26.02.1926
Neðri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg mun halda mjer á hinum sama grundvelli og í fyrri ræðu minni, og forðast að vekja deilur um málið. Enda hefir síst meira tilefni gefist til þeirra en búast hefði mátt við, því að bæði hæstv. fjrh. (JÞ) og háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafa talað mjög rólega.

Út af sögn hæstv. fjrh. (JÞ) um það, hvernig gengishækkunin bar að, síðast liðið haust, finn jeg ástæðu til að taka það fram, að jeg tel hann ekki hafa sagt þar rjett frá að öllu leyti, Jeg tel, að hann hafi látið hjá líða að segja frá einu mikilvægu atriði. En jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar inn á það nú.

Þá talaði hæstv. ráðherra um tillögur mínar o. fl. Að því er snertir þær, þarf jeg engu að bæta við það, sem stendur í skýrslu minni. Þá hafði hann sterk orð um það, að ef hann hefði fylgt tillögum mínum, þá hefði það verið stórt brot á þingviljanum, og jafnframt vildi hann halda því fram, að aðeins hefði komið fram ein tillaga frá einum manni í gengisnefndinni. En þetta er ekki rjett. Tillagan kom frá tveimur mönnum, báðum fulltrúum atvinnuveganna, sem sje sú krafa, að kallað yrði saman aukaþing. Jeg skal játa, að þetta hefði kostað hæstv. ráðh. (JÞ) mikla ábyrgð og djörfung. En jeg er þeirrar skoðunar, að menn, sem gegna ábyrgðarmiklum stöðum og embættum, eigi að hafa djörfung til að gera rjett.

Þetta voru nú aðalatriðin, sem jeg vildi taka fram, út af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). En örfáum orðum verð jeg að bæta við. Hæstv. ráðh. flutti alllangt mál, — og að sumu leyti talsvert fróðlegt, — um viðskifti og viðskiftakreppu. Hann heldur því fram, að hjer sje um eðlilega viðskiftakreppu að ræða. En jeg spyr hæstv. ráðh.: Er það eðlilegt ástand, að verðgildi peninganna sje laust og ruggi fram og aftur? Ef gengishæðin stendur í sambandi við viðskiftakreppu, hversvegna kom þá ekki fram hækkun og lækkun fyrir stríð? Jeg fer ekki út í það, hvort atvinnuvegirnir tapa eða græða, en jeg segi, að það skifti bóndann litlu, hvort krónan er 70 eða 90 aura, þegar þær ganga allar til þess að borga eftir á kostnað af búrekstrinum síðasta ár.

Hæstv. ráðh. (JÞ) kom inn á það, hvar festa skyldi krónuna, ef til kæmi, og hann beindi þungum orðum að mjer í því sambandi. En hæstv. ráðherra er mjög vel kunnugt, að það er samhuga álit útlendra fræðimanna í þessu efni, að verðfesta beri krónuna í samræmi við innra kaupmagn hennar. Það kemur hvergi fram hjá mjer, að krónan eigi endilega að falla. Aðalatriðið er, að samræmt sje skrásett verð hennar og raunverulegt kaupgildi.

Að síðustu skal jeg segja hæstv. ráðh. (JÞ) út frá því, sem hann sagði til mín og annara, sem festa vilja gengið, að hann þarf ekki að vænta samvinnu við mig til þess að festa núverandi gengi, ef ekki verður jafnframt gefið ákveðið loforð um að festa það endanlega.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hjelt ræðu, sem mjer kom ekki á óvart. Jeg skal ekki eyða um hana mörgum orðum. Hv. þm. spurði meðal annars, hvenær hefði verið ástæða til að hækka krónuna, ef ekki á árunum 1924–25. Jeg svara því á þá leið, að yfirleitt er aldrei ástæða til að hækka peninga. Höfuðnauðsynin er sú, að hafa verðgildi peninganna fast. Hafi verið ástæða til þess að hækka peningana á þessum árum, þá ætti yfirleitt að vera nauðsynlegt að hækka þá og lækka eftir árferði. — Hv. þm. (JBald) heldur fram kenningu, sem jeg álít ranga, að meiri hætta sje á sveiflum, ef reynt sje að festa verðgildi krónunnar. Vitanlega er hættan í þessu efni mest meðan gengið er laust. Það er viðurkent, að ef þing og stjórn og fjármálamenn eru sammála um að festa gengi peninganna, þá er það hægt, ef farið er rjett að.

Hv. þm. (JBald) kom inn á eina samþykt gengisnefndarinnar, sem valdið; hefir miklu umtali. Hann hafði um þetta hörð orð, en tók þó fram, að jeg, hefði ekki verið við þessa samþykt riðinn. Jeg skal ekki leggja dóm á þetta. En mín skoðun er sú, að aðalgallinn á þeirri samþykt hafi verið sá, hve skamt hún fór. Genginu átti, samkvæmt samþyktinni, að halda föstu til 15. sept., en hefði átt að vera haldið föstu alla tíð, frá því samþyktin var gerð.

Hv. þm. (JBald) talaði mjög um atvinnuleysið, en vildi samt halda áfram að hækka krónuna. Jeg veit, að hjer eru margir verkamenn mjög áhyggjufullir út af atvinnuleysinu. Utan af landi hafa komið hingað margir menn í atvinnuleit, sem ekkert fá að gera. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) er fulltrúi þeirra. Fyrirgefi þeir honum framkomu hans í þessu máli, — fyrirgefi verkafólkið honum, sem hjer er búsett, — fyrirgefi sjómennirnir honum, því að hann veit ekki, hvað hann er að gera.