26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (2232)

83. mál, útrýming fjárkláða

Sveinn Ólafsson:

Jeg ljet í ljós skoðun mína á þessu máli við 2. umr. og ætlaði að leiða það hjá mjer að þessu sinni, en mjer hefir virst sitthvað koma fram hjá fylgismönnum útrýmingarbaðana, sem jeg tel ekki rjett að láta ómótmælt. Hinsvegar hefði jeg getað fallið frá orðinu, ef jeg hefði verið viss um, að tillaga hv. þm. V-Sk. (JK) um að vísa málinu til stjórnarinnar yrði samþykt, því að með samþykt hennar væri allur vandi af höndum þingsins í bili. En um útrýmingarböðun alment verð jeg að segja það, að hún er viðurhlutamikið fyrirtæki, ef hittist á harðan vetur

Það hefir verið vefengt, bæði af hv. frsm. (ÁJ) og hæstv. atvrh. (MG), að heyeyðsla þurfi að vera svo mikil við þrefalda böðun að vetri sem hv. þm. Str. (TrÞ) hefir áætlað. Jeg skal geta þess, að eftir minni skoðun og reynslu mundi heyeyðslan verða ennþá meiri en hv. þm. Str. (TrÞ) ætlar, ef hittist á harðan vetur. Bæði hv. frsm. (ÁJ) og atvrh. (MG) eru, að því er jeg hygg, lítt vanir fjárfóðrun eða böðun, að minsta kosti benda orð þeirra til þess. En þeir, sem þessu eru kunnugir, vita, að fje er fóðurfrekt, óhraust og kvillasamt eftir böðun, og þarf mestu nærgætni við að hafa, ef kalt er í veðri næstu daga eftir böðun, enda hefir oft beinlínis leitt skaða af þrifaböðun, ef hitst hefir á kuldatímabil. Það má ekki loka augunum fyrir því, að nokkur áhætta fylgir þessari margendurteknu böðun að vetri, einkum ef gaddhörkur ganga, auk þess sem það kostar mikið fóður í útigangshjeruðum. Og þessi hlið málsins er það, sem mjer finst ekki hafa komið hjer nógu ljóslega fram. Hinsvegar virðist reynsla síðari ára benda til þess, að ef þrifaböð eru vel rækt, þá verði kláðanum skákað meir og meir. Með einu baði á ári verður honum að vísu ekki útrýmt, en það má vissulega halda honum mjög í skefjum með því, ef til vill gera hann ósaknæman.

Það er alls eigi fullkomin trygging fyrir því, að kláðinn verði landrækur, þótt þessar þreföldu baðanir, sem hjer um ræðir, verði framkvæmdar. Kláðaegg, sem geymast í grasi, heyi og veggjarholum, verða ekki drepin með kláðaböðun fjárins og geta auðveldlega komist á sauðkindur eftir á.

Jeg hefi þá lýst yfir skoðun minni á máli þessu og fylgi mínu við till. hv. þm. V-Sk. (JK) um að vísa málinu til hæstv. stjórnar. Með því að samþykkja hana mætti svo fara, að málið komi fyrir næsta þing betur undir búið og með frekari skýrslum en nú.