11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

83. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Honum þótti það undarlegt, háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ), að landbn. skyldi verða sammála um þetta mál. Það get jeg ekki sjeð, að sje neitt undarlegt. Eins og hv. þm. (GuðmÓ) tók fram, bíða framkvæmdir þessa máls, ef frv. verður samþykt, til ársloka 1928 eða ársbyrjunar 1929. Það er því nægur tími til að ráða fram úr þessu máli. Telji næsta þing þess þörf, mun það gera einhverjar ráðstafanir til þess, að framkvæmdir verði hafnar á sínum tíma, og þá ætti að vera hægt að hafa hliðsjón af tillögum manna úr ýmsum sveitum, sem málið hefði verið borið undir, og óneitanlega verða að fá að hafa tillögurjett um þetta mál. Mótbárur háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) hafa því við lítil rök að styðjast.

Nú hefir verið losað á ýmsum höftum, sem voru á notkun ýmsra baðlyfja, og sumir halda því fram, að það eitt ætti að nægja til þess að halda kláðanum í skefjum. Jeg legg engan dóm á þetta, en get þess aðeins, að raddir hafa heyrst í þá átt, að mistök þau, sem orðið hafa á fyrirskipunum um notkun baðlyfja, eigi drjúgan þátt í aukningu fjárkláðans.

Eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, liggur málinu ekki svo á, að ekki sje óhætt að samþykkja dagskrártillöguna, þar sem tíminn er svona nægur, getur næsta þing tekið fullnaðarákvarðanir um málið, ef það telur þess þörf.