyrir dyrum á næsta þingi. Orðalag dagskrárinnar er líka mjög óákveðið. Þar er talið, að það sje „líklegt að þeirri endurskoðun verði lokið á þessu ári“ og ennfremur um „væntanlegar“ breytingar. Það er hart, að það skuli vera lagt til að slá þessu máli á frest, sem talið er bæði sanngjarnt og rjettlátt, og svo skuli ekki vera færðar sterkari ástæður fyrir frestuninni. Það væri skiljanlegra, að hjer væri eitthvert hik á mönnum, ef hjer lægi fyrir skýr og skýlaus yfirlýsing frá stjórninni um það, að þessi breyting skyldi verða tekin upp í fátækralögin á næsta þingi. En því er ekki til að dreifa, svo að þetta eru bara venjulegir vafningar til þess að tala sig frá málinu, án þess að leggjast beint á móti því.

Mjer þótti undarleg afstaða háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann felst ekki á ástæður meiri hl. um að fresta málinu, en hefir komið auga á ráð til að bjarga gamla fólkinu, sem sje ellistyrktarsjóðina. En þetta er algerlega talað út í bláinn. Ef hann gæti fullyrt með rökum, að ellistyrktarsjóðir væru svo öflugir, að þeir væru þess fullkomlega megnugir að taka við gamalmennum, þá væri öðru máli að gegna. En það er síður en svo, að svo sje. Það væri kannske hugsanlegt í einhverri einstakri sveit, en þó efast jeg um, að svo sje nokkursstaðar á landinu. Hvað fá sextugir menn í ellistyrk, ef þeir þá fá nokkurn? Hjer í Reykjavík, þar sem saman er kominn fimtungur landsmanna, nær hann aldrei 100 krónum. Oft er hann 50 krónur, en fjöldinn allur er með 25–30 krónur, og hygg jeg, að það sje sem næst meðaltalinu. Hverjum vill nú hv. 1. þm. S.-M. halda frá sveit með slíkum styrk? Það væri nógu fróðlegt að fá upplýsingar um það. Þetta er blekking og ekkert annað. Það er nógu fallegt að segja, að allir eigi að fá ellistyrk og að auka beri og efla sjóðina, en þetta er langt framundan og á langt í land, og óvíst er, að þeir, sem ungir teljast nú, sjái árangurinn af því starfi. Það má vera, að það verði einhverntíma á komandi árum. Þetta eru aðeins yfirskinsástæður. Það er engin ástæða hjer komin fram, sem hægt er að taka til greina. Það er engin vissa fengin fyrir því, að lögin verði endurskoðuð fyrir næsta þing. Og þó svo væri, þá er því ekki yfirlýst, að þessi breyting verði tekin upp. Engar líkur eru færðar fyrir því, að ellistyrktarsjóðirnir geti starfað svo á næstu árum, að þeir verði færir um að halda gamalmennum frá sveit. Þeir, sem vilja fella þetta frv. nú og samþykkja hina rökstuddu dagskrá meiri hl., verða því að finna enn nýjar ástæður sjer til rjettlætingar.