31.03.1926
Efri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

40. mál, yfirsetukvennalög

Eggert Pálsson:

Hæstv. fjrh., (JÞ) tók það fram, að það kæmi ekki nógu skýrt fram í brtt. okkar á þskj. 258, hvort borga ætti dýrtíðaruppbótina úr ríkissjóði aðeins á ríkissjóðshlutann eða á öll launin. Það kann að vera, að þetta geti orðið misskilið, en fyrir mjer, og jeg hygg hinum flm. líka, vakti, að greidd yrði úr ríkissjóði dýrtíðaruppbót á öll launin. Það hefði verið skýrara að segja í brtt. sem svo: „dýrtíðaruppbót á öll laun sín úr ríkissjóði“.

Hv. 3. landsk. (JJ) gat þess, að hann hefði verið á svipaðri skoðun og jeg um það; að sameina mætti yfirsetukonustarfið hjúkrunarstarfi í fámennum sveitum, en hann hefði fallið frá því vegna smitunarhættu, sem stafað gæti af því. En jeg get ekki sannfærst um þá hættu. Hún ætti þá líka að fylgja læknunum, og eins og læknar geta afstýrt henni ættu yfirsetukonur að geta það. Ef yfirsetukonur eru ekki gæddar þeim þrifnaði, þá eru þær ekki færar um starfið, því að fyrsta skilyrði, sem gera verður til þeirra, er, að þær sjeu hreinlátar. Þá benti hv. þm. á annan veg til þess að ljetta undir með sýslusjóðum, sem sje að sameina umdæmin og stækka þau. En þó það teldist nú kleift vegna vegalengdarinnar, þá gæti samt orðið hængur á því. Það gæti dregist lengi, því að ekki er hægt að kippa yfirsetukonu burtu, þar sem hún er komin, og ekki er víst, að yfirsetukonur vildu ganga að því að flytja á stað, sem haganlegt þætti fyrir hin sameinuðu umdæmi, ef þær eru búnar að koma sjer varanlega fyrir annarsstaðar. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar.