30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

98. mál, strandferðaskip

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal ekki hafa langa framsögu fyrir máli þessu. Það er þektur gestur hjer í hv. deild, þótt eigi hafi það áður legið fyrir í frumvarpsformi. Í einhverri mynd blasir það við á hverju þingi, þegar rætt er um strandferðir og flóabáta, og togstreitan um þau mál stafar ekki síst af því, að þetta hentuga strandferðaskip vantar.

Vjer flm. þessa frv. erum nú þeirrar skoðunar, að með byggingu og rekstri þessa strandferðaskips megi þoka almennum samgöngubótum innanlands miklu lengra áleiðis til gagnkvæmra hagsmuna öllum landslýð en með nokkru öðru móti verður gert fyrirjafnlítið fje og jafn-fljótlega. Þetta hlýtur líka öllum að vera ljóst, sem málinu gefa gaum. Allur þorri landsmanna býr með ströndum fram eða í þorpum við sjó, og á sjónum er því sú sjálfgerða og sjálfkjörna braut samgangnanna. Ef tilætlunin er, að bygð skuli haldast í öllum hjeruðum landsins, þá er það blátt áfram óhjákvæmileg nauðsyn, að tengja öll hjeruð saman með tíðum skipagöngum, sem tengd verða, og útvega þeim hjeruðum, sem fjær eru ströndinni og höfnunum, svo greiðfæra sjávargötu, sem kostur er á. Samgöngur á landi, sem fullnægt geti öllum hjeruðum til líka við hentugar strandferðir, verða verk nokkurra kynslóða, og kosta meira fje en þjóðin getur haft til umráða á næstu áratugum. Og þótt ýms hjeruð landsins sjeu svo illa sett vegna hafnleysa og torveldra siglingaleiða, að þeim nýtist illa strandferðir, þá leiðir ekki af því, að hin eigi að fara á mis við samgöngurnar, heldur hitt, að bæta verður þeim hafnlausu og afskektu hjeruðum muninn með þeim samgöngutækjum, sem þau geta notið. Að nokkru leyti ætti það að gerast með flóabátum, líkt og verið hefir, ef þetta strandferðaskip yrði bygt, að nokkru leyti yrði með þessu skipi hægt að koma á strandferðum, þar sem þær nú vantar, en þar sem hvorugt gæti að liði orðið, þar yrði að leggja því meira kapp á samgöngubætur og vegi á landi.

Póstflutningur á landi, sem enn í dag er hjer á landi með úreltum tækjum, afar-seinfær og dýr, getur ekki breytst til verulegra bóta, nema þetta strandferðaskip verði fengið. Aðalpóstskipið „Esja“ ætti, þegar slíkt skip væri fengið og þegar hún losnaði að mestu við vöruflutninga, að geta farið hringferðir um landið á 10–11 dögum að sumrinu, með póst og farþega, og komið á 40–50 hafnir í ferð hverri. Slíka hringferð fór skipið nú síðast á 10 dögum og kom á 36 hafnir, og þó með farm. Á vetrum mundi hæfilegt að ætla 15–20 daga til þessara hringferða.

Þegar slíkar ferðir væru reglubundnar, virðist liggja beint við að fella niður mikið af þeim lengri landpóstaferðum og láta aukapósta frá aðalhöfnunum dreifa og safna pósti fyrir hafnarstaðina. Með því mundi vinnast það tvent, að póstflutningur yrði örari og útgjöldin minni við landpóstaferðir.

Ekki þarf getum að leiða að óskum fólksins í fjarlægum hjeruðum um slíka samgöngubót sem þetta. En vitanlegt er það, að engir finna eins sárt til einangrunar og samgönguerfiðleika eins og þeir, sem mest eru afskiftir samgöngum. Kröfurnar um auknar samgöngur eru líka almennari en flestar eða jafnvel allar umbótakröfur, þótt hvergi hafi þær jafnháværar verið eða stórfeldar eins og hjer á suðurláglendinu, þar sem beðið er um margra miljóna samgöngutæki, aðallega til að tengja tvær sýslur við örugga höfn. Það er jafnalvarleg óskin um þetta, þótt efnin skorti til framkvæmda, og óskin er að vissu leyti mælikvarði þarfarinnar.

Hjer er með skipsbyggingunni ekki stefnt að neinu ókleifu eða tvísýnu fyrirtæki. Skipið mun að öllum líkum kosta nálægt 400–450 þús. kr., og að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir nokkrum rekstrarhalla á því, þótt jeg enganveginn kannist við, að hann þurfi að vera mikill. En sá óbeini hagur hlýtur og að vega þar á móti, enda verður ekki betur sjeð en að skipið gæti tekið að sjer og annast ýmsa flutninga, sem nú eru kostaðir að meira eða minna leyti af opinberu fje, svo sem beinu vöruflutningana frá útlöndum til suðurstrandarinnar, sem nú eru styrktir með 4 þús. kr. fyrir eina einustu ferð. Ennfremur ætti skipið að taka að sjer 2000 kr. vjelbátaferðir, sem nú eru áformaðar til Rangársands og Árnessýsluhafna, því að engin frágangssök er fyrir slíkt skip að koma um hásumarið á Stokkseyri og Eyrarbakka og aðra lendingarstaði þar eystra fremur en áður var, er strandferðabáturinn „Austri“ átti þar viðkomur. Sama má segja um Hornafjörð; með slíku skipi sem þessu, er hjer um ræðir, myndi hann komast í nokkurnveginn örugt strandferðasamband, og þar með ættu þær 7000 kr., sem Hornafjarðarbátur fær, að geta fallið niður að mestu eða öllu. Slík samgöngubót væri eigi aðeins stór fengur fyrir Austur-Skaftafellssýslu, heldur jafnframt þjóðfjelagslegur ávinningur, þar sem verstöðin á Hornafirði er orðin ein af fjölsóttari verstöðvum landsins, og getur ekki samgöngulaus verið án stórskaða fyrir þjóðfjelagið. Flóabátaferðir til Breiðafjarðar ættu og að geta fallið niður, eða sá 9500 kr. styrkur, sem Suðurland fær nú fyrir fáar ferðir þangað, því að skipið verður að sjálfsögðu bygt sjerstaklega til þess að geta komið á hinar torsóttari hafnir, þar sem grynningar eru eða þröngar siglingaleiðir og önnur siglingavandkvæði fyrir stór skip. Sama má segja um ýmsa aðra staði, þar sem flóabátar annast nú samgöngurnar. T. d. ætti þá ekki lengur að vera þörf á styrk til Grímseyjarbáts og Eyjafjarðarbáts, o. s. frv. Yfir höfuð hygg jeg, að ýmsir slíkir bátar geti horfið eða styrkur til þeirra takmarkast vegna þessara auknu strandferða, og hygg jeg, að fullur helmingur af þeim 100,000 kr. styrk, sem nú er áætlaður, mundi að skaðlausu geta horfið, er skipið kæmist í strandferðir. Öðru máli er að gegna um þá báta, sem ganga innfjarða eða á vötnum, eins og t. d. Djúpbátinn eða Lagarfljótsbátinn. Á slíkum stöðum geta vjelbátar komið að fullu liði.

Nú má benda á, og á það legg jeg sjerstaka áherslu, að hjer hljóta að verða mjög hæpnar og óábyggilegar strandferðir meðan ekki er bætt nýju skipi við. Komi eitthvert óhapp fyrir með „Esju“ — sem ætíð getur að borið — þá eru allar strandferðir settar í vetrarnaust í einum rykk, og kyrstaða komin um lengri tíma. Þegar skipin eru tvö, þarf tæpast að gera ráð fyrir slíkri stöðvun póstferða og flutnings, þótt öðru berist á. En auðvitað hljóta ferðirnar þá að strjálast í bili. Verulegt öryggi um strandferðir fæst því ekki án þess að bæta þessu skipi við. Alt þetta, sem nú hefir sagt verið, er í raun og veru viðurkent og sannað mál. Enginn neitar því, að æskilegt væri að fá þetta skip.

Nielsen framkvæmdastjóri hefir svo sem kunnugt er lagt og leggur áherslu á þetta, eins og líka milliþinganefnd frá síðasta þingi gerði. Einnig hefir samgmn. þessarar deildar látið í ljós, að hún teldi eigi vel fyrir strandferðunum sjeð fyr en hentugt skip fengist til þeirra í viðbót við „Esju“.

Það, sem um er spurt og ágreiningur kann að vera um, er sá hentugi tími til að byggja skipið. Vjer flm. teljum hann einmitt vera fram undan og styðjum það með því, að fyrningar ríkissjóðs frá fyrra ári eru svo miklar, að vart mundi þurfa á lánsfje að halda til skipkaupanna. En vjer höfum þó talið rjett að setja í frv. lánsheimild fyrir stjórnina, ef þurfa kynni á henni að halda. Vjer höfum þá líka hugsað okkur byggingu skipsins nokkru síðar en áður hefir verið ráðgert, einkum af því, að kostnaður virðist fara lækkandi.

Kæliskip það, sem áformað er að byggja, verður væntanlega til hlítar reynt haustið 1927. Til þess tíma verður viðbúnaður allur að gerast. En eitt af því, sem ætti að tryggja góðan árangur af útflutningi kælda kjötsins, er greiðleg söfnun vörunnar fyrir kæliskipið. Þess vegna leggjum vjer flm. til, að strandferðaskipið, sem við eftir till. Nielsens framkvæmdastjóra ætlumst til að hafi talsvert kælirúm, verði tilbúið í strandferðir fyrir sláturtíð 1927. Annars vegar er líka þörf fyrir margháttaðan annan kæliflutning með ströndum fram, sem oft hefir skort bagalega undanfarið. Hefir það einkum átt heima um beitusíld, sem tíðum þarf að senda langar leiðir og oft skemmist við slíkan flutning vegna vöntunar kælirúms.

Það hefir oftlega verið um það kvartað, að útlend skip, sem sigla hjer í strandferðum, taki farþegaflutning frá innlendum skipum og rýri þannig tekjur þeirra mjög. Við þessari örðugu samkeppni er það ráð eitt, að bæta við strandferðaskipi og hraða meir ferðum „Esju“. Þegar vjer sjálfir getum boðið innlendum mönnum sæmilega tíðar og hraðar ferðir með ströndum fram, get um vjer goldið frændum vorum, Norðmönnum, líku líkt, og bannað þeim fólksflutninga með ströndum landsins, á sama hátt og þeir banna oss og öðrum útlendum þjóðum fólksflutninga með ströndum Noregs. Skipsbyggingin er því alt í senn: nauðsynjaverk vegna samgangna og flutninga, þjóðfjelagslegt hagsmunamál vegna kæliflutninga og póstferða og metnaðar og menningarmál vegna sjálfsbjargar og sjálfstæðis þjóðarinnar, sem við getum ekki látið vera að sinna. Jeg geri hiklaust ráð fyrir þeim heilbrigða metnaði hjá þingbræðrum mínum, að allir vilji þeir, að við getum hjálpað okkur sjálfir, svo vjer þurfum ekki að vera upp á útlendinga komnir um fólksflutninga með fram ströndum landsins.

Það mun því miður ekki vera oss fært sem stendur, að útiloka samkepni Dana í strandferðum hjer við land, en væntanlega dreymir þó einhverja um það, að oss muni vaxa svo fiskur um hrygg, að vjer getum annað þessum fólksflutningumsjálfir. Sennilega verður líka sú breyting gerð á sambandslögunum, að ákvæðin um jafnan atvinnurjett í báðum löndum hverfa áður langt um líður. Rjettast mundi því að búa sig undir breytinguna dálítið fyrirfram, venja oss smámsaman af móðurbrjóstunum dönsku um samgöngur og fleira.

Í umr. um strandferðir er oft bent á ferðir millilandaskipanna eins og ígildi strandferðaskips. En mjer virðist þá venjulega gleymast það, sem er aðalatriðið, að þau skip sigla fyrst og fremst þar, sem nægilegur flutningur býðst og aðallega hans vegna, og því koma þau yfirleitt á þær smáhafnir, enda eru þau líka eftir stærð sinni og ákvörðun of dýr og óhentug til skottuferða og snúninga. Hinsvegar er bersýnilegt, að þeirra verkahringur er eigi fyltur meðan 4 eða fleiri útlend milliferðaskip ganga stöðugt hingað og hjeðan í flutningaferðum, Og auk þessara skipa verður Eimskipafjelagið að leigja 1 eða 2 aukaskip til millilandaflutninganna í ár. Það er því hrein og bein eyðsla að láta Fossana snúast í strandferðum, að því leyti, sem það er gert.

Jeg vil ætla, að þessu máli verði hjer vel tekið og að enginn vilji láta smávægilega sýtingssemi verða því að fótakefli. Það hefir vissulega margt tvísýnna fótmál verið stigið hér í seinni tíð en þótt ráðist verði í kaup á slíku farartæki og litlu strandferðaskipi bætt við til ferða meðfram okkar 1600 sjómílna löngu strönd, þar sem aðeins eitt skip er í ferðum fyrir.

Ég mun svo ekki þreyta hv. þdm. meir en komið er. Jeg veit, að jeg hefi reynt mjög á þolinmæði þeirra. En jeg hefi líka reynt að takmarka mig við aðalþráð málsins og forðast aukaatriði. Loks vil jeg benda á það, að þótt það væri ætlun margra í upphafi þessa þings, að efni mundu tæplega á því vera að ráðast í skipakaupin bráðlega, þá er um þetta talsverð breyting orðin.

Hv. fjhn. þessarar deildar, sem sennilega er kunnugri fjárhag ríkissjóðs en þdm. alment, þar sem það er hennar sérstaka ætlunarverk að rannsaka hann og gera till. um fjárhagsáætlanir allar, hefir nú þessa síðustu daga komist að þeirri niðurstöðu, að vel mundi mega fella niður af verðtolli þeim, sem stjórnin vildi lögfesta fyrir komandi ár, 160–170 þús. kr. Einnig hefir hún lagt til, að feldur verði niður vörutollur, sem nemur 470–500 þús. kr. þegar svo er, þá virðist mjer augljóst, að nefndin hafi gengið úr skugga um það, að ekki sjeu nein sjerstök fjárhagsvandræði að óttast. Nefndin hefir með öðrum orðum lagt til, að felt verði niður af tekjustofnum ríkissjóðs miklu meira en nemur verði þessa margeftiræskta og langþráða strandferðaskips, og með því sýnt, að fjeleysi þarf ekki að aftra skipskaupunum. Mjer virðist því, að jeg geti vænst þess, að þingið taki nú betur þessu máli heldur en þegar því var hreyft hjer fyrst.

Í öðru lagi er líka á það að líta, að breyting mikil hefir orðið um tímaákvörðun, þar sem í öndverðu var gert ráð fyrir, að í framkvæmdir yrði ráðist nú þegar, en nú er lagt til, að það verði meira en ári síðar, eða eftir 1½ ár. Þessvegna er líka undirbúningstíminn lengri og auðveldara að koma þessu í kring. Jeg held í raun og veru, að þingið geti tæplega, eins og á stendur, gefið þeim afskektu og afræktu landshlutum aðra betri sumargjöf í þetta sinn, en fyrirheitið um það, að þeir fái að njóta þessarar samgöngubótar. Jeg veit vel, að ekki er hægt að veita nema fyrirheit að sinni, en fyrirheitið er hægt að veita, og þá kemur fullnægingin á eftir. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar og vænti þess líka, að þótt einhverjum mótmælum verði hreyft, sem jeg tel eigi ólíklegt, að þá muni jeg ekki biðja um orðið aftur, nema sjerstök og brýn ástæða sje til. En til þess vil jeg mælast, að þegar þessari umr. er lokið, og ef hv. deild felst á að vísa þessu máli lengra, þá verði því vísað til fjhn. Jeg tel málið fyrst og fremst fjárhagsnefndar-mál, og sú hliðin á því, sem að samgöngunum veit, hefir áður verið athuguð í samgmn., svo sem greinargerð frv. sýnir og álit nefndarinnar á þskj. 60. Hún taldi þar æskilegt að fá skipið sem fyrst, en treystist aðeins ekki til að krefjast skipskaupanna þegar í stað.