29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

40. mál, yfirsetukvennalög

Einar Árnason:

Jeg býst við, að það sje ekki sjerlega árennilegt, eftir þessar ræður, sem hjer hafa verið haldnar, að ríða á vaðið til þess að gera almennar athugasemdir við frv. og málið yfirleitt.

Mjer finst lítið hafa komið fram um það, að nefndin hafi áttað sig á, hvað hjer er að gerast, að þetta er byrjun til breytinga á hinum almennu launalögum ríkisins, sem sett voru 1919, Á þinginu 1919, sem oft hefir verið kallað eyðsluþingið mikla, voru sett lög um laun embættismanna, yfirsetukvenna, barnakennara og alþingismanna. Nú mun öllum þingmönnum kunnugt, að flest árin síðan 1919 hafa komið fram kröfur frá ýmsum starfsmönnum og embættsmönnum ríkisins um breyting á launakjörunum og hækkun þeirra. En þingið hefir að þessu ekki sjeð sjer fært að hreyfa við kerfinu frá 1919, af því að það hefir búist við, að væri því hreyft, þá yrði að breyta öllum launalagabálkinum, sem settur var á því þingi; þá yrði að hækka öll launin. Jeg geri ráð fyrir, að löggjafarnir frá 1919 hafi reynt að setja laun opinberra starfsmanna í sem mest samræmi, og enginn verið borinn fyrir borð, og jafnframt hafi verið haft fyrir augum, hversu há laun ríkið væri megnugt að greiða.

Því verður þó ekki neitað, að svo virðist ástatt um marga opinbera starfsmenn, að þeir eigi við þröngan kost að búa og hafi fulla þörf hærri launa.

Þegar jeg sný mjer að þessu frv., sem hjer liggur fyrir, og lít á þær breytingar, sem gerðar eru á núgildandi lögum, þá virðist mjer í fljótu bragði, að lægstu laun yfirsetukvenna sjeu hækkuð um 300%, að meðtaldri dýrtíðaruppbót. Jeg neita því ekki, að ástæða sje til þess að bæta laun yfirsetukvenna að einhverju leyti. En mjer finst, að hjer megi á milli vera. Það lítur út fyrir, að þinginu 1919 hafi verið undarlega mislagðar hendur, ef nú er rjettlátt að hækka þessi laun um 300%, en láta önnur laun standa í stað. — Það hafa komið fram alvarlegar kröfur frá kennurum háskólans um launahækkun, en jeg hefi ekki orðið þess var, að það væri nein hreyfing í þá átt hjer á Alþingi að taka þessar kröfur til greina. Og þó eru þessar kröfur mjög vel rökstuddar. En jeg vil spyrja: Hvernig ætla þá þeir þingmenn, sem vilja hækka laun yfirsetukvenna um 300%, að fara að ganga á móti því, að veita þeim öðrum starfsmönnum ríkisins bætur á launum sínum, sem beðið hafa um þær? Jeg held það sje óhjákvæmilegt, að á eftir þessu máli, verði frv. samþykt, þá hljóti að koma ákveðnar kröfur, sem illmögulegt verður að komast undan að sinna. Og skal jeg þá nefna til dæmis barnakennara í sveit. Strax eftir að þetta frv. kom fram, heyrði jeg einmitt þetta haft á orði: þá held jeg, að við megum fara að koma með barnakennarana á eftir, þegar búið er að samþykkja þetta.

Jeg vildi aðeins vekja athygli á þessu, jafnvel þótt jeg þykist vita, að það þýði ekkert; því að sú stefna, sem kemur fram í frv., mun hafa yfirgnæfandi meiri hl. hjer í hv. deild. Það er hjer 5 manna nefnd, sem mælir með því að breyta lögunum um laun yfirsetukvenna. Þar að auki hafa 3 hv. þm., sem standa utan nefndarinnar, lýst fylgi sínu við málið.

Þá skal jeg minnast nokkuð á brtt. nefndarinnar. Þar dregur nokkuð úr því, sem ákveðið er í frv. Og þá virðist mjer tröppustig launanna verða þessi, — og bið hv. frsm. leiðrjetta, ef jeg fer rangt með: Nú geta lægstu laun yfirsetukvenna orðið hæst 275 kr.; eftir till. nefndarinnar geta lægstu laun orðið 800 kr., en eftir frv. 1120 kr. Jeg viðurkenni það fúslega, að það sje rjett að bæta kjör yfirsetukvenna. En jeg tel óþarft að fara svona hátt.

Það hefir verið talað um, hve vandasöm og mikilvæg þessi staða væri. Jeg játa þetta, en jeg veit hinsvegar, að starfið er alls ekki mikið. Hvað halda menn, að fæðingar sjeu margar árlega í almennum sveitaumdæmum? Þær eru alls ekki margar, þetta frá 6–7 og upp í 10. Það er áreiðanlega ekki mikið starf að sinna því. Og það er nú svo, að fólkið, sem er á besta aldri, er nú að flytja sig sem óðast úr sveitunum; þær eru að tæmast til kaupstaðanna, en eftir mestmegnis gamalmenni og börn, og reynslan sýnir, að fæðingum þar fer líka fækkandi.

Þá vildi jeg minnast ofurlítið á formhlið þessa máls, eins og hún er í brtt. nefndarinnar. En að sönnu hefir frv. sama ágalla. Það er sem sje í 1. gr. blandað saman óskyldum efnum. Í staðinn fyrir að rjett hefði verið, að í 1. gr. hefði aðeins verið talað um þau föstu laun, þá er þar bætt við dýrtíðaruppbót. Þetta gerir dálítið óþægilega atkvgr. að því leyti til, að það er alls ekki víst, að það sjeu allir, sem vilja hvorttveggja. Getur verið, að einhverjir vilji veita þeim dýrtíðaruppbót á þau laun, sem nú eru, en ekki gera meira; svo geta verið aðrir, sem vilja hækka launin, en ekki veita neina dýrtíðaruppbót. En eftir því, sem þetta liggur nú fyrir, eru menn bundnir við að taka hvorttveggja eða þá hvorugt. Það er ekki í neinum núgildandi launalögum, að þessu sje blandað saman í sömu grein. Í launalögum embættismanna er dýrtíðaruppbót í sjerstakri grein, líka í launalögum barnakennara. Sömuleiðis er þetta í launalögum þingmanna.

Auk þessa er blandað líka inn í 1. gr. hjá hv. nefnd algerðu nýmæli, sem sje því, að sama regla gildi í sveitum og kaupstöðum um það, að ríkissjóður borgaði þar helming launanna í staðinn fyrir að hingað til hefir ríkissjóður ekkert borgað í kaupstöðum. Þessu er blandað inn í laun yfirsetukvenna, en það er alt annars eðlis, hvað á að hafa launin há og hverjir eiga að borga þau. Það er alveg sjerstakt mál, hvort sem það er rjett að breyta þessu eða ekki.

Mjer finst það ekki stórt atriði í sjálfu sjer, hvort kaupstaðirnir borga öll laun yfirsetukvenna eða hálf. En mjer kemur í hug, hvort þessi breyting gæti nokkuð stafað af því, að fjórir hv. nefndarmenn eru búsettir í kaupstað og einn í væntanlegum kaupstað.

Jeg hefi gert þessar athugasemdir til þess að sýna fram á, að það er fullkomlega ástæða til að líta ekki alveg eins einhliða á þetta mál eins og komið hefir fram hingað til í þessum umræðum. Ekki svo að skilja, að jeg geri þetta að miklu kappsmáli. Jeg býst við að greiða atkv. með þessum brtt. til 3. umr., í þeirri von, að þá kunni að koma fram brtt., sem geri málið þannig úr garði, að jeg geti fylgt því út úr deildinni.