31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

40. mál, yfirsetukvennalög

Guðmundur Ólafsson:

Jeg talaði dálítið í þessu máli við 2. umr. og ljet þá í ljós, að mjer þætti launin áætluð fullhá, eins og nefndin leggur til, enda þótt hún hafi lækkað þau frá frv. En það er ef til vill enn athugaverðari sú breyting nefndarinnar á greiðslu launanna, að sleppa kaupstöðunum við að borga kostnaðinn nema að hálfu, eins og sveitirnar hafa borgað. Jeg færði rök fyrir því, sem ekki hefir enn verið reynt að hrekja, að með því yrði launagreiðslan miklu þyngri á sýslum en kaupstöðum, vegna þess, hve þær þurfa að borga mörgum yfirsetukonum að tiltölu við fólksfjölda, enda þótt launin sjeu þar lægri. Mjer fanst nú ekki álitlegt um framgang brtt. um þetta atriði, og fyrir það varð jeg of seinn fyrir með hana. þá hugsaði jeg, að rjett væri þó að vita, hvað hv. deild vildi gera við brtt. um þetta atriði, og kem þess vegna með skriflega brtt. og vil mælast til, að hæstv. forseti beri hana undir hv. deild, hvort hún vill taka hana til greina, til þess að kippa þessum agnúa af, sem frá mínu sjónarmiði er, auk óþarflega mikillar launahækkunar, einna tilfinnanlegastur á frv. eins og það er.