07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1927

Halldór Stefánsson:

Jeg hafði nú ekki hugsað mjer að ganga á móti þeim straum, sem kemur fram hjá hv. fjvn., að samþykkja fjárlögin óbreytt frá hv. Ed. En jeg kemst ekki hjá því að minnast á tvö atriði í meðferð hv. Ed. á fjárlögunum. Hið fyrra er bátastyrkurinn. Í nál. samgmn. á þskj. 240 er gerð áætlun um bátastyrk, 89900 kr. og af því eru Lagarfljótsbátnum ætlaðar 800 kr. Við 3. umr. bar nefndin fram 1100 kr. hækkun á þessum styrk, og frsm. nefndarinnar komst þannig að orði: „Samgmn. hefir lagt til, að flóabátastyrkurinn verði hækkaður um 1100 kr., og af því gangi 400 kr. til Lagarfljótsbátsins.“ Till. nefndarinnar voru svo samþyktar með þessari skýringu, og Lagarfljótsbátnum þannig áætlaðar 1200 kr. En nefndin í hv. Ed. hefir tekið 800 kr. óbreyttar eftir þskj. 240, en gætir ekki þeirrar breytingar, sem gerð var við 3. umr. í Nd. Jeg hefi spurt nefndina um, hvort það hafi verið meiningin að lækka styrkinn, en hún hvað það ekki vera, heldur hefði þetta verið tekið eftir þingskjalinu. Þetta verður því að skoðast sem vangá, og vildi jeg hjer með benda á það, til athugunar fyrir hæstv. stjórn.

Hitt atriðið er viðvíkjandi Loðmundarfjarðarsímanum. Samþykt var í hv. Ed. að lækka 13. gr. D. II. um þá upphæð, sem ætluð var í Nd. til Loðmundarfjarðarsímans, 15 þús. kr. Þetta var gert eftir till. fjvn., og segir hún í ástæðum sínum, að þessi símalagning hafi ekki verið ákveðin eftir till. símamálastjóra, heldur hafi hún „komist, inn“ í Nd. Það er talað um þetta eins og það hafi verið vangá eða slysni og jafnvel óheimilt af Nd. að ákveða þetta. En það segir sig sjálft, hversu hæpin slík ályktun er. Til hvers er þá þingið, ef það á fyrirfram að vera bundið við tillögur símamálastjóra? Auk þess er þetta rangt. Símamálastjóri sagði okkur þm. N.-M., að ef stjórnin hefði fengist til að tiltaka hærri upphæð í fjárl. til símalagninga, þá hefði Loðmundarfjarðarsíminn staðið næstur. Í niðurlagi nál. slær nefndin svo úr og segir eitthvað á þá leið, að hægt muni vera að leggja þennan síma eftir sem áður, vegna lækkunar á símalagningarkostnaði. Nefndin byggir nú væntanlega þessa ályktun sína á áliti landssímastjóra; annars væri þetta fleipur út í bláinn eða óheilindi. Jeg ætla því að vona, að svo reynist, að þessi lækkun verði fyrir hendi, svo að hægt verði að leggja Loðmundarfjarðarsímann á næsta ári.