07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

1. mál, fjárlög 1927

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði viðvíkjandi bátastyrknum, þá getur stjórnin ekki verið bundin af vilja samgmn. beggja deilda, þegar þeim ber ekki saman. Í Ed. er ekki áætlað neitt fyrir óvissum útgjöldum, en ef á að leggja til grundvallar álit Nd., þá hlýtur altaf að vanta 400 kr. upp á samkv. till. Ed. Það er venja að taka tillit til beggja deilda; þegar styrknum er úthlutað, þá er lagt á metaskálarnar það, sem fram hefir komið í háðum deildum. Það mun og verða gert í þessu tilfelli, og vænti jeg, að háttv. 1. þm. N.-M. verði ánægður með það.

Að því er snertir Loðmundarfjarðarsímann, þá sje jeg ekki annað en að hvorttveggja sje rjett, að hann hafi komist inn hjer í neðri deild og ekki verið í tillögum landssímastjóra. En hitt efa jeg heldur ekki, að hann hefði lagt til, að þessi sími yrði lagður, ef hann hefði haft meira fje úr að spila. En honum var sagt, hve miklu fje hann mætti ráðstafa, og hann hefir ráðstafað því þar, sem hann áleit þörfina mesta. En fari svo, að símalagningarkostnaður lækki, þá geri jeg ráð fyrir, að það verði athugað, hvort ekki sje hægt að leggja þessa línu, svo framarlega sem kostnaðurinn fer ekki fram úr því, sem afgangs verður af fje því, sem veitt er til símalagninga.