26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (2224)

83. mál, útrýming fjárkláða

Tryggvi Þórhallsson:

Fyrst vil jeg segja fáein orð til háttv. frsm. landbn. (ÁJ), því hann var að senda mjer kveðju sína áðan. Hann kvartaði undan því, að jeg hefði sent hnútur í garð nefndarinnar, og má það vel vera, að þetta megi kallast svo. Jeg fann að því, að málið væri ekki nægilega undirbúið, og frá nefndarinnar hálfu kom ekkert hljóð fremur en hún væri ekki til, hvorki við 1. eða 2. umr. málsins, og það þó jafnstórt mál og þetta ætti í hlut. Nú hefir háttv. frsm. (ÁJ) upplýst, að hann hafi ekki verið við, þegar þetta mál var rætt í nefndinni, og hefir hann nú gert grein fyrir sinni afstöðu til þessa máls. En jeg sný alls ekki aftur með það, að málið er illa undirbúið frá nefndarinnar hálfu, og því hefir orðið að bera fram við það ýmsar brtt. við meðferð þess í deildinni. Háttv. frsm. (ÁJ) sagði, að jeg hefði flutt illa samið og óundirbúið frv. inn í þessa háttv. deild, og átti hann þar við frv. mitt um tilbúinn áburð. Hefði það verið gott sýnishorn þess, hvernig frv. ættu ekki að vera úr garði gerð o. s. frv. Háttv. frsm. veit þó vel, að engar verulegar efnisbreytingar hafa verið gerðar á þessu frv. mínu, og ef hann vill halda því fram, að frv. hafi þannig verið, að svo ættu frv. ekki að vera, — en frv. vill veita og varðveita bændum ýms og ákveðin hlunnindi, — þá kemur þetta úr allra hörðustu átt, er það er frsm. landbn., sem svona talar.

Háttv. frsm. (ÁJ) fór ýmsum orðum um, að stórfje hefði verið varið til útrýmingarböðunarinnar um aldamótin síðustu. Mjer virðist hann aftur hafa vegið í þann sama knjerunn, er hann vill kasta rýrð á þá menn, er að Myklestads-böðuninni stóðu og sjerstaklega á Myklestad sjálfan. En þetta tel jeg mjög ómaklegt. Jeg álít, að Myklestad hafi gert alt, sem þá var hægt að gera, og aðeins það, sem rjett var að gera. Hann ávann og það, sem mest er um vert, að kenna bændum að baða fje sitt og halda þannig fjárkláðanum í skefjum, enda var kláðinn stórkostlega brotinn á bak aftur.

Jeg vil annars taka það fram, að eins og þessu máli nú er komið, og vegna þeirra upplýsinga, sem jeg hefi aflað mjer í málinu, þá treysti jeg mjer alls ekki að verða á móti þessu frv. í heild, þó að jeg hafi ýmislegt að athuga við einstök atriði þess. Jeg hefi talað við ýmsa menn, sem fróðir eru um þessi mál, enda þótt ekki væru þeir dýralæknar, og eftir það, sem jeg þannig hefi fengið upplýst, treysti jeg mjer ekki til að fella þetta frv. Viðvíkjandi brtt. hv. þm. A-Sk. (ÞorlJ), þm. Borgf. (PO) og þm. V-Sk. (JK), vil jeg taka það fram, að jeg vil láta rannsaka þetta mál betur en þegar hefir verið gert. Fjárkláðinn er svo mikill vágestur, og auk þess er skömm mikil að dragast lengi með hann, ef hægt er að losna við hann með öllu, þessvegna treystist jeg ekki til að greiða atkv. á móti frv., enda þótt jeg trúi ekki á það, að samkvæmt ákvæðum þess verði hægt að komast að því marki, að síðasti kláðamaurinn í landinu verði drepinn.

Þá vík jeg að brtt. á þskj. 421, sem er svo hljóðandi, að eigi skuli útrýmingarböðun fara fram fyr en fengnar eru upplýsingar um útbreiðslu kláðans og að hættulaust sje vegna heyforða bænda að láta böðunina fara fram.

Útrýmingarböðunin verður allþungur skattur á bændum, bæði beinlínis og óbeint. Böðunin leggur allþungar kvaðir á bændur að ýmsu leyti. Ef böðunin á að fara fram um áramótin, þ. e. um fengitímann, þá verður afleiðingin ábyggilega, að búast má við meiri lambadauða en ella næsta vor. Fjeð rýrnar við þetta, og önnur afleiðingin verður því sú, að bændur eiga færri kjöt-kg. á næsta hausti að versla með, og í þriðja lagi mundi það leiða af almennri útrýmingarböðun, að bændur yrðu að kosta miklu til aukalega í fjárgæslu og eyða miklum heyjum til innigjafa vegna baðananna. Jeg hefi reynt að gera mjer ljóst, um hversu mikla heyeyðslu þarna væri að ræða, fram yfir það, sem venjulegt er á þessum tíma árs, og hefir skólastjórinn á bændaskólanum á Hvanneyri o. fl. verið mjer hjálplegir í því að gera þessar áætlanir, sem jeg nú ætla að lesa upp til að rökstyðja með mál mitt.

Jeg geri ráð fyrir, að alt sauðfje á landinu sje um 600 þús. fjár og að innistöður vegna baðana verði um 30 dagar og 2 kg. af töðu sjeu gefin hverri kind; verður þetta ca. 18 milj. kg. af töðu, en þó er þetta ekki alt aukaeyðsla á fóðri, þessvegna hefir skólastjórinn dregið frá helminginn af heygjöfinni, sem mundi hafa orðið að eyða í fjeð hvort eð var, og verða þá eftir 9 milj. kg. af töðu eða um 90 þús. hestar. Nú mun meðaltöðufall á öllu landinu vera um 600 þús. hestar og verður þetta þá því hjer um bil 1/6 af allri töðu landsmanna. Jeg er ekki að taka þetta fram, til að draga úr mönnum kjark, eða segja, að þetta megi alls ekki gera, heldur hitt, að það má alls ekki leggja út í þetta, nema þegar bændur standa mjög vel að vígi hvað heybirgðir snertir, og við þetta er miðuð brtt. á þskj. 421. Verði nú brtt. samþ., get jeg betur felt mig við frv. en ella. Um aðrar brtt. ætla jeg ekki að ræða, nema það að heimila að undanþiggja tiltekin hjeruð eða landshluta ákvæðum þessara laga tel jeg ekki rjett. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, er þetta ekki trygt, og ef það á að ráðast í þetta á annað borð, er rjettast að gera það um alt land og alstaðar í einu.