26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (2222)

83. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Árni Jónsson):

Það er viðvíkjandi brtt. á þskj. 404, sem jeg þarf að segja nokkur orð. Við 2. umr. benti hv. þm. Eyf. (BSt) á, að heppilegra væri að ákveða tímann eins og gert er í þessari till., og felst landbn. á það. Þá hefir nefndin eftir bendingu frá sama þm. orðað um 2. og 3. málsgrein 3. gr. Er þar ekki um efnisbreytingu að ræða, heldur orðalag greinarinnar gert skýrara. þá er rjettast að jeg svari um leið nokkrum athugasemdum frá hv. þm. Str. (TrÞ), sem fram komu í fyrradag, þegar um það var rætt, hvort taka skyldi málið af dagskrá eða ekki. Hann gat þess, að hann stæði ekki upp til að senda nefndinni hnútur, en ljet þó fjúka hverja hnútuna af annari. Hann vildi fá að vita, hvort nefndin hefði athugað kostnað við böðunina meir en segir í greinargerðinni. Jeg hefi átt tal um þetta við dýralæknirinn, og um kostnaðinn er það að segja, að ómögulegt er að áætla hann nákvæmlega á þessu stigi málsins. Það er gert ráð fyrir, að einn maður verði í hverjum hreppi til yfirumsjónar, og ef til vill fleiri í stærri hreppum. Mætti kannske áætla kostnaðinn 30–50 þúsund krónur.

Þá vildi hv. þm. (TrÞ) fá að vita, hvort nefndin teldi ekki þörf á að tala um þetta mál við fleiri dýralækna en dýralæknirinn í Reykjavík. Jeg bar þetta undir nefndina, en verð að hrella háttv. þm. með því, að hún sá ekki ástæðu til að taka þetta til greina. Nefndin álítur, að dýralæknirinn hjer sje þessu máli kunnugastur. Hann hefir haft það með höndum um 30 ára skeið, og sú skoðun, sem hann hjelt fram strax í byrjun, hefir reynst rjett. Honum lenti þá saman við ýmsa merka menn, svo sem Pál Briem. Nú sjest, að hann hefir haft rjett fyrir sjer í þeirri deilu, því kláðanum hefir ekki verið útrýmt með þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar. Hann hefir frá upphafi sýnt áhuga í þessu máli og fylgst vel með því, sem gerst hefir, svo það virðist rjett; að hann hafi veg og vanda af þessari fyrirhuguðu böðun. Framkvæmdir þessa máls verða þá á hans ábyrgð, og teljum við það rjettara en að dreifa ábyrgðinni á margar hendur.

Að málið sje illa undirbúið, eins og hv. þm. (TrÞ) hjelt fram, því mótmæli jeg. Það er rjett, að jeg var ekki viðstaddur 1. umr., en við 2. umr. voru málinu gerð nægileg skil. Hinsvegar var þetta frv. svo vel undirbúið og því fylgir svo glögg greinargerð, að engin þörf var á ítarlegri framsöguræðu. Háttv. þm. talaði um, að frv. hefði legið hjer í mánuð, án þess að nokkur brtt. kæmi fram. Jeg get mint háttv. þm. á annað frv., sem lítið var eftir af nema fyrirsögnin, þegar það kom til 2. umr. Hann gat þess sjálfur um frv. um áburð, að lítið hefði verið eftir af því nema eitt orð. Gæti það ekki verið bending um, hvernig frv. eigi ekki að vera.