27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2129)

23. mál, fátækralög

Frsm. meiri hl. (Pjetur Þórðarson):

Jeg var búinn að taka það fram, að enginn í meiri hl. allshn. mundi gera þetta að kappsmáli. En nú sje jeg, að sumir háttv. þm. vilja gera það, þar sem þeir vilja taka atkvæðagreiðsluna um málið nú sem endanlegan úrskurð einstakra þm. í því, þrátt fyrir það, þó að nefndarálitið gefi fullkomlega í skyn, að meiri hlutinn sje ekki mótfallinn breytingunni, enda þótt hann telji breytinguna ekki tímabæra nú, þar sem það er víst, að fátækralöggjöfin endurskoðuð í einni heild verður lögð fyrir næsta þing. Þá hefir því verið haldið fram af háttv. 2. þm. Árn. (JörB), að verði breyting þessi á fátækralögunum ekki samþykt nú, þá sje með öllu útilokað, að hún komist að síðar. En þetta er hreinasti misskilningur, að minsta kosti sje jeg ekkert því til fyrirstöðu, að hún komist að, þegar lögin verða endurskoðuð.