29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2162)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Það er eins með þetta sem annað, að sitt sýnist hverjum. Það hafa heyrst raddir um það, að nefndin hafi gengið of skamt í að hækka laun yfirsetukvenna, og það hafa heyrst raddir um það, að hún hafi gengið alt of langt. En eins og jeg tók fram áður, hafði nefndin það sjerstaklega fyrir augum, að fara meðalveginn og að stinga upp á, að launin væru sett eins og sanngjarnt er nú sem stendur. Nefndin var öll sammála um, að núverandi launakjör yfirsetukvenna væru alveg óviðunandi. Og jeg skal taka það fram, að nefndin átti tal um þetta mál við landlækni, og kvað hann sjálfsagt, að launin þyrfti að bæta. Einnig skal jeg taka það fram, í tilefni af því, sem hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) sagði, að landlæknir fullyrti, að mörg yfirsetukvennaumdæmi víðsvegar á landinu, væru óskipuð vegna þess, að launin væru svo lág. Konur vildu alls ekki binda sig í hjeraði, fyr en launakjörin yrði bætt. Það eitt, að yfirsetukonur eru of fáar, er ærin ástæða til þess að bæta kjör þeirra svo, að nægur fjöldi velhæfra kvenna fáist til þess að gegna ljósmóðurstörfum, bæði í sveitum og kaupstöðum þessa lands. Jeg ímynda mjer, að hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) viðurkenni, að það sje alveg nauðsynlegt, að yfirsetukonur sjeu víðsvegar um landið eftir því sem þurfa þykir. Og jeg ímynda mjer, að þau umdæmi, sem enga hafa, kvarti undan því og geti ekki við það unað.

Nefndin tók það til íhugunar, hvort rjett mundi að ákveða yfirsetukonum eftirlaun frekar en nú er gert. Að öllu athuguðu þótti henni ekki rjett að leggja til, að svo yrði gert fyrst um sinn. Það er eins og tekið hefir verið fram og allir vita, að ef ætti að fara að stofna eftirlaun þarna, þá mundu fleiri á eftir fara. Annað var það, að þótt þetta sje nauðsynlegt starf, þá er þó lærdómurinn vitanlega ekki langur. Enn er það, að nefndin gerði ráð fyrir, að það myndi svo verða framvegis sem hingað til, að minsta kosti í sveitum, að oftast væru það giftar konur, sem ljósmóðurstörfunum gegna, og þá verður vitanlega starf þeirra að skoðast sem aukastarf; aðal-starfið verður auðvitað við heimilið hjer eftir sem hingað til í hinum fámennu umdæmum. Enn er það vitanlegt, að margar slíkar húsmæður í ljósmóðurstöðu eru ekki svo aumlega staddar, að þær beinlínis þurfi að fá eftirlaun, jafnskjótt og þær hætta ljósmóðurstörfum.

Af því, sem hjer hefir sagt verið, og fleiru, sem til greina gæti komið, gat nefndin ekki fallist á að leggja það til, að eftirlaun yrðu lögákveðin.

Það er talsvert öðru máli að gegna um ljósmæður í kaupstöðum. En þá kemur það til greina, sem heimilað er í yfirsetukvennalögum frá 1912, að þar er ætlast til, eins og reyndar alloft hefir átt sjer stað, að bæjarstjórnir veiti yfirsetukonum, þá er þær láta af starfi sínu, hæfilegan styrk til þess að ljetta þeim ellina. Að láta ljósmæður fara að leggja fje í lífeyrissjóð, eins og sumir hafa haft á orði, vildi nefndin ekki leggja út í. Það hefði tafið tímann um of fyrir þessu frv., og annað það, að launahækkun sú, sem hjer er stungið upp á, er ekki svo mikil, að gerlegt þætti að lögskipa framlag af þeim í lífeyrissjóð. Jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að mjer þótti rjett að bæta kjör yfirsetukvenna. Um hitt má að mínu áliti deila, hvort nefndinni hefir tekist að þræða hina rjettu leið í þá átt.

Hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) var að tala um það, að með því að bæta kjör yfirsetukvenna væri skapað fordæmi um launabætur til annara, er ríkissjóður launar. Jeg held það sje alveg misskilningur. Það hafa svo oft verið bætt kjör einhverra starfsmanna landsins, án þess að þær bætur hafi skapað nokkuð sjerstakt fordæmi.

Ef slík hræðsla við fordæmi væri alment ríkjandi hjá löggjafarvaldinu, þá gæti það hreint ekkert gert, sem ekki var búið að gera áður.

Þó að þetta frv. verði að lögum, þá skapar það ekkert fordæmi fyrir því, að aðrir starfsmenn ríkisins eigi að fá launaviðbót, og ætti það að geta eytt allri hræðslu háttv. þm. í því efni.

Það, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hafði aðallega á móti brtt. okkar, var að nokkru leyti af sömu hræðslu sprottið og hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) var að tala um. En mótbárur hans sýndust ekki sterkar, enda bjóst hann við, að verða með brtt. okkar til 3. umr., og læt jeg mjer þá byrjun vel líka. En um útreikning hans verð jeg það að segja, að annaðhvort skildi jeg ekki, hvað hann var að fara, eða þá að hann hefir ekki reiknað rjett, og þykir mjer það sennilegra.

Ef gert er ráð fyrir, að í sveitaumdæmi sjeu um 1000 íbúar; þá fá yfirsetukonur, — verði brtt. nefndarinnar samþ. — hæst laun 500 krónur og dýrtíðaruppbót af allri upphæðinni, eftir því sem hún verður í það og það skiftið. Ekki er hægt að vita, hvað dýrtíðaruppbót þessi helst lengi, nje heldur hve há hún verður, þá er stundir líða. Hitt hefir nefndin sýnt fram á, að yfirsetukonur eru ekki ofhaldnar af launum þeim, sem þær fá, þó dýrtíðaruppbót fylgi. Enda leggur starfið haft á frelsi þeirra á þann hátt, að þær mega ekki án sjerstaks leyfis fara út úr umdæmi sínu á meðan þær ekki hafa sagt starfinu lausu.

Það er rjett, sem haldið er fram af þeim báðum, hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ), að í litlum og fámennum umdæmum sjeu fæðingar fáar. En það ber alveg að sama brunni með það, hvort yfirsetukonan hefir mikið eða lítið að gera, hún verður jafnt að vera heima í hjeraði sínu fyrir því. Aftur á móti, þegar talað er um eftirlaunin, leit nefndin svo á, þar sem um lítið starf væri að ræða, væri óþarfi að skipa með lögum, að eftirlaun skyldu greidd. Starfið væri svo lítið, að launin væru nægileg fyrir það, enda mundu viðkomandi sveitir og sýslunefndir þá hlaupa undir baggann eins og verið hefði, þegar yfirsetukonur láta af starfi og þurfa styrks við.

Jeg man ekki í svip, hvort fleira hefir komið fram í umr., sem ástæða er til að svara. Mjer hefir skilist, þrátt fyrir andmæli hv. þdm., að þeir sjeu því yfir höfuð hlyntir, að bætt verði að einhverju leyti kjör yfirsetukvenna.

Þó skal jeg taka það fram viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hafði að athuga við 1. gr. frv., eins og við leggjum til að hún verði, að mjer virðast aðfinslur hans ekki á miklum rökum bygðar, þótt segja mætti, að efni þessarar greinar hefði mátt skiftast í 2 gr., þá get jeg ekki sjeð, að því sje ver fyrir komið í einni gr. eins og nefndin leggur til. Aðfinslur hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) eru að þessu leyti á engum rökum bygðar frekar en margt annað í andmælum hans gegn frv.

Þeir, sem ekki geta sætt sig við greinina eins og hún er, verða þá að vera á móti henni, og hafa þá um leið fengið ástæðu til þess að vilja ekki sinna þessu máli.

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), og jafnvel fleiri, þóttust finna keim af því, að meiri hl. nefndarinnar ætti heima í bæjum. En þó að svo sje, þarf það ekki að verða til þess, að þeir vilji toga í skækil bæjanna, heldur mætti eins líta á, að brtt. nefndarinnar væru fram bornar til þess að leiðrjetta það misrjetti, sem líklega er áður komið inn í lögin að tilstuðlan sveitaþm. Þessu vildi nefndin kippa í lag og fanst fara vel á að gera það jafnhliða því, sem launakjörin eru bætt.

Jeg geri ráð fyrir því, að þessir hv. þm., við nánari athugun á brtt. nefndarinnar, geti fallist á þær og viðurkenni, að þær sjeu sanngjarnar og í alla staði rjettmætar.