12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

98. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Út af því, sem hv. frsm. minni hl. samgmn. (SvÓ) sagði, að það væri ótrúlegt, að Eimskipafjelagið gæti rekið strandferðir með minni kostnaði en ríkissjóður, þá vil jeg benda honum á þessi atriði:

Eimskipafjelagið hefir nú þegar skrifstofur, sem það þarf eigi að stækka, þótt það bætti við sig skipi. Það hefir einnig framkvæmdastjóra og stjórn og nægilegt starfsfólk, bæði í skrifstofu og vörugeymsluhúsum. Af þessu sjest, að það verða sama sem engin aukin útgjöld fyrir það í landi, þótt nýju skipi yrði bætt við. En ríkissjóður verður annaðhvort að greiða Eimskipafjelaginu stórfje á ári fyrir það að hafa afgreiðslu skipsins á hendi — (SvÓ: En losnar þá jafnframt við skrifstofukostnað) — eða þá að hann verður að verja ærnu fje til eigin skrifstofuhalds og afgreiðslu.

Það er enn eftir að vita, hver flutningaþörfin er, en við fáum reynsluna á næsta hausti, þegar leiguskip það, er stjórninni hefir verið heimilað að leigja um 4 mánaða tíma, er komið hingað.

Það er undarlegt, að hv. frsm. minni hl. (SvÓ) skuli halda því fram, að eftir sje að framkvæma meiri hlutann af því, sem getur um í lögunum frá 1913. Jú, það hefir eigi verið gerður samningur við Eimskipafjelagið. Svo er mælt fyrir um, að ríkið leggi fram 400 þús. kr. til skipakaupa. Jeg held, að það hafi nú verið gert, og vel það, því að ríkissjóður mun nú hafa lagt fram í þessu augnamiði 860 þús. kr. Stjórninni er með lögum heimilað að taka 450 þús. kr. lán til strandferðaskipakaupa. Jeg hygg, að það lán hafi verið tekið og meira til. Það er þá aðeins samningurinn við Eimskipafjelagið, en í lögunum sjálfum er gert ráð fyrir því, að sá samningur muni eigi nást, Og þá er gert ráð fyrir, að ríkissjóður kaupi „tvö strandferðaskip, hafi annað þeirra að minsta kosti jafnmikið farþega og lestarrúm og strandferðaskip þau, sem hjer voru í förum árin 1910–1912.“ Jeg held nú, að „Esja“ sje eins gott skip og komi að eins miklum notum eins og bæði skipin „Austri“ og „Vestri“. Síðast liðið ár hefir hún haldið uppi eins góðum strandferðum eins og bæði þessi skip til samans, því að hún er miklu hraðskreiðari en þau voru. Auk þess hefir hún langtum betra og meira farþegarúm en þessi skip.