31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

40. mál, yfirsetukvennalög

Jónas Jónsson:

Jeg ætla ekki að segja mikið, enda gerist þess eigi þörf, því að það hefir verið vel á spilunum haldið frá stuðningsmannanna hálfu. En jeg vildi segja fáein orð um þá sálarlegu undirstöðu, sem sá andi byggist á, er í móti blæs þessari rjettarbót og öðrum slíkum. Það sýnir ljóslega, hve þessi eina stjett hefir verið höfð útundan, að um 30 umdæmi, víðsvegar um landið, eru nú ljósmóðurlaus. Það var gott, að hæstv. ráðherra (JÞ) mintist á launalögin frá 1919 í sambandi við laun yfirsetukvenna og annara. En það var ástæðan til þess, að launamismunurinn varð svo mikill, að þingið ljet kúga sig af öðrum stjettum, en yfirsetukonur fengu aðeins örlitla hækkun. Á bak við stóðu föst samtök, sem þingið gat ekki rönd við reist, en yfirsetukonur höfðu engin samtök, enda urðu þær útundan. Jeg vil skjóta því til hv. deildar, að nú er mikið rætt í blöðunum um byltingar, og hjer er talað um, að menn geti átt von á slíku, bæði frá „organiseruðum“, launuðum starfsmönnum atvinnuveganna og ríkisins. Það er kvartað um, að ástandið sje slæmt og launin of lág. Það virðist næstum, að stefna hæstv. ráðherra (JÞ) sje sú að láta yfirsetukonur gjalda þess, að þær eru eina stjettin, sem ekki hefir sett sig í varnarstöðu gegn þjóðfjelaginu. En væntanlega er hæstv. ráðh. (JÞ) ekki nógu lítill stjórnmálamaður til þess, að hann láti það sannast, að hann gefi aldrei eftir nema fyrir hótun. Það hefir verið tekið fram af hv. frsm., að kaupgjald við algenga vinnu, svo sem fiskvinnu og þessháttar, er svo hátt, að það er af þeim ástæðum ómögulegt að fá kvenfólk í sveit yfirleitt eða til að gerast yfirsetukonur. Þá hefir og verið hert á kröfunum, sem gerðar eru til ljósmæðra, og námstíminn lengdur, og það hefir sína þýðingu, vegna þess hve dýrt er að lifa hjer við nám, þó að þær njóti nokkurs styrks. Jeg skal taka það fram, að mjer fanst háttv. 1. þm. Rang. (EP) ekki hafa nægan skilning á því, að þegar gerðar eru miklar kröfur til yfirsetukvenna, þá mega laun þeirra eigi vera lægri en þau laun, sem hægt er að fá konur til við hlaupavinnu alveg undirbúningslaust. Jeg ætla ekki að taka ómakið af háttv. flm. (HSteins) að svara því, hvort tiltækilegt sje að láta yfirsetukonur vera um leið hjúkrunarkonur, en jeg skal geta þess, að þetta hafði komið til tals í nefndinni, og hún leitaði álits landlæknis á því, og áleit hann, að það væri ógerningur að sameina slík störf. Taldi hann aðalástæðuna smitunarhættu, sem um gæti verið að ræða, ef ljósmóðir þyrfti t. d. fljótlega að yfirgefa sjúkling með næmum sjúkdóm, til þess að gegna ljósmóðurstörfum. Hinsvegar er nauðsynlegt í strjálbýlum hjeruðum að sameina störfin eftir því, sem við verður komið, og mætti víða færa umdæmin saman. Jeg vil benda hv. 1. þm. Rang. (EP) á það, að það væri rjettari lausn á málinu. Við það væri það unnið, að meiri von væri um að fá dugandi yfirsetukonur, enda væri þá í sjálfsvald sett að hafa þær eigi fleiri en minst er hægt að komast af með.