26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (2233)

83. mál, útrýming fjárkláða

Jón Sigurðsson:

Eftir umr. að dæma virðist svo sem þdm. skiftist í 3 flokka. Í 1. flokknum eru þeir, sem frv. eru andvígir, þá koma þeir, sem vilja draga málið á langinn, og svo þeir, sem vilja vera alvarlega tilraun um að útrýma fjárkláðanum.

Það, sem sjerstaklega hefir verið borið fram af andmælenda hálfu, er kostnaðurinn við framkvæmdirnar, og hafa þeir fært til stóra útreikninga um það. Það má auðvitað slá slíku fram og koma með aðra reikninga á móti, en á slíkum staðhæfingum er vitanlega ekkert byggjandi.

Um kostnaðinn vil jeg þó benda á, að síðan 1922 er búið að verja talsvert á annað hundrað þúsund kr. úr ríkissjóði í þetta útrýmingarkák, eða hærri upphæð en allsherjar útrýmingarböðunin kostar. Og ef þessu verður haldið áfram, þá verður varið svo miklu fje úr ríkissjóði til þessa, að það skiftir hundruðum þúsunda.

Jeg sje því ekki, að hundrað sje í hættunni, þótt þessi tilraun verði gerð. Að vísu getur aldrei verið full vissa fyrir, að hún takist, en ef hún tekst, þá er svo mikið við það unnið, að það væri áreiðanlega ekki horfandi í þennan kostnað, þótt ríkissjóður hefði engan árlegan kostnað haft af þessum kláðafaraldri.

Jeg skal svo ekki fara meira út í þessa hlið málsins, en jeg vil benda á ummæli hv. þm. Str. (TrÞ), að þótt hann teldi sig fylgjandi útrýmingu, taldi hann þó öll tormerki á, að hún gæti farið fram, og talaði þá sjerstaklega um kostnaðinn, er bændur hefðu af útrýmingunni. En jeg vil spyrja: Hve mikinn kostnað höfðu bændur í Árnessýslu af kláðanum, er stjórnarráðið varð að skipa þar fyrir um allsherjar kláðalækningu árið 1922, eða bændurnir í 5 hreppum Eyjafjarðarsýslu og 3 hreppum Strandasýslu, þar sem þeir urðu að baða fje sitt, eigi aðeins einu sinni, heldur 2–3 sinnum á einu missiri, hvað kostaði þetta bændurna í vinnu, heyeyðslu og peningum, og svona mætti lengi telja.

Það er ekki hægt að bera á móti því, að ástandið knýr menn til að hefjast handa á einhvern hátt.

Það hafa fallið orð um, að hægt væri að halda kláðanum niðri. Það hefir nú sýnt sig, það hefir nú verið stritað við það í meira en 20 ár, og hver er árangurinn. Þó teknar hafi verið einstakar sýslur og varið stórfje úr ríkissjóði til baðana, þá er kláðinn orðinn svo útbreiddur eftir nokkur ár, að byrja verður aftur á nýjan leik.

Þetta er ályktun af reynslu undanfarinna ára.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast á kláðaskoðanir, og jeg hefði eigi furðað mig á því, þótt þeim væri haldið fram af mönnum, sem aldrei hafa skoðað fje, en hitt undrar mig, að bændur skuli gera það. Þeir ættu þó flestir að vita, að eftir að menn hafa skoðað, segjum t. d. 300 kindur, eru þeir margoft orðnir svo dofnir í gómunum, að þeim getur auðveldlega skotist yfir bólu í kind. Því er það, að oft kemur fyrir, að þótt eigi verði kláða vart við skoðun, finst hann þó skömmu seinna. Er þetta ekki ljós ábending um það, að á kláðaskoðun sje ekkert byggjandi? Jeg álít, að hún þýði ekki neinn skapaðan hlut, enda er kláði í flestum sýslum þrátt fyrir skoðun. (PO: Landbn. gerir ráð fyrir skoðun). Það var gert í frv. dýralæknis og nefndin haggaði ekki við því.