31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (2169)

40. mál, yfirsetukvennalög

Eggert Pálsson:

Jeg hefi nú undanfarið setið hjá og hlustað á mál manna viðvíkjandi frv., sem hjer um ræðir, og aðeins greitt atkv. um það. Býst jeg við, að hv. þdm, hafi getað sjeð á atkvgr., hvar jeg stend í þessu máli. En nú víkur málinu þannig við, að jeg hefi ásamt tveimur hv. þdm. komið með brtt, við frv., og hana allverulega, og þá þykist jeg ekki geta setið hjá lengur.

Það, sem mig furðar mest á viðvíkjandi þessu máli, er það, hversu mjer virðist fylgismenn þessa frv. og hv. nefnd hafa litið einhliða á málið. Jeg fyrir mitt leyti vil ekki skjóta ásökuninni til hv. flm. (HSteins). Hann er eins og stendur eini læknirinn á þingi, og má því skoðast sem fulltrúi læknastjettarinnar og yfirsetukvenna, sem svo margt hafa sameiginlegt. Það er því ekki nema eðlilegt, þegar hann sem flm. og fulltrúi þessara tveggja stjetta hefir tekið málið að sjer, að hann reyni að stíga svo stórt spor, sem hann taldi sjer fært. Þessvegna er fjarri því, að jeg vilji átelja hann á nokkurn hátt fyrir það, þó að hann haldi fast við það, sem hann hefir borið fram í máli þessu.

Aftur á móti er öðru máli að gegna um hv. fjhn. (GunnÓ: Má hún þá ekki hafa sína skoðun?). Enginn neitar henni um það, en hitt er heimtað, að hún líti með sömu sanngirni á báðar hliðar. En það hefir hún ekki gert að því leyti, er til sýslusjóðanna kemur, eins og mjer mun reynast auðvelt að sanna.

Eins og frv. er orðað, kemur fram ljettir til stórra muna um gjöld bæjarsjóða frá því, sem nú er, en að sama skapi er hlaðið þungri gjaldaukabyrði á sýslusjóði. Í sambandi við þetta fjellu orð um það, hvernig hv. fjhn. væri skipuð, og að sýslurnar mundu eiga þar formælendur fá. Enda er því ekki að neita, að útkoman er næsta kynleg eftir frágangi nefndarinnar á málinu: stórmikill ljettir fyrir bæjarsjóði, en margfaldur gjaldauki fyrir sýslusjóði.

Til þess nú að sanna betur, að jeg fer ekki hjer með staðlausa stafi eða marklaust fleipur, ætla jeg að koma með glögt dæmi.

Í mínu prófastsdæmi er bæði bæjarsjóður (Vestmannaeyja) og sýslusjóður (Rangárvallasýslu). Árið 1924 var mannfjöldi Vestmannaeyja 2841, en í Rangárvallasýslu 3752. Nú býst jeg við, að ekki líði á löngu þangað til Vestmannaeyjar verða jafnfólksmargar og Rangárvallasýsla, því bærinn er í miklum uppgangi, og mundi þó mega komast þar af með 3 yfirsetukonur, en í Rangárvallasýslu væri ekki að tala um að fækka þeim frá því, sem þær eru nú. Þar er ein í hverjum hrepp nema Ásahrepp, sem er bæði víðáttumikill og skorinn sundur af vötnum, þar eru tvær yfirsetukonur, en í sýslunni allri eru þær 11.

Eftir því, sem lögin nú ákveða, næmu lægstu laun 3 yfirsetukvenna í Vestmannaeyjum samtals 1200 kr. eða nánar tiltekið 1170 kr., en með hæstu launum næmi upphæð bæjarsjóðs um 1400 krónum, eða nánar tiltekið 1395 kr. Í Rangárvallasýslu er útkoman sú, að með lögum nú þurfa 11 yfirsetukonur með 1/2 launum úr sýslusjóði 1100 krónur, en hæstu laun, greidd að ½ úr sýslusjóði, yrðu 1512,50. En eftir frv. verða greiðslur launanna á þessa leið: Af lægstu launum greiddi bæjarsjóður Vestmannaeyja 3 yfirsetukonum um 600 kr. eða nánara til tekið 585 kr., en af hæstu launum um 900 kr., eða nánar tiltekið 865 kr. Í Rangárvallasýslu yrði sýslusjóður að greiða 11 yfirsetukonum, sem væru í lægsta launaflokki, 1650 krónur, en af hæstu launum 2750 krónur.

Hjer sjá menn því, að skakkar æði miklu, þar sem gjöld sýslusjóðsins eru þrefalt hærri en bæjarsjóði Vestmannaeyja er gert að skyldu að greiða samkvæmt frv.

Af þessu yfirliti geta menn sjeð, hve afskaplega þungur baggi er bundinn sýslusjóðunum, verði frv. að lögum í því formi, sem það er nú. Vitanlega væri ekkert um þetta að segja, ef bak sýslusjóðanna væri svo breitt, að það gæti borið slíka byrði. En svo er ekki, enda hvíla nú á sýslusjóðum stórfeld útgjöld, sem Alþingi hefir velt yfir á þá síðustu árin, eins og t. d. berklavarnakostnaðurinn, sem kemur vitanlega engu ljettar niður á sýslusjóðum en bæjarsjóðum. Auk þess hagar víða svo til, að sýslusjóðir hafa þungan bagga að bera, þar sem eru langar og kostnaðarsamar vegalagningar. Og hvað Rangárvallasýslu snertir, þá hafa vegagerðir hennar orðið sýslusjóði sjerstaklega kostnaðarsamar.

Hins vegar má benda á það, eins og raunar allir vita, að fólkinu fer fækkandi í sveitunum og þyrpist til bæjanna, en eftir því verður búskapurinn erfiðari hjá þeim fáu, sem ekki vilja flýja sveitirnar. En eftir því sem bændunum verður örðugra um vik, bila smátt og smátt þær máttarstoðir, sem afkoma sýslusjóðanna byggist á.

Því hefir nú verið haldið fram, að tvær aðalástæður lægju til þess, að nauðsyn beri til að hækka laun yfirsetukvenna. Í fyrsta lagi sjeu launin svo lág, og í öðru lagi, að umdæmin standi auð árum saman, vegna þess að engin ljósmóðir fáist til að taka starfið að sjer.

Nú skal ekki neita því, að launin sjeu lág, en svo er líka um fleiri störf, að þau eru lágt launuð, t. d. eru það ekki neinar stórupphæðir, sem oddvitar og hreppstjórar fá fyrir starfa sinn, og vita þó allir, að störf þeirra eru talsvert umfangsmikil, og margur dagurinn, sem fer hjá þeim fyrir lítið.

Það er nú einu sinni venja hjer í landi, að launin sjeu lág, þar sem um lítið verksvið er að ræða. Og hvað yfirsetu konur til sveita snertir, þá getur verksvið þeirra, að minsta kosti sumstaðar, talist fremur lítið, eins og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) benti á, þar sem algengt er, að ekki fæðist í yfirsetukonuumdæmi nema 8–14 börn á ári. Þar sem ekki er um fleiri fæðingar að ræða, getur yfirsetukonustarfið aldrei orðið aðalstarf. Ljósmóðirin hlýtur þá að gegna húsmóðurstörfum á heimili sínu, eða sje hún lausakona, þá verður hún að gefa sig að einhverju öðru sómasamlegu starfi. Gæfi hún sig eingöngu að þessu litla ljósmóðurstarfi, mundi hún veslast upp eða deyja úr iðjuleysi og leiðindum.

En starfsvið ljósmæðra til sveita mætti stækka með því að gera þær jafnhliða að hjúkrunarkonum, og þá væri sjálfsagt að auka launin um leið. Það er áreiðanlegt, að það mundi margborga sig fyrir sveitirnar. Eftir því sem fólkinu fækkar þar, aukast örðugleikar heimilanna við að stunda veika menn, og þörfin því meiri að hafa lærða hjúkrunarkonu, sem ljetti undir með heimilunum í því efni, enda minkar að sama skapi ljósmóðurstarfið, eftir því sem fólkinu fækkar.

Mjer hefði fundist vel við eiga, að um leið og hækkuð væru laun ljósmæðra, þá væri gripið tækifærið og þessi tvö störf sameinuð: ljósmóður- og hjúkrunarstarfið, því að mjer getur ekki annað skilist en að hjer sje um tvö náskyld störf að ræða, sem hljóti að fara vel í höndum sömu konu, sem leggur stund á þau. Að vísu hefir hv. flm. (HSteins) ekki talað fyrir slíkri sameiningu, en hann hefir heldur ekki lagst á móti henni. Hinsvegar hafa sumir haldið því fram; að störf þessi væru ekki samrýmanleg vegna smitunarhættu, og byggja það á því, að ljósmóðir, sem sjúklingi hjúkrar, geti smitað sængurkonu, er hún stundar jafnhliða. En jeg á bágt með að skilja, að slíkar skoðanir sjeu á rökum bygðar. Því að væri það tilfellið, skilst mjer, að aldrei væri áhættulaust að sækja lækni til sængurkonu. Þeir komast þó ekki hjá því að stunda sjúklinga sína jafnhliða, og komist hann hjá því að smita sængurkonu, sem hann verður oft að fara höndum um, þá hlýtur hið sama að gilda um ljósmóður, ef hún á annað borð er þrifin og gætir sömu varúðarreglna og læknirinn. En þá eiginlegleika verður vitanlega hver ljósmóðir að hafa.

Jeg verð því að álíta, að sameining þessara tveggja starfa sje ekki aðeins hættulaus í alla staði, heldur hreint og beint sjálfsagt, að hún komist á, og eins og jeg tók fram áðan, virðist einmitt hentugt tækifæri nú, þar sem liggur fyrir dyrum að hækka ljósmæðralaunin, og ekki síður fyrir það, að hækkunin er jafnmikil og frv. fer fram á.

Hin ástæðan fyrir því að hækka launin, af því að yfirsetukonur fáist ekki í umdæmin, vegna þess hve launin eru nú lág, held jeg að hafi við lítil rök að styðjast, enda er reynsla mín sú, að þrátt fyrir þessi laun hafa í þau umdæmi, sem jeg þekki til, fengist miklu fleiri ljósmæður en þörf hefir verið á, og dæmi þekki jeg þess, að rifist hefir verið um þennan bíta, og voru það þó lægstu launin, sem um var að gera. Svona er nú ástandið, þar sem jeg þekki til, þar fá færri en vilja þetta hnossgæti. Hinu er jeg ekki að bera á móti, að verið geti, að mörg umdæmin standi auð sem stendur. En fyrir það er ekki synt með hækkun launanna. það er nú einu sinni svo með fólkið, að það tollir ekki nema þar sem það kann við sig, þess vegna hjálpa launin ekkert til í því efni. Fyrsta skilyrðið er, að menn uni sjer þar sem þeir eru komnir. Við höfum mörg dæmi þessa frá læknastjettinni. Læknar sækja burtu úr hjeruðum, af því að þeir una þar ekki hag sínum, a. m. k. stundum. Læknahjeruðin, jafnvel þau, sem ekki eru lakast launuð, standa auð árum saman, af því að enginn vill líta við þeim, þykir þau vera afskekt og leiðinlegt þar að vera.

Jeg verð nú að segja það, að jeg hefði álitið rjettara að bíða enn um nokkur ár með að hækka launin og taka þá þetta mál til alvarlegrar athugunar á meðan og reyna um leið að koma því svo fyrir, að báðir málsaðilar mættu sem best við una. Og jeg er ekki í neinum vafa um, að heppilegasta lausnin væri sú, að hækkun launanna miðaðist við það, að þessi tvö störf, ljósmóður- og hjúkrunarstarfið, væru sameinuð. Yrði af slíku, er jeg þess fullviss, að sýslusjóðirnir teldu ekki eftir sjer að greiða þessi laun, sem þá mundu ekki verða talin há, en eins og sakir standa, virðast ekki vera á neinum rökum bygð. Jeg er heldur ekki í neinum vafa um það, að áður en langt um líður hlýtur að því að reka, að hjúkrunarkona verði að vera í hverjum hreppi, og mundi þá varla fært að ákveða þeim lægri laun en ljósmæðrunum eru ætluð í frv. En af því mundi leiða, ef borgað yrði fyrir bæði þessi störf í tvennu lagi, að þyngdist fyrir fæti hjá sýslusjóðunum.

Af þessum ástæðum, sem jeg hefi nú talið, verð jeg að líta svo á, að enginn skaði væri skeður, þó að hrapað yrði ekki að þessari hækkun á launum yfirsetukvenna nú að þessu sinni. Eins og kunnugt er, hefir endurskoðun á launalöggjöf landsins verið skotið á frest til 1928, með því að framlengja til þess tíma lögin um dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins. Virðist því alt mæla með því, að sama væri látið gilda um yfirsetukonur og aðra starfsmenn ríkisins. Enda er hætt við, eins og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) benti á, að ef ein stjett er tekin út úr og laun hennar hækkuð upp úr öllu valdi, þá mun það auka óánægju hjá öðrum, er ekki áttu síður kröfu á hækkun, og gæti þá leitt að því, að á næsta ári kæmu aðrir, sem líka yrði að bænheyra, og svo koll af kolli, þangað til sá glundroði væri kominn á um launalöggjöf okkar, sem lítt væri unandi við.

En sú braut, sem við viljum með brtt. okkar á þskj. 258 beina málinu inn á, er að mínu viti langheppilegasta lausnin, því þar er fært í lag misrjetti, sem yfirsetukonur hafa orðið við að búa fram að þessu. Við leggjum sem sje til, að þær njóti dýrtíðaruppbótar á launum sínum eftir sömu reglum og gildir um aðra starfsmenn ríkins. Brtt. okkar gæti því á engan hátt skapað óánægju hjá öðrum starfsmönnum ríkisins.

Þá hefir því og verið haldið fram, að ljósmæðralaunin þyrftu að hækka vegna þess, að námið væri svo dýrt og kostnaðarsamt. En sú ástæða er hvorki fullnægjandi nje frambærileg. Því væri nú svo, að námið kostaði jafnmikið og af er látið, þá væri skakt að hverfa að því ráði að hækka launin, heldur væri miklu fremur ástæða til þess að ljetta undir námið, með því að ríkissjóður ljeti meira af mörkum en verið hefir.

Annars skal jeg taka það fram, að jeg fyrir mitt leyti skildi svo 5. lið 1. gr. frv., að það væri tilætlunin, að dýrtíðaruppbótin greiddist öll úr ríkissjóði, því þar segir svo: „Á laun þessi er greidd dýrtíðaruppbót eftir sömu reglum og gilda um starfsmenn ríkisins.“

Hinsvegar skal jeg játa, að þetta er engan veginn ljóslega orðað, því að segja mætti, að dýrtíðaruppbótin greiddist eftir sömu reglu og gildir um starfsmenn ríkisins, þó að helmingur hennar væri goldinn af bæjar eða sýslusjóðum, en hinn helmingurinn úr ríkissjóði. En því minnist jeg á þetta, að útreikningur minn, sá er jeg kom með áðan, byggist á þeim skilningi mínum, að dýrtíðaruppbótin öll sje greidd úr ríkissjóði. Ætti nú dýrtíðaruppbótin að skiftast til helminga á milli sýslusjóða og ríkissjóðs, þá liggur í augum uppi, að baggi sýslusjóðanna hlýtur að vaxa til stórra muna og verða afskaplega tilfinnanleg byrði fyrir þá.

Að endingu vil jeg þá taka þetta fram: Verði frv. þetta samþ. eins og það liggur nú fyrir, þá er áreiðanlegt, að upp mun rísa óánægja um allar sveitir landsins út af þessum bagga, sem lagður er á bak sýslnanna. Og slíkar óánægjuraddir munu verða það magnaðar og láta til sín heyra, að erfitt mun reynast að kæfa þær. Þess vegna ræð jeg hv. deild til þess að fallast á brtt. okkar á þskj. 258, því eins og málið horfir við, er þar með fengin besta og heppilegasta lausnin.