12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

98. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Hv. frsm. minni hl. (SvÓ) vill nú halda því fram, að það sje mjög skamt á milli þesara tveggja dagskrártillagna, sem liggja fyrir. En það er öðru nær. Meiri hl. till fer fram á, að beðið sje eftir reynslu þeirri, sem fæst með því að auka einu skipi við um mesta annatímann, 4 mánuði ársins, og fresta þessu máli. En hin till. fer beint fram á, að ríkisstjórnin taki á sig ábyrgð á að framkvæma lögin frá 1913 um að láta byggja strandferðaskip, Já, meira að segja, þegar á þessu ári. Jeg skil nú ekki í að það sje gerlegt, að bera fram slíka dagskrá að nýafstöðnum fjárlögum, að skora á ríkisstjórnina að ráðast í fyrirtæki til útgjalda sem kosta 50 þús. kr. og máske 100 þús. eða upp í 200 þús. króna árlega útgjaldaaukningu. það má öllum vera ljóst, að ef við höfum tvö skip hjer til strandferða með öllum millilandaskipunum, þá verða tekjurnar af þessum skipum minni en svo, að nokkur von sje til, að við komumst af með líkt hlutfall í tilkostnaði og tekjum og við höfum af „Esju“.

Lögin frá 1913 eru nú fyrst og fremst áskorun til stjórnarinnar um að leita samkomulags við Eimskipafjelag Íslands. Það er rjett, að þetta samkomulag strandaði í bili, sennilega vegna þess, að jeg hefi heyrt það fullyrt, að sá ráðherra, sem fór með þessi mál, var of lengi að ákveða sig um, hvort taka bæri tilboði Eimskipafjelagsins.

Hv. frsm. minni hlutans (SvÓ) sagði, að þessar fjögur hundruð þúsund kr. væru óbundnar í hlut í Eimskipafjelaginu. þetta er ekki rjett. Ríkissjóður á ekki nema 100 þús. kr. hlut í Eimskipafjelaginu. Vegna þess að ekki fengust samningar við fjelagið, var ekki látið meira hlutafje. En nú hefir, eins og allir vita, þingið gengið inn á þá braut að semja við Eimskipafjelagið, þegar á að byggja nýtt skip í sjerstöku augnamiði, þ. e. kæliskip. Og jeg er viss um, að allir hv. deildarmenn eru þeirrar trúar, að þetta sje til hagsbóta fyrir landsmenn og fyrir ríkissjóð líka; því að Eimskipafjelagið mun geta tekið þetta skip mun ódýrara heldur en ef við rækjum það fyrir ríkisins reikning. Lætur það að líkum, þar sem fjelagið getur haft þess meiri not en ríkissjóður gæti. Og jeg er alveg viss um, að Eimskipafjelagið getur gert út skip til strandferða með jafn-góðum árangri og ríkissjóður, með talsvert minna fje. Mjer finst það ekki nema eðlilegt, að það sje að minsta kosti talað við Eimskipafjelagið og leitað hófanna hjá því um það, hvort það vill taka að sjer þessar ferðir eins og aðrar ferðir, þar sem þetta má nú heita þjóðarfyrirtæki, þá hygg jeg menn amist ekki við þessu; jafnvel ekki þeir, sem vilja þjóðnýta slíkar framkvæmdir.

Hv. frsm. (SvÓ) sagði, að það væri óskylt samgöngum á sjó, þó að maður gæti annast fólksflutning á landi á ódýrari og hagkvæmari og þægilegri hátt. Jeg held þvert á móti, að það sje skylda okkar að taka tillit til þess, þegar við ræðum um strandferðir, ef við getum með þeim framkvæmdum, sem ríkið hefir áformað að ráðast í með samgöngubætur á landi, annast fólksflutninga betur. Hv. þm. vildi ekki neita, að fólksflutningar myndu fara fram talsvert á landi, þegar bílvegur væri kominn alla leið norður í Skagafjörð. Það er áreiðanlegt, að þá fara færri með strandferðaskipum norður fyrir Strandir, ef þeir geta komist landveg til Borgarness. Hann sagði, að þetta gilti aðeins á sumrin. Það er rjett, eins og stendur. En við höfum nýlega samþ. till., sem við væntum að verði til þess, að innan ekki langs tíma verði ráðin bót á þessu, svo hægt verði að fara í bílum einnig að vetrunum. Sumir leggja svo mikið upp úr þessari till. um kaup á snjóbíl, að þeir telja þetta nokkurnveginn trygt nú þegar. Jeg hygg það eigi þó nokkra bið, en vænti þess, að innan ekki margra ára verði hægt að notfæra sjer þessa uppgötvun, að hún verði svo endurbætt.

Það er enginn vafi, að sum hjeruð leggja miklu ríkari áherslu á að fá samgöngurnar innan hjeraðs bættar en nokkurn tíma strandferðir. Má nefna Eyjafjarðarsýslu, sem heimtar talsvert framlag til reglubundinna bátsferða um Eyjafjörð. Jeg veit það líka, að Eyfirðingar, Húsvíkingar, Siglfirðingar og Fljótamenn, og má nærri segja að miklu leyti Skagfirðingar, hafa miklu meiri not af þessum gufubát, sem heldur uppi reglubundnum ferðum milli Akureyrar og þessara staða, heldur en þótt auknar yrðu strandferðir. Það er nú svo, að þau hjeruð, sem næst liggja aðalkaupstöðunum norðanlands, vestanlands og austanlands, hafa lítil bein viðskifti við Reykjavík nema fólksflutning. Vörur eru seldar til þessara kaupstaða því nær eingöngu; það eru aðeins haustvörur, sem lítillega eru seldar til Reykjavíkur utan af landi. Allar sumarvörur eru yfirleitt seldar til næstu kauptúna. Og það er einmitt til þeirra flutninga, sem mönnum er nauðsynlegt að fá góðar innanhjeraðssamgöngur.

Jeg skil ekki, að hæstv. stjórn geti tekið á móti dagskránni á þskj. 497, nema með því að leggja hana í skúffuna; því að mjer er óskiljanlegt, að stjórnin geti nú, eftir að búið er einu sinni að fella þál, um byggingu nýs strandsferðaskips, farið eftir þessari dagskrá og látið byggja nýtt skip jafnvel þegar á þessu ári. Jeg teldi það vera hreint og beint brot á þeim yfirlýsta þingvilja nú fyrir skömmu.