12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

98. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Eins og þskj. 497 og 583 sýna, hefir samgöngumálanefnd ekki verið sammála um till. í þessu máli. Þó þykist jeg mega segja, að ekki sje langt á milli nefndarhlutanna; hvortveggi hafa komist að þeirri niðurstöðu, að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá. Aðeins er nokkur munur á því, hvernig nefndarhlutarnir vilja rökstyðja dagskrár sínar. Þar sem engar líkur eru til þess, að sjálft málið, eins og það liggur fyrir í frv. á þskj. 320, geti orðið afgreitt eins og ætlast var til, virðist sú lausn, sem dagskrá minni hl. vill gera á málinu eftir atvikum mega teljast sómasamleg. Jeg vil líka ætla, að hæstv. stjórn hafi heldur ekki á móti svo mjúklegri afgreiðslu á málinu.

Eins og hv. þdm. er kunnugt er frv. á þskj. 320 aðeins nokkur nánari ákvæði um það, sem þegar er búið að lögfesta, með lögum nr. 53 frá 1913, um kaup og rekstur tveggja strandferðaskipa. Þau lög gera ráð fyrir, að stjórnin kaupi tvö skip og hafi í förum kringum landið. Gert var ráð fyrir, að þau lög kæmu til framkvæmda 1916. Nú er aðeins komið annað þessara skipa og er að mestu gert eftir þeirri fyrirsögn í lögum frá 1913, sem laut að því, hversu betra skipið skyldi útbúið. Fyrirmælum þessara laga er því ekki enn fullnægt nema að hálfu leyti. Þar sem nú er langt liðið og engar líkur eða möguleikar til þess, að Eimskipafjelagið taki að sjer strandferðirnar og byggi nýtt strandferðaskip eins og upphaflega var ætlað, virðist tími til kominn að fullnægja þessum lögum og byggja síðara strandferðaskipið. Að þessu lýtur dagskrá minni hl. En hann gerir jafnframt ráð fyrir, ef stjórnin sæi færi á að fullnægja fyrirmælum þessara laga, að þá yrði eins og nú er ástatt tekið nokkurt tillit til þess við útbúnað skipsins, sem fyrir okkur vakir, flutningsmönnum frv. á þskj. 320, t. d. um hraða skips og kælirúm. Það væri ef til vill ástæða til þess að fara út í álit meiri hl., en það er svo nýlega komið, að jeg hefi ekki fengið ráðrúm til þess að lesa nema sem svarar helmingi þess og skal því ekki tala margt um það að svo komnu. En mjer virðist sú rökstudda dagskrá, sem meiri hl. ber fram, líkjast meira þáltill. en rökstuddri dagskrá. Jeg hefi ekki, svo jeg muni, sjeð rökstudda dagskrá í þeim búningi, sem hjer kemur fram, stafliðir með fullyrðingum og engin rök. Annars vildi jeg segja það út af orðum meiri hl., þar sem hann vill láta rannsaka áður en til framkvæmda komi, hvort ekki megi komast að samningi við Eimskipafjelagið eftir lögunum frá 1913, að þetta er tómt fálm og til tafar. Jeg veit ekki betur en að búið sje að reyna að komast að slíkum samningum árangurslaust, þeir ekki tekist, enda mun búið að greiða þau 400 þúsund sem hlutafje, sem lögin 1913 heimila, án nokkurrar skuldbindingar frá fjelagsins hálfu um að taka að sjer sjerstakar strandferðir öðruvísi en með millilandaskipunum. Jeg hygg því öldungis þýðingarlaust að benda til samninga, sem löngu eru strandaðir. Annað er það í áliti meiri hl., sem kemur mjer líka nokkuð á óvart. Það virðist vaka fyrir honum, að innan nokkurra ára muni verða teknar upp bílferðir milli Norðurlands og Suðurlands og fyrir þá skuld sje minni þörf á nýju strandferðaskipi. Mjer finst þetta óskylt mál og ekki líklegt, að þörf á strandferðaskipi minki eða hverfi, þótt slíkar bílferðir yrðu teknar upp á mjög takmörkuðu svæði. Að minsta kosti er tæplega hægt að gera ráð fyrir, að slíkar bílferðir komi að notum yfir háveturinn eða að þær að nokkru ráði verði til flutninga þungavöru. Um þá fullyrðingu hv. meiri hl., að strandferðir sjeu góðar nú sem stendur og því ekki þörf að bæta við skipi, nægir mjer að benda til þess, sem svo oft hefir verið minst á hjer áður, að þessar strandferðir eru ennþá ekki betri en svo, að ýmsir landshlutar fara alveg á mis við þær, og verða að bjargast við lítilfjörleg mótorskip, ýmist, eða vera samgöngulaus. Og þar sem hv. meiri hl. bendir á lausnina í þessu máli, sem fengist hefir með því að leigja skip til 4 mánaða á þessu ári, þá er það bert, að slíkt er ekki ráðstöfun fyrir komandi tíma eða næstu ár. Þessi ráðstöfun er gerð aðeins fyrir yfirstandandi ár, og verður væntanlega eitthvað í stað hennar að koma, þegar lengra liður. Hv. þdm. geta að von minni fallist á þá rökstuddu dagskrá minni hl., því að í henni finst mjer ekki felast neitt, sem þeim eða hæstv. stjórn gæti verið á móti skapi. Till. er ekkert annað en einföld tilvísun til laganna frá 1913 og ósk um það, ef ástæður leyfa, að þeim verði fullnægt.