26.02.1926
Neðri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Ásgeir Ásgeirsson:

Mjer kom í hug við svarræðu hæstv. fjrh. (JÞ) gömul saga um íslenskan prest, sem átti að hafa verið trúboði á Grænlandi. Hann var ekki sem best rjetttrúaður áður en hann fór, en þegar hann hitti Eskimóana, ofbauð honum, að þeir skyldu trúa öllum þeim fræðum, er hann þuldi yfir þeim, og er því sagt, að hann hafi kveðið þessa vísu:

Þá aldrei hendir orði guðs að hafna.

Öllu trúa í einfeldne,

ótrúlegt þó næsta sje.

Þessi vísa er mjer minnisstæð af því, að hún lýsir svo góðlátlega rjetttrúnaði nemenda efagjarns læriföður. Mjer finst líkt ástatt hjer. Jeg hefi fengið mild tilsvör fyrir að halda fram sumum aðalatriðunum í bók hæstv. fjrh., „Lággengi“. En þar eru rjett festingarrök rakin. Ef menn fallast á kenningar Cassels, um kaupmáttarjafngengið, sem enginn fræðimaður hefir enn vogað sjer að neita, þá ættu menn að vilja festa gjaldeyri lands síns fljótlega.

Jeg hóf umræðurnar með því, að minnast á sögu gengismálsins á síðasta ári. Það er ekki einskisvert að ræða um liðna tímann, því að hvergi nema í fortíðinni er hægt að fá vitneskju um, hvað gera skuli í framtíðinni. Jeg hefi ekki sannfærst af skýrslu ráðherrans um nauðsyn þeirra ráðstafana, sem gerðar voru. Það er einkum í gjaldeyrismálinu nauðsynlegt að hafa eldhúsdag einu sinni á ári. Það hefir verið einhver lausung yfir stofnun gengisnefndarinnar. Það hefir enginn fengið að koma inn í það allra helgasta hjá henni nema tveir atkvæðislausir fulltrúar sjávarútvegs og landbúnaðar. Þetta er mjög óviðunandi. Það er að sjálfsögðu þingið, sem á að ráða stefnunni í gengismálinu, og því er það nauðsynlegt, að það fái allar upplýsingar, sem hægt er að fá í þessu máli. Það verður að fá að vita allar ástæður þeirra, sem ráðið hafa gengisskráningunni. En jeg veit ekki til, að þinginu eða fjhn. hafi borist nokkur skýrsla um störf nefndarinnar, en það er þó beint skilyrði þess, að fjhn. geti unnið það starf, sem henni er ætlað og hún á að vinna.

Það er rjett haft eftir mjer, að jeg taldi enga hættu af því, þó haldið hefði verið áfram að kaupa erlendan gjaldeyri með óbreyttu gengi, það er að vísu rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að þar eru tveir aðiljar, sem hafa vald yfir inneigninni, sem myndast, sem sje bankarnir og sá, sem innlenda gjaldeyrinn, inneignina, hefir keypt. Hann getur lánað fje sitt út meðal landsmanna. En hann gerir það ekki. Það fje, sem hann ætlar að hirða af gengisgróða á skömmum tíma, má hann ekki binda í innlendum atvinnuvegum eða mannvirkjum. Það gerir enginn gengisbraskari að lána braskfje sitt út í þá kreppu, sem hann er að skapa með gjaldeyrisverslun sinni. Það er því fullkomlega einhlítt, eins og jeg sagði, að bankarnir gæti þess að binda ekki fjeð, heldur hafi það handbært.

Hæstv. fjrh. þótti ískyggilegt, hve erlendar inneignir í Landsbankanum hefðu minkað, og mjer fanst hann gefa í skyn, að það fje, sem farið er, væri komið út í umferð, án þess að vera borgun fyrir afurðir landsins, það kann að vera eitthvað örlítið, en ekki sem neinu nemur til þess að þurfa að hafa áhrif á gengið eða gjaldeyrisverslunina. Það vantar, að hæstv. fjrh. (JÞ) þori að koma með þá fullyrðingu, skýrt og skorinort, að mikið óeðlilegt fje hafi verið á ferðinni. Án þeirrar fullyrðingar er ástæðulítið að koma með almennar hugleiðingar um það, að tveir hafi umráðin yfir inneignunum, en ekki bankinn einn. Jeg hefi látið bæði bankastjórnirnar og stjórnarblaðið Vörð telja mjer trú um, að ekkert óeðlilegt fje sje í umferð. Þetta hefi jeg lesið tvisvar í Verði, í ágúst- og desemberblaði, í greinum undirrituðum með „G r.“, sem mun vera skammstöfun á: Gangráður, sem hjer mun merkja, að greinarnar sjeu eftir þann, sem ræður genginu.

Nú vil jeg fyrst drepa á það, að þegar hæstv. fjrh. (JÞ) svarar þannig, hverfur hann burt frá fyrstu fullyrðing sinni, að um óeðlilega fjársöfnun hafi verið að ræða, er hann nú byggir á því, að ekkert óeðlilegt fjármagn hafi borist að. Svona lagaða rökfærslu er erfitt að taka gilda. Hæstv. fjrh. (JÞ) verður að gefa yfirlýsingu um það, hvort nokkur óeðlileg fjársöfnun hafi átt sjer stað, og í öðru lagi um það, hversu mikið fje var um að ræða, er þannig var ástatt um. Sú áætlun þarf ekki að vera fullkomlega nákvæm, það er nóg að fá að vita svona hjer um bil, um hve miklar upphæðir var að ræða. Bankastjórar eða fjrh., sem hafa haft grun um, að þetta ætti sjer stað, hljóta að hafa gert sjer einhverja lauslega ágiskun um það. Það, að hæstv. fjrh. (JÞ) er ófáanlegur til að gefa skýr og afdráttarlaus svör um „óeðlilega fjeð“, og byggir í röksemdaleiðslu sinni ýmist á því, að eitthvert slíkt fje hafi verið á ferðinni, eða á hinu, að jeg segi, að svo hafi ekki verið, — ber ótvíræðan vott um, að ráðh. stendur hjer ekki föstum fótum. Svör hans — eða vöntun hans á svörum — ber þess skýran vott, að það er rjett, sem jeg segi, að krónan þurfti ekki að hækka vegna „spekulationshættu“. Í því er aðalásökunin fólgin, Stjórnin var sjálfráð um aðgerðir sínar og þurfti ekkert tillit til annars að taka en atvinnuveganna og fjárhagslegra ástæðna.

Hæstv. fjrh. (JÞ) tók vel í það að vera mjer samtaka í því að halda í hið núverandi gengi á íslensku krónunni, og það er alveg rjett, að við getum vel átt samleið í því — til að byrja með.

En það er sá mikli munur á skoðunum okkar festingarmanna og hæstv. fjrh., að hann vill leggja stórfje í áhættu til þess að hanga í núverandi gengi, en jeg og skoðanabræður mínir viljum ekki eyða til þess grænum eyri; það er óskynsamlegt, fávíslegt og skaðlegt að streitast við að halda uppi óeðlilegu gengi á gjaldeyri, sem eins og háttv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði svo skorinort í ræðu sinni áðan, að sje eitt nægilegt til að sliga atvinnuveginn. Dálaglegt að láta þá greiða skatta, sem svo er varið til að halda uppi drepháu gengi! Það er hið sama og að ríkið ætli að kaupa erlendan gjaldeyri, sem það svo altaf selur út aftur of lágu verði. Þetta er þá einskonar Landsverslun, sem selur út vörur við lægra verið en þær voru keyptar inn fyrir, til að sliga framleiðsluna á sömu vöru í landinu sjálfu. Eða hvað mundi t. d. Íhaldsflokkurinn segja um þess háttar landsverslun, ef t. d. Ólafur Friðriksson eða einhver annar gerði þá tillögu, að stofnuð yrði ríkisverslun, sem flytti inn dósamjólk, sem svo yrði seld langt undir innkaupsverði og framleiðsluverði bændanna hjer í Mosfellssveitinni. Og til þessarar starfsemi ættu svo bændur að greiða skatta!

Það er einmitt þetta, sem núverandi hæstvirt ríkistjórn er að gera með gengisstefnu sinni, atvinnuvegum landsins til stórtjóns. — Hreint og beint leggur fje til höfuðs atvinnuvegunum!

Hitt er satt, — og það munu allir vera sammála um, að ákjósanlegt væri að draga úr dýrtíðinni. Jeg er því sammála, að það væri best, ef hægt væri að draga úr dýrtíðinni, — sem er sama og að lækka svo framleiðslukostnaðinn, og þar á meðal kaupið, — að hann komist í samræmi við núverandi gengi peninganna. En jeg held samt, að þetta muni taka alt of langan tíma og harmkvæli fyrir atvinnulífið. Háttv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði, að kaupið á togurunum væri hærra nú en þegar krónan var í kr. 0,48 gulls. Jeg held það sje ekki hægt að jafna þetta með góðu móti. það tókst ekki í Svíþjóð. Það er víða hægt að lesa yfirlýsingar helstu fjármálamanna Svía um það, að ef þeir hefðu vitað fyrirfram, hvað hækkunarstefna þeirra mundi kosta, þá mundu þeir aldrei hafa lagt út á þá braut, og að þeir ráðleggi engum að feta í fótspor sín á þeirri leið. Þeir segja: „Þið eigið ekki að tala um það, að þið ætlið að hækka gjaldeyririnn í verði. Þið eigið að segja, að þið viljið stofna til verkfalla og verkbanna. Þið viljið koma af stað atvinnuleysi og óáran meðal alls almennings, og ef þjóðin þá vill halda með ykkur út á þá þyrnibraut, er auðvelt fyrir ykkur að koma hækkuninni fram.“ En þetta tekst ekki. Þjóðin krefst nýrra framkvæmda, aukinnar útgerðar og umbóta í landbúnaði, vill fá lagða nýja vegi, ár brúaðar, lagðar járnbrautir o. s. frv. það er ekki sjerlega ánægjulegt að stöðva allar slíkar framkvæmdir í full 10 ár eða kannske meir, til þess að nota sveita þjóðarinnar til gengishækkunar, sem enginn hefir gagn af! Allar slíkar framkvæmdir, sem jeg nefndi, þurfa fje; það þarf erlend lán og ýmislegt fleira, sem er alveg ósamræmanlegt við hækkunarstefnuna. Hækkunarstefnan er kyrstaða, verkföll, illdeilur og óáran.

Hæstv. fjrh. (JÞ) ætti annars að taka höndum saman við háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), skoðunarbróður sinn, um harmkvælalausa gengishækkun, Ef þeir geta orðið samtaka, með allan verkalýð landsins að baki sjer, um kauplækkanir og alt það, sem þarf til rólegrar gengishækkunar og verðlagslækkunar, hefi jeg von um, að það kunni að takast að fá hækkunarstefnunni framgengt. (Fjrh. JÞ: Hvað fæ jeg í staðinn?). Verði þeir samtaka og geti fengið verkalýðinn til að fallast á lækkun kaupsins, að hætta verkföllum o. s. frv., þá er jeg líka hækkunarmaður!

Nei, hækkuninni fylgja margir og illir örðugleikar, og jafnvel í Svíþjóð, þar sem jafnaðarmennirnir framkvæmdu hækkunarstefnuna, gerðu þeir sjer þetta vel ljóst. Jeg geri varla ráð fyrir, að við eignumst fjármálaráðherra, sem fari jafn-skynsamlega að ráði sínu og þeirra fjármálaráðh., Thorson, sem m. a. sagði: „Á meðan á þessu stendur, styðjum vjer enga atvinnuvegi til að framleiða óseljanlegar vörur. Við greiðum í hæsta lagi einhverja styrki, aðeins til að tryggja það, að líkami og sál geti hangið saman.“ Hjer hjá okkur er hætt við, að annað yrði uppi. Hjer held jeg, að hætt yrði við því, að ríkissjóður fengi eitthvað á sig af skakkaföllum atvinnuveganna, atvinnurekenda og verkalýðs. Ekki mundi standa á kröfunum. Ríkissjóður á að bæta alt! Og þó er hann ekkert annað en skuggi af afkomu þjóðarinnar. Gengishreyfingar geta verið hraðar, en þjóðfjelagið hreyfist hægar, og á meðan verðbreytingarnar eru að elta gengisbreytingarnar eru hættulegir tímar. Og hvað er unnið, þegar fullri hækkun er náð? Dýrtíðin minkar! segja menn. Hvað er dýrtíð? Það er „relativt“ hugtak, hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags í landinu. Ef það hlutfall helst óbreytt, er dýrtíðin ávalt hin sama. Er þá vert að fórna miklu af þessum ástæðum? Þegar ávinningurinn er ekki meiri en sá, að maður, sem þarf 200 kr. til að lifa fyrir, fær 200 kr., en þurfti áður 400 kr. og fjekk þær, þá er ekki ástæða til að leggja mikið í sölurnar.