26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (2235)

83. mál, útrýming fjárkláða

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg á bágt með að skilja, hvernig menn ætla að samþ. till. hv. þm. V-Sk. (JK) um að vísa málinu til stjórnarinnar.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) var að ásaka mig um það, að jeg hefði gert of mikið úr óþægindum þeim og tjóni, sem bændur verða fyrir með útrýmingarböðun. Jeg vil ekki leggja á bændur svo mikla heygjöf, að þeim standi neinn voði af því heldur en af kláðanum. En um kostnaðinn mun áætlunin ekki of há. Elsti bóndi þessarar hv. deildar telur hana meira að segja of lága.

Ef till. mín verður samþ. að binda ekki böðunina við vist ár, heldur að hún færi þá fram, er bændur gætu risið undir henni, þá mundi jeg geta felt mig við, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar. En það hefir verið svo lítið tillit tekið til minnar till., að jeg býst helst við, að flestir sjeu á móti henni, og óttast jeg, að frv. verði drifið í gegn án þessarar umbótar. En fái jeg rök fyrir því hjá flm., að eigi sje tilgangurinn að binda böðunina við ákveðið ár, þá get jeg þó verið með frv.