27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2118)

23. mál, fátækralög

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki vera fjölorður um þetta efni, en af því að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) dró orð mín í efa, um getu ellistyrktarsjóðanna, verð jeg að svara nokkru til. Jeg hefi fyrir mjer ákveðin dæmi. Jeg þekki tvö hreppsfjelög, þar sem ellistyrktarsjóðirnir nægja að mestu eða öllu til þess að veita þeim gamalmennum, sem þar eru, nauðsynlegan styrk. Jeg veit, að í sumum sveitum, þar sem gamalmenni eru mörg, muni ellistyrkurinn ekki einhlítur, en þetta er þó að smáþokast í áttina.

Í sveit þykir það verulegur styrkur fyrir sextugan mann að fá 120–140 krónur, og nægir hann til þess að halda honum frá sveit, sje hann ekki veikur, jafnvel mun lægri styrkur nægir mörgum, sem vinnufærir eru.

En það var ekki eingöngu vegna ellistyrksins, að jeg var á móti þessu frv., heldur og vegna hins, að jeg veit, að til eru og til munu verða óskráð lög um það, að forða í lengstu lög gamalmennum frá því að þiggja af sveit og missa mannrjettindi. Jeg kann miklu betur við óskráð lög um slíkt mannúðarmál en lagabókstafinn, og vil láta stefnuna þróast án íhlutunar frá löggjafarvaldinu. Jeg hefði t. d. kunnað miklu betur við það, að aldrei hefði verið orðað í fátækralögunum, að börnum væri skylt að sjá um og framfæra foreldra sína á gamals aldri. Um svo sjálfsagða og helga skyldu ætti helst ekki að þurfa fyrirmæli laga.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta meira. Jeg held, að flestir hafi ráðið það við sig, hvernig þeir snúast í þessu máli. Jeg tel það ekkert óhapp, þó frv. nái fram að ganga, en get ekki fylgt því og vil ekki ýta undir það lengra en komið er.