04.03.1926
Efri deild: 19. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

40. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Halldór Steinsson):

Jeg get varla gefið skýrari skýrslu um nauðsyn þessa máls en gefin er í greinargerð þessa frv., í brjefi ljósmæðrafjelagsins. Þar er ýkjalaust satt og rjett lýst kjörum ljósmæðra eins og þau hafa verið og eru nú, og getur hver og einn háttv. þm. gert upp með sjer álit sitt á þeim, samkvæmt þessum málsgögnum. Mun þá verða ljóst, hversu viðunanleg kjör þau eru, sem ljósmæðurnar eiga við að búa, þær verða að leggja í talsverðan kostnað við nám sitt til undirbúnings starfinu, og má ætla þann kostnað um 600–700 kr. auk þess styrks, sem þær fá meðan þær eru við námið, — 45 krónur með dýrtíðaruppbót á mánuði í níu mánuði —. Því það er öllum kunnugt, að uppihald hjer í Reykjavík er mjög dýrt og einnig ef til vill langar ferðir hingað og hjeðan.

Að þessu námi loknu fær útlærð ljósmóðir um 300 krónur í laun á ári. Eru það meðalljósmóðurlaun, ef tekið er tillit til aldursuppbótar og aukatekna.

Það er alkunna, hversu erfitt getur verið að vitja ljósmóður í sveit að vetrarlagi, og því hefir nýlega verið lýst svo átakanlega hjer í deildinni. Það sýnir betur en nokkuð annað, hve starf þetta er mikilsvert, að menn verða oft að vitja ljósmæðra, hvað sem það kostar, jafnvel þó að við það verði að stofna lífi og limum í hættu. Yfirsetukonan verður ávalt að vera til taks, hvort heldur er í góðu veðri eða illu, á nótt eða degi. Hún verður að fara út í stórhríðar að vetrarlagi.

Ljósmæður mega ekki fara að heiman úr umdæmi sínu lengur en einn sólarhring, nema með leyfi hjeraðslæknis. Þær geta því ekki leitað sjer atvinnu utan umdæmisins þann tíma, sem þær ekki eru bundnar við ljósmóðurstörfin, og jafnvel innan umdæmisins eru þær bundnar svo, að þær geta ekki fest sig við önnur störf, því að þótt þær hafi ekki nema 5–6 fæðingar á ári, geta þær borið að á þeim tímum, þegar helst er atvinnuvon.

Ef ljósmóðir er gift, eða hefir heimili í sinni umsjá, verður það henni mun dýrara og fyrirhafnarmeira en öðrum húsmæðrum, því hún verður ávalt að hafa kvenmann sjer til aðstoðar, til að sjá um heimilið meðan hún er fjarverandi.

Þegar menn vilja líta á það, hvað ljósmæður bera úr býtum fyrir að standa í ófrjálsri, kostnaðarmikilli, erfiðri og ábyrgðarmikilli stöðu, furðar mann á því, að nokkur kona skuli fást til þessa, og eigi síst, ef litið er á, að flestar þessar konur gætu átt kost á miklu frjálsari stöðum og mun betur launuðum.

Ljósmæður hafa 300 kr. laun á ári, og af því eiga þær að fæða sig, skæða, klæða, greiða fyrir húsnæði o. s. frv. Hvaða lausakona eða vinnukona halda menn að mundi fást fyrir þetta kaup, eða með öðrum orðum sætta sig við að vera langt fyrir neðan matvinnungur? Jeg hygg, að það gæti orðið leit að henni.

En hví gefur nokkur kona kast á sjer til slíks starfs, sem er svona illa launað? Þær munu flestar ganga að náminu af áhuga og löngun til að gegna þessu starfi, og munu lítið hugsa í fyrstu um kjör þau, sem þær eiga í vændum. En þegar lengra líður frá og þær eru komnar út í starfið, verður afleiðingin af þessu almenn óánægja með kjörin. Nú er svo komið, að allflestar ljósmæður á landinu hóta að segja af sjer, ef launakjör þeirra fást eigi bætt að mun, enda hafa fæstar þeirra eftir miklu að sjá, þó að þær leggi niður þessi störf, og er enginn efi á, að þær mundu hafa hagnað af að skifta um atvinnu.

Á Norðurlöndum hafa ljósmæður rúmlega ferfalt hærri laun en hjer, auk eftirlauna, og er því ólíku saman að jafna.

Sumir halda því fram, að yfirsetukonur sjeu hjer óþarflega margar og mætti komast af með færri. Jeg er máske ekki fjarri því, að það mætti fækka þeim eitthvað lítið eitt, en þó veit jeg, að það mundi mæta mikilli mótspyrnu meðal þjóðarinnar. Út um land mega þær ekki vera svo strjálar, að það sje miklum erfiðleikum bundið að vitja þeirra. Jeg þekki t. d. eina sveit, þar sem það tekur fulla 12 tíma að sækja yfirsetukonuna, og nýlega hefi jeg heyrt, að þetta muni ekki vera einsdæmi. Það er ekkert sjerlegt menningarbragð að þessu, og því síður er það mannúðlegt, að svo að segja útiloka fæðandi konu frá nauðsynlegri hjálp. Nei! Þeim má alls ekki fækka að mun, allra síst í sveitum. En þótt þeim yrði eitthvað fækkað, þá ætti það síst að standa í vegi fyrir því, að launin yrðu bætt.

Vjer Íslendingar erum langt að baki ýmsum öðrum þjóðum í heilbrigðismálum. Eitt af því, sem okkur vantar tilfinnanlega, er hjúkrunarstarfsemi. Það þyrfti helst að vera ein eða tvær lærðar hjúkrunarkonur í hverri sveit; en þetta á langt í land hjá okkur. Jeg sje ekkert á móti því, að ljósmæður væru látnar gegna hjúkrunarstörfum hver í sinni sveit, ef það færi ekki í bága við ljósmóðurstörf þeirra. Sumir álíta að vísu, að þetta yrði til þess eins, að þær bæru sóttnæmi á milli, en þetta er að mínu áliti markleysa ein. Þetta er alt undir hjúkrunarkonunni sjálfri komið; ef hún er kærulaus trassi, þó hún sje að öðru leyti vel lærð, getur hún borið út sýki á milli fólksins. Nei, ef ljósmóðirin er þrifin og kann til verksins, er engin hætta á því, að hún beri sóttnæmi á milli, frekar en lærðar hjúkrunarkonur. Þótt við fengjum ekki hálærðar hjúkrunarkonur á þenna hátt, tel jeg það mundu verða til stórra bóta, ef samhliða ljósmæðranáminu væri látið vera stutt námsskeið í hjúkrunarstörfum. Jeg hefi að vísu ekki sett í frv. ákvæði í þessa átt, en það gæti verið athugunarefni fyrir nefndina, sem fjallar um frv., hvort ekki væri fært að bæta þessu inn í frv.

Jeg vænti nú, af því, sem jeg hefi tekið fram, að það sje öllum háttv. þingdeildarmönnum ljóst, hversu kjör yfirsetukvenna eru óviðunandi. Hitt er aftur álitamál, hvort launabætur frumvarpsins eru of hátt settar eða eru of litlar. En jeg tel þær ekki of hátt settar, ef litið er á kostnað þann, sem námið hefir í för með sjer, en staðan er, eins og jeg hefi áður tekið fram, ófrjáls, erfið og ábyrgðarmikil. Loks vil jeg geta þess, að Ljósmæðrafjelagið bað um, að sett yrðu í frv. ákvæði um eftirlaun handa ljósmæðrum, þetta er í sjálfu sjer sanngjarnt, og er, eins og jeg sagði áðan, lögákveðið erlendis. En jeg sá mjer ekki fært að setja frekari ákvæði í frv., því mjer virtist það mundi vera í ósamræmi við ákvæði um laun annara starfsmanna ríksins. Jeg skýt því hjer með til væntanlegrar nefndar, hvort ekki mundi fært að fullnægja þessari kröfu á þann hátt að setja inn í frv. ákvæði um skyldu á hendur ljósmæðrum til að kaupa sjer lífeyri eins og aðrir opinberir starfsmenn ríkisins.

Jeg læt svo ekki frekara um mælt að sinni um þetta frv., en geri það að tillögu minni, að frv., að lokinni þessari umræðu, verði vísað til fjárhagsnefndar.