10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2188)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Þetta mál er komið upp í Ed. og flutt af forseta þeirrar hv. deildar. Síðan fjekk það þá afgreiðslu hjá fjhn. Nd., að hún klofnaði á málinu. Meiri hl. nefndarinnar eða 4 þm. vilja leggja með, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed. Mál þetta er ekki svo flókið, að það sje veruleg ástæða til að fara frekar út í það, enda tilheyrir það ekki 2. umr. Með lögum 1919 voru kjör ljósmæðra bætt frá því, sem var í lögunum frá 1912. 1919 var eins og menn muna gert allmikið að því að bæta kjör opinberra starfsmanna, og eru m. a. launalögin frá þeim tíma. Kjör yfirsetukvenna voru bætt þannig, að þeim voru ákveðnar 200 krónur á ári, sem mátti hækka upp í 275 krónur. Auk þessa áttu þær að fá 10 króna uppbót fyrir hverja 50 íbúa í umdæmi þeirra. En þessir starfsmenn voru einir settir hjá dýrtíðaruppbót, og var það mjög einkennilegt, þar sem þeir voru lægst launaðir af öllum opinberum starfsmönnum. Það var því augljóst, að þetta mundi vekja óánægju, og hún hefir magnast, og sterkar raddir hafa borist um það til forsvarsmanna þeirra hjer, að koma fram umbótum á kjörum þeirra, enda eru nú allmörg yfirsetukvennaumdæmin laus. Það hefir verið dregið úr því, sem upphaflega stóð í frv. þar var farið fram á 400 króna byrjunarlaun, sem mætti hækka upp í 720 krónur, en nú er þetta orðið 300 krónur, hækkandi upp í 500 krónur. Einnig var farið fram á eftirlaun, en nú er búið að sníða þau af. Jeg vil minna á, að upphæðin, sem hjer er um að ræða, mun nema um 40 þúsund krónum í aukakostnað fyrir ríkissjóð. Jeg var ekki við, þegar hæstv. fjrh. (JÞ) átti tal við nefndina, en svo mikið er víst, að við liggur, að hið mikla og merkilega starf þessara starfsmanna verði gert ónýtt, ef frv. verður ekki samþykt. Það mun vera farið að þykna töluvert í þeim, og þeir geta ekki unað við núverandi kjör sín til lengdar, enda er auðvelt fyrir þá að hætta starfinu, því að það er engin ljósmóðir til hjer á landi, sem ekki gæti haft þessar krónur upp með einhverju öðru móti. Það má segja um þá menn, sem hafa af starfi sínu alt sitt lífsuppeldi, að ekki er að marka, þó að þeir hóti að leggja niður starfið. Jeg er ekki að segja, að Alþingi eigi að fara eftir slíkum hótunum, en þegar um kjör er að ræða, sem allir sjá, að eru ósanngjörn, hlýtur að koma að því, að þau verði að bæta. Það er heimtaður eins árs skóli undir þetta starf, en svo eru kjörin eins og vinnukonukaup. Það má vera, að hv. þm. þyki það aukaatriði, þó að af þeim 2–3 þúsundum kvenna, sem á hverju ári leggja líf sitt í hendur yfirsetukonum, dæju 3–4 á ári, fyrir þann smásálarskap Alþingis, að vilja ekki sinna þessum sanngjörnu kröfum. Á því er enginn vafi, að fjöldi yfirsetukvenna hættir, ef þessi rjettarbót hefst ekki fram. Eftir skýrslu landlæknis eru nú um 40 umdæmi laus, og engin fæst í þau. 40 þúsund krónur þykir ekki mikið, þegar um bankamál er að ræða, og í raun og veru er það lítið atriði, þegar verulegt öryggi fæst á hinn bóginn. Jeg vil því fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar mæla með því, að frv. verði samþykt eins og það er nú. Það er „principbrot“ að setja þessa starfsmenn hjá dýrtíðaruppbót. Ef bæta á kjör starfsmanna, virðist vera mest ástæða til að byrja þar, sem launin eru lægst.