10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

40. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Halldór Stefánsson):

Jeg vil fyrst lýsa yfir því, að minni hl. nefndarinnar hefir fallist á þá skoðun hæstv. fjrh. (JÞ) að greiða bæri dýrtíðaruppbótina frá 1. okt. 1925. — Þá langar mig til að segja örfá orð við hv. frsm. meiri hl. (MJ). Hann virtist mjög óánægður með það, að minni hl. vill nú miðlun í málinu. Hann verður að eiga við sjálfan sig um það, hvort hann vill aðeins alt eða ekkert. Það má vera, að satt sje, að formlegra hefði verið að bera fram brtt. við lögin sjálf, en það gat hæglega orðið til þess, að það kæmist ekki fram eins og við vildum hafa það. Þeim ummælum, að dagskráin byggist ekki á lagaheimildum, vil jeg vísa algerlega frá, og get jeg um það vitnað bæði í hæstv. stjórn og aðra. Flest af því, sem hv. meiri hl. hafði fram að færa, voru vandræðamálsbætur, en þó mjög í hóf stilt. Hann vildi meðal annars gera fordæmið að engu, en það hefir of oft verið tekið tillit til þess hjer á Alþingi, til þess að hann geti alt í einu gert það einskis vert. Skal jeg svo ekki fjölyrða meir um þetta.